Stefnumörkun 2019-2022

Miðstöð íslenskra bókmennta leggur fram tillögur til mennta- og menningarmálaráðherra um stefnumörkun til þriggja ára. Hér að neðan eru þau stefnumið sem stjórn telur æskilegt að leggja áherslu á þegar fjármunum til stuðnings íslenskri bókmenningu, bókaútgáfu og kynningu á íslenskum bókmenntum innanlands og utan verður ráðstafað á komandi árum.

Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta telur mikilvægt að styrkja enn frekar fjárhagslegan grunn miðstöðvarinnar svo hún geti ávallt gegnt lögbundnu hlutverki sínu og eflst enn frekar.

Stuðningur við bókaútgáfu, rithöfunda og þýðendur

Samkvæmt lögum er hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta að styrkja útgáfu bóka á íslensku, styðja við og styrkja þýðingar og kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis og efla bókmenningu hér á landi. Markmiðið er að tryggja fjölskrúðuga og metnaðarfulla útgáfu hér á landi, útrás íslenskra bókmennta og þýðingar erlendra verka á íslensku.

Til að ná framangreindum markmiðum veitir miðstöðin árlega styrki til innlendra og erlendra útgefenda og höfunda; útgáfustyrki, barna- og ungmennabókastyrki, þýðingastyrki, nýræktarstyrki, ferðastyrki höfunda, dvalarstyrki þýðenda, kynningarþýðingastyrki og lestrarskýrslustyrki.

Jafnframt leitist miðstöðin ávallt við að veita styrki til fjölbreytilegrar starfsemi á bókmenntasviðinu innanlands og utan.

Kynning og sókn íslenskra bókmennta og höfunda erlendis

Miðstöðin styður við og kynnir íslenskar bókmenntir erlendis og aðstoðar íslenska rithöfunda og útgefendur við kynningu ytra á ýmsa vegu. Miðstöðin gefur árlega út kynningarlista yfir bækur liðins árs, sem eru taldar eiga sérstakt erindi á erlenda markaði, og kynnir á helstu bókastefnum erlendis. Greiða skal götu íslenskra bókaútgefenda til að efla tengsl þeirra við erlenda kollega með útgefendaskiptum milli Íslands og annarra landa.

Verklag við styrkúthlutun

Til að tryggja fagmennsku við afgreiðslu styrkja felur miðstöðin utanaðkomandi bókmenntaráðgjöfum, sem ráðnir eru til eins árs í senn, að gera tillögur að úthlutun styrkja. Stjórn úthlutar styrkjum, hefur eftirlit með og ber ábyrgð á því að farið sé að lögum.

Þýðendur íslenskra bókmennta

Stefnt skal að því að efla enn frekar stuðning við þýðendur íslenskra verka á erlend mál og hvetja erlenda útgefendur til að leggja enn frekari rækt við íslenskar bókmenntir. Lögð verði áhersla á að styrkja þýðingar á íslenskum verkum á erlend tungumál og þýðingar á sýnishornum nýrra verka.

Haldin verði þýðendaþing fyrir þýðendur íslenskra bókmennta á erlend tungumál annað hvert ár í samvinnu við helstu stofnanir á sviði bókmenntanna. Unnið verði áfram að þróun, kynningu og notkun þýðendasíðu á vef miðstöðvarinnar og Orðstír, heiðursviðurkenning til þýðenda íslenskra bókmennta á erlend mál, verði veittur annað hvert ár.

Hvatt til aukins lestrar

Miðstöðin stuðli að markvissum lestrarhvetjandi aðgerðum í samvinnu við breiðan hóp á bókmenntasviðinu, með það að markmiði að auka áhuga á lestri og efla tengsl lesenda og rithöfunda. Einn liður í því eru heimsóknir rithöfunda í framhaldsskóla sem hefjast árið 2020 í samstarfi við menntamálayfirvöld og fleiri.

Könnun á lestrarvenjum landsmanna

Miðstöðin hafi áfram frumkvæði að því að árlega verði gerð lestrarkönnun meðal landsmanna í samvinnu við fagfélög og stofnanir innan bókageirans.

Jafnrétti

Hér eftir sem hingað til skal leitast við að gæta kynjajafnréttis í öllu starfi Miðstöðvarinnar; við styrkúthlutanir, þátttöku höfunda í viðburðum, vali bókmenntaráðgjafa og fleira.

Virkt samstarf

Miðstöðin eigi ávallt frumkvæði að virku samstarfi við sem flesta fag- og hagsmunaaðila á þeim sviðum sem snerta starfsemi hennar, þar á meðal rithöfunda, bókaútgefendur, þýðendur, háskólana, bókasöfn, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Bókmenntaborgina, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sendiráð Íslands erlendis og Íslandsstofu.

Reykjavík, 2. október 2019

Virðingarfyllst, f.h. stjórnar, 

Heiðar Ingi Svansson, formaður 

Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta skipa auk formanns:

Salka Guðmundsdóttir, varaformaður

Sigmundur Ernir Rúnarsson

Bryndís Loftsdóttir

Kristján Jóhann Jónsson