Alþjóðlegt þýðendaþing í Reykjavík 2017

„Þýðendur eru múrbrjótar, þeir koma í veg fyrir að orð festist innan lokaðra landamæra.“

Vel heppnuðu þýðendaþingi lokið. Frábær vettvangur fyrir þýðendur íslenskra bókmennta til að efla tengslin. Þýðendurnir hittu kollega frá ýmsum heimshornum, íslenska höfunda, fræðimenn, útgefendur og aðra sem láta sig íslenskar bókmenntir varða.

 • IMG_1267_2

Mikilvægt, gagnlegt og skemmtilegt 

Alþjóðlegt tveggja daga þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta fór fram í Veröld - húsi Vigdísar 11. og 12. september, og voru aðstandendur og þátttakendur hæstánægðir með hvernig til tókst. Á þinginu fengu þýðendurnir tækifæri til að hitta kollega sína frá ýmsum heimshornum, íslenska höfunda, fræðimenn, útgefendur og ýmsa aðra sem láta sig íslenskar bókmenntir varða, auk þess að hlusta á erindi og taka þátt í umræðum um bókmenntir og þýðingar. Þessir tveir dagar voru gagnlegir og skemmtilegir og reyndust jafnframt góður vettvangur fyrir þýðendur íslenskra bókmennta til að efla tengslin.

Ómetanlegir sendiherrar 

Það er deginum ljósara að góðir þýðendur eru frábærir sendiherrar íslenskra bókmennta á erlendri grundu og ber að þakka þeim metnaðarfullt og óeigingjarnt starf sem þeir inna af hendi í þágu þeirra og var þingið liður í því. Þýðendaþingið fór fram á íslensku og var eftir því tekið hvað þessir þýðendur íslenskra bókmennta á erlend mál tala góða íslensku.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti ÍslandsForsetinn flutti ávarp og setti þingið 

Setning þingsins fór fram í fyrirlestrasal Veraldar - húsi Vigdísar að viðstöddum góðum gestum; mennta- og menningarmálaráðherra, frú Vigdísi Finnbogadóttur, þýðendunum og fulltrúum samstarfsaðila um þingið.  Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp og sagði meðal annars: ,,Hermt er að aldrei hafi fleiri unnið að þýðingum úr íslensku, aldrei komið út fleiri þýðingar á íslenskum verkum. Já, sem betur fer er áhugi á bókmenntum okkar vaxandi um víða veröld, ennþá til fjöldi fólks vill vita hvað er skrifað og hugsað á þessu lífseiga og lifandi tungumáli. Þýðendur eru múrbrjótar, þeir koma í veg fyrir að orð festist innan lokaðra landamæra, þeir ljá þeim vængi og frelsi. Væri heimurinn betri ef þetta yrði aðeins hægt að segja á einn hátt, á einu máli? No way, Jose! Ó nei, Jóney!”

Þakklætisvottur og hvatning í senn

Hrefna Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta, bauð gesti velkomna og þakkaði þýðendunum þeirra mikilvæga starf við útbreiðslu íslenskra bókmennta, menningar og hugsunar. Hún sagði markmiðið með þýðendaþinginu vera að treysta tengslin við starfandi þýðendur á erlend tungumál og sýna í verki hve mikils metin þeirra vinna er jafnframt því að hvetja nýja þýðendur til dáða.   

Victoria Cribb og Eric Boury

Handhafar Orðstírs þýða á ensku og frönsku

Nýbakaðir handhafar Orðstírs 2017, þau Victoria Cribb sem þýðir á ensku og Eric Boury sem þýðir á frönsku, deildu með gestum hugleiðingum sínum um störf þýðandans og auknar vinsældir íslenskra bókmennta í þeirra heimalöndum. Orðstír er heiðursviðurkenning til þýðenda íslenskra bókmennta á erlend mál sem afhent er annað hvert ár í tengslum við Bókmenntahátíð í Reykjavík. 

