Frá sögum til sögusagna
Höf.: Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands.
Hvar á að byrja þegar sagt skal frá íslenskum bókmenntum? Á að hefja þá sögu árið 1000 þegar Völuspá, eitt fegursta og dramatískasta kvæði norrænna fornbókmennta var ort á Íslandi, ef marka má kenningar Sigurðar Nordals? Allavega er ekki hægt að sleppa því að tala um íslenskar miðaldabókmenntir því þær hafa ekki aðeins leikið stórt hlutverk í sögu þjóðarinnar heldur eru þær helsta framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar.Saga Noregskonunga var skrifuð á Íslandi. Íslendingasögurnar voru skrifaðar á 13. – 14. öld og eru einstakar fyrir margra hluta sakir. Þær voru ekki byggðar upp eins og króníkur eða sagnaþættir heldur er frásagnarlist þeirra líkari síðari tíma skáldsögum og þær eru sagðar af miklu listfengi. Enginn veit hver skrifaði þessar bækur. Íslendingasögurnar segja frá landnámi Íslands og skiptingu landsins milli ætta, setningu laga og byggingu samfélags, átökum sem snerust um hagsmuni eða heiður. Þessi átök þróuðust oft út í flókið mynstur fæðardeilna og loks borgarastríð á þrettándu öld sem leiddi til þess að Ísland komst undir stjórn Noregs og síðan Danmerkur og var dönsk nýlenda í meira en sex aldir. En allan þann tíma héldu menn áfram að afrita, lesa og ræða hinar fornu sögur.
"Íslendingasögurnar segja frá landnámi Íslands og skiptingu landsins milli ætta, setningu laga og byggingu samfélags, átökum sem snerust um hagsmuni eða heiður."
Í sjálfstæðisbaráttu nítjándu aldarinnar uppgötvuðu íslenskir stjórnmálamenn að það var hægt að nota miðaldabókmenntir í pólitískum tilgangi. Til að sanna að nýlendan ætti menningarverðmæti sem hún gæti verið stolt af bentu menn á Íslendingasögurnar og notuðu þær til að sanna að á meðan Ísland var sjálfstætt ríki hafi karlarnir verið hetjur og drengir góðir og konurnar fagrar og stoltar og sólin hafi stöðugt skinið á fyrirmyndarríkið. Smám saman losnuðu böndin milli Íslands og Danmerkur, Ísland fékk heimastjórn 1918 og loks fullt sjálfstæði 1944. Árið eftir að heimastjórnin var fengin sendi Þórbergur Þórðarsson (1888-1974) frá sér bók sem var eins ólík Íslendingasögunum og unnt var. Þar birtist nýtt “subjectivity”, nútíminn var kominn til að vera. Þessi bók Þórbergs Þórðarsonar var Bréf til Láru (1924), hybrid texti þar sem blandað er saman sendibréfum, ritgerðum, smásögum, fantasíu og gríni. Í stað hlutlægs stíls Íslendingasagnanna var komin hamslaus sjálfstjáning og huglægni sem gerði íslenska lesendur vandræðalega.
Um svipað leyti skrifaði annar bráðungur höfundur, Halldór Laxness (1902-1998), bréf til vinar síns og sagðist ekki vita leiðinlegri og úreltari skrif en þau sem Snorri Sturluson og aðrir miðaldamenn hefðu skrifað, Íslendingasögurnar væru frumstæður samsetningur sem ætti ekkert erindi við nútímann. Sjálfur taldi hann sig eiga brýnt erindi við samtímann eins og sjá mátti í skáldsögu hans Vefarinn mikli frá Kasmír (1927), skáldsögu sem lýsir ákafri sjálfsleit ungs manns en leitin ber hann um þvera Evrópu og endar á því að hann afneitar hinni rugluðu og trylltu veröld, gerist kaþólskur og gengur í klaustur. Bókina skrifaði Halldór Laxness að mestu á Taormina á Sikiley. Vefarinn mikli frá Kasmír átti að verða óður hans til kaþólsku kirkjunnar en í raun skrifaði hann sig frá henni með þessari bók og næst fréttist af honum þar sem hann var kominn til Los Angeles, orðinn kommúnisti og önnum kafinn við að boða Íslendingum efnishyggju og vísindalegan sósíalisma. Þórbergur Þórðarson og Halldór Laxness gnæfðu eins og tvíburaturnar yfir íslenskum bókmenntum stóran hluta af 20 öldinni og báðir höfðu sterkar skoðanir á því hvað íslensk menning væri eða ætti að vera.
"Þórbergur Þórðarson og Halldór Laxness gnæfðu eins og tvíburaturnar yfir íslenskum bókmenntum stóran hluta af 20 öldinni og báðir höfðu sterkar skoðanir á því hvað íslensk menning væri eða ætti að vera."
