Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta haldið 24. og 25. apríl 2023
20 þátttakendur komu frá Frakklandi, Spáni, Ítalíu, Portúgal, Tékklandi, Serbíu, Króatíu og Póllandi eða eru búsett hér á landi.
Styrkja þarf tengslin og fjölga þýðendum íslenskra bókmennta á erlend mál og þar gegna þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta mikilvægu hlutverki.
Hópurinn samankominn, þýðendurnir og skipuleggjendur þingsinsMiðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 24.-26. apríl 2023. Miðstöðin hefur haldið sambærileg þing annað hvert ár frá árinu 2017 og hafa þau ótvírætt sannað gildi sitt, enda nauðsynleg til að viðhalda og efla þýðingar úr íslensku á önnur tungumál.
Áhugi á íslenskum bókmenntum erlendis er mikill og vaxandi eins og sjá má af þeim fjölda íslenskra rithöfunda sem eiga bækur í erlendum þýðingum. Til að mæta þörfinni er nauðsynlegt að fjölga þýðendum á erlend mál og þar gegna þýðendaþing mjög mikilvægu hlutverki.
Að þessu sinni var sjónum beint að rómönskum og slavneskum málum og um 20 þátttakendur koma frá Frakklandi, Spáni, Ítalíu, Portúgal, Tékklandi, Serbíu, Króatíu og Póllandi eða eru búsett hér á landi. Öll eiga þau það sameiginlegt að þýða beint úr íslensku á sitt móðurmál.
Markmið með þýðendaþingi á Íslandi er að hvetja til dáða þau sem vinna nú þegar við þýðingar og auðvelda þeim að komast í snertingu við íslenskar bækur og menningu á líðandi stund, sem og að fá nýtt fólk til starfans; hagnýtt gildi og hvatning í senn.
Boðið var reyndum og óreyndum þýðendum í bland. Dagskrá þingsins var sett saman af vinnustofum, fyrirlestrum, kynningum á íslenskri menningu, tungu, bókmenntum og fleiru.
Miðstöð íslenskra bókmennta hefur samstarf við fjölda aðila og stofnana innan bókmenntageirans, sem málið varðar og eru einhuga um mikilvægi svona þings, þar má nefna Árnastofnun, Félag íslenskra bókaútgefenda, Bandalag þýðenda og túlka, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Háskóla Íslands, Íslandsstofu, Reykjavík Bókmenntaborg Unesco og Rithöfundasambandið.