Þurfum bæði Vegagerð og Ljóðvegagerð 

Hallgrímur Helgason, rithöfundur og handhafi Íslensku þýðingaverðlaunanna 2017, messaði yfir gestum og sagði meðal annars: ,,Af hverju þurfum við þá að standa í þessu eilífa ströggli við ríki og fólk? Af hverju þurfum við að verja það að við séum á launum við að skrifa? Pabbi var ríkisstarfsmaður alla sína tíð, hannaði og teiknaði brýr um allt land. Allir voru sammála um að það þyrfti brýr, yfir ár og læki, svo við kæmumst eitthvað áfram sem samfélag. Erum við ekki líka sammála um að við þurfum ljóð og sögur, yfir daga og vikur, svo við séum til einhvers sem samfélag? Þetta er allt saman vinna og vinna krefst launa. Við þurfum bæði Vegagerð og Ljóðvegagerð.” Erindi Hallgríms má sjá hér í fullri lengd. 

IMG_1214_2Fjölbreytt dagskrá með vinnustofum, erindum og samtölum 

Dagskrá þingsins var fjölbreytt í formi fyrirlestra og vinnustofa. Það er afar viðeigandi að þýðendaþingið var einn fyrstu viðburðanna í þessu fallega húsi, Veröld, sem hýsir alþjóðlega tungumálamiðstöð og alla kennslu og rannsóknir í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Á dagskrá var einnig móttaka, bókmenntaganga, spjall við höfunda og fleira.

Þarna komu saman 31 þýðandi frá 17 málsvæðum, jafnt reyndir þýðendur og nýir. Tungumálin sem þeir þýða á eru enska, danska, finnska, franska, galisíska, hollenska, ítalska, kínverska, norska, portúgalska, pólska, serbneska, spænska, sænska, tékkneska, ungverska og þýska. Um helmingur þátttakenda er búsettur hér á landi og helmingur kemur að utan. 

Auður Ava Ólafsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir hittu þýðendurna 

IMG_1244_4_1505487308394IMG_1221_2Meðal þeirra sem ræddu við þátttakendur á þinginu voru rithöfundarnir Steinunn Sigurðardóttir og Auður Ava Ólafsdóttir en þær eru báðar í miklum tengslum við þýðendur sinna bóka, sem sumir hverjir sátu þingið. Bókmenntafræðingurinn og leikkonan Maríanna Clara Lúthersdóttir hélt skemmtilegt og fróðlegt erindi um íslenskar nútímabókmenntir, Jón Karl Helgason, prófessor í íslensku sem öðru máli, flutti góða hugleiðingu um íslenskunám og þýðendur íslenskra bókmennta, og orðabókaritstjórar Árnastofnunar, þær Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir, kynntu yfirlit yfir gagnlegar vefsíður um íslenskt mál og rafrænar orðabækur, svo eitthvað sé nefnt. 

Auk þess var farið í bókmenntagöngu um miðbæ Reykjavíkur með starfsmönnum Borgarbókasafnsins, í móttöku á bókalager Forlagsins og síðast en ekki síst, borðaður góður matur í góðum félagsskap.

Sjá heildardagskrá þýðendaþingsins hér . 

Mikilvægi svona þings er óumdeilt og er það von aðstandenda, og þýðenda að ekki verði langt að bíða næsta þings.

Aðstandendur og samstarfsaðilar 

Miðstöð íslenskra bókmennta hafði veg og vanda af undirbúningi og skipulagi þingsins. Samstarfsaðilar voru Árnastofnun, Félag íslenskra bókaútgefenda, Bandalag þýðenda og túlka, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Rithöfundasamband Íslands, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. 

Þingið naut jafnframt fjárstuðnings Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Utanríkisráðuneytis og Íslandsstofu.

 

 • Þýðendur á Fiskislóð
 • Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands
 • Hallgrimur_1505487081740
 • IMG_0118
 • Vicky
 • Eric
 • Setning-kaffi
 • 026
 • IMG_1224_2
 • IMG_0123_1505485713558
 • IMG_0131_1505486097759
 • IMG_0104_1505486308517
 • IMG_1237_2
 • IMG_0135
 • IMG_1269_2
 • Vinnustofa
 • IMG_0150_1505730671403
 • IMG_0157
 • Kott-gra-pje
 • IMG_1246_2_1505487521439
 • IMG_1214_2