Á kreppuárunum og stríðsárunum skrifaði Halldór Laxness hvert stórvirkið á fætur öðru; hann fjallaði um fiskverkakonuna Sölku Völku í sjávarþorpi, bóndann Bjart í Sumarhúsum á heiðarbýli, alþýðuskáldið Ólaf Kárason og vinnukonuna Uglu sem kemur að norðan til Reykjavíkur og verður vitni að upplausn og menningarmisgengi í borginni rétt eftir seinni heimstyrjöld. Og nú hafði Halldór Laxness algerlega snúið við blaðinu í viðhorfum sínum til miðaldabókmenntannna. Bókmenntaarfurinn hafði verið notaður til að styrkja þjóðernislegt sjálfstraust í sjálfstæðisbaráttunni og varð þannig hluti af þjóðernisbyggingu landsmanna, Íslendingasögurnar voru upphafnar og gefinn status helgra texta. Halldóri Laxness og vinum hans var mjög í mun að endurheimta miðaldabókmenntirnar úr klóm þjóðernissinna, þeir gáfu nokkrar sagnanna út með nútímastafsetningu fyrir alþýðu manna og undirstrikuðu að þær væru lifandi bókmenntir.
"Árið 1955 fékk Halldór Laxness Nóbelsverðlaunin fyrir að gefa íslenskum miðaldabókmenntum nýtt líf og hlutverk með túlkun sinni og nýsköpun."
Þetta gekk upp á áhugaverðan hátt því að existensíell mannsskilningur Íslendingasagnanna og hlutlæg, knöpp frásagnaraðferð féll vel að bókmenntastraumum eftirstríðsáranna og var ekki ólík stíl Hemingways svo nokkuð sé nefnt. Árið 1952 gaf Halldór Laxness svo út sína eigin Íslendingasögu, Gerplu, þar sem segir frá tveimur vinum, hetjunni og skáldinu, sem dreymir um að verða hermenn og hirðmenn Ólafs helga Noregskonungs (995-1030). Annar þeirra verður leiguhermaður á Englandi og horfist í augu við hrylling morða og ránsferða víkinganna, hinn fórnar öllu sem er honum kært til að færa konunginum kvæði sitt og tjá honum hollustu. Þegar skáldið loksins finnur konung sinn er hann orðinn reynslunni ríkari og hvorki leiðtoginn né lofkvæðið skipta lengur máli. Bókin felur í sér uppgjör við og ádeilu á einræðisherrana Hitler og Stalín og þá bardagamenn og skáld sem fylgdu þeim í blindni. Bókin fól líka í sér uppgjör Halldórs Laxness við þá sem vildu nota sagnahefðina í þágu rómantískrar fortíðar- og þjóðernishyggju. Árið 1955 fékk Halldór Laxness Nóbelsverðlaunin fyrir að gefa íslenskum miðaldabókmenntum nýtt líf og hlutverk með túlkun sinni og nýsköpun. Halldór Guðmundsson hefur skrifað dramatíska ævisögu Halldórs Laxness og fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir hana árið 2005.
"Gerður Kristný (1970-) gaf lesendum annað dramatískt og femínískt uppgjör við ofbeldisorðræðu bókmenntaarfsins í ljóðabókinni Blóðhófni (2010) sem fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2010."
Gerður Kristný (1970-) gaf lesendum annað dramatískt og femínískt uppgjör við ofbeldisorðræðu bókmenntaarfsins í ljóðabókinni Blóðhófni (2010) sem fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2010. Í sterkum, mögnuðum ljóðabálki lýsir hún því hvernig goðsögnin um það hvernig frjósemisguðinn Freyr rænir brúði sinni frá framandi þjóðflokki hennar, jötnunum, byggist á ofbeldi, nauðung og kvöl séð frá sjónarhóli meyjarinnar.
Ísland var hernumið árið 1940, fyrst af Bretum en Bandaríkjamenn tóku við eyjunni strax 1941 af því að lega landsins hafði mikla hernaðarlega þýðingu. Hernámið hafði gríðarlega mikil efnahagsleg, samfélagsleg og menningarleg áhrif. Þessa má vel sjá merki í bókmenntum eftirstríðsáranna á Íslandi sem oft tjá annað hvort eftirsjá eftir gamla bændasamfélaginu eða móderníska vitund um missi, rof og bæði persónulega og samfélagslega kreppu. Módernisminn kom sem liststefna fyrst til sögunnar í íslenskri málaralist, síðan í ljóðlistinni og síðast í prósabókmenntunum á sjöunda áratugnum og bilið milli hámenningar og lágmenningar breikkaði.
Höfundarnir sem báru uppi módernisma í prósanum voru Svava Jakobsdóttir (1930-2004), Thor Vilhjálmsson (1925-2011) og Guðbergur Bergsson (1932-).
Höfundarnir sem báru uppi módernisma í prósanum voru Svava Jakobsdóttir (1930-2004), Thor Vilhjálmsson (1925-2011) og Guðbergur Bergsson (1932-). Svava Jakobsdóttir var átrúnaðargoð annarrar bylgju femínisma á Íslandi, fjölmiðlamaður, þingmaður og rithöfundur. Hún skrifaði jöfnum höndum smásögur, leikrit og skáldsögur og notaði íroníu og gróteskan húmor á nýskapandi hátt. Guðbergur Bergsson fylgdi fast á eftir og sló í gegn með bókinni Tómas Jónsson metsölubók (1966) sem gekk fram af íslenskum lesendum á ótal vegu. Efnislega lætur sagan svipuna ganga á íslensku samfélagi eftirstríðsáranna, menningarvilltu, siðblindu og hræsnisfullu. Aðalpersónan er gamall, nöldursamur karl sem talar og skrifar í mismunandi stíltegundum, rausar og röflar og ræðst á allt sem fyrir verður í hugarheimi hans sjálfs. Hið (póst)móderníska verkefni Guðbergs var að greina það siðrof sem varð í hinu nýfrjálsa síðlendusamfélagi sem vissi ekki hvert það var. Thor Vilhjálmsson var í hópi módernistanna sem breyttu íslensku menningarlífi á sjötta áratugnum og í bókinni Fljótt fljótt sagði fuglinn (1968) sýnir hann nýja og splundraða heimsmynd sem engu að síður stóð á gömlum merg goðsagna, þjóðsagna og ævafornra sagnaminna. Skáldsögur Thors voru alþjóðlegar, eirðarlausar, oft undir áhrifum nýju kvikmyndarinnar, en á níunda áratugnum færist fókus sagnanna til Íslands og þar gerist Grámosinn glóir (1986) hin dramatíska skáldsaga sem færði Thor Vilhjálmssyni Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs (1988). Síðustu árin hefur Thor Vilhjálmsson orðið æ uppteknari af íslenskum miðaldabókmenntum, einkum Sturlunga sögu, sem hann notar sem efnivið í skáldsögur um hið klofna eðli mannsins og baráttu við sjálfan sig.
Einar Kárason (1955-) hefur líka snúið sér að íslenskum miðaldabókmenntum og hyllt sagnaarfinn á sinn hátt eftir að hafa unnið hug og hjörtu lesenda með þríleik sínum um braggahverfi í Reykjavík sjötta áratugarins. Einnig hann hefur skoðað Sturlunga sögu með því markmiði að draga fortíðina inn í nútíðina. Í skáldsögunum Óvinafagnaði og Ofsa (2008) fjallar hann um átök milli íslenskra höfðingja á 13. öld. Átökin eiga rót sína að rekja til ”heiðurs” hinna deilandi stórmenna og í nafni þessa ”heiðurs” magnast öfund, samkeppni og hatur sem ná hápunkti í viðbjóðslegu fjöldamorði. Einar Már Guðmundsson (1954-) fjallar líka um heiftúðug átök en lítur sér nær í Hvítu bókinni (2009), esseyju sem fjallar um efnahagshrunið á Íslandi. Margir hafa líkt því sem þar gerðist við valdatafl og græðgi Sturlunga aldarinnar. Einar Már Guðmundsson fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1995 fyrir skáldsöguna Englar alheimsins (1993), áhrifamikla, tragíkómíska sögu um ungan, geðklofa listamann. Kvikmyndagerðarmaðurinn Friðrik Þór Friðriksson gerði prýðisgóða mynd eftir þessari sögu.
"Ágúst Guðmundsson kvikmyndaði hina magísk-realísku skáldsögu Mávahlátur (1995) eftir Kristínu Marju Baldursdóttur (1949-) sem hefur heillað íslenska lesendur með frásagnarlist sinni, áhrifamikilli persónusköpun og kvennasögu eins og í bókunum um myndlistarkonuna Karítas (2004 og 2007) sem jafnframt segir listasögu tuttugustu aldarinnar á heillandi hátt."
Íslenskar kvikmyndir hafa blómstrað síðustu tuttugu árin og oft sækja þær í áhugaverðar samtímasögur. Ágúst Guðmundsson kvikmyndaði hina magísk-realísku skáldsögu Mávahlátur (1995) eftir Kristínu Marju Baldursdóttur (1949-) sem hefur heillað íslenska lesendur með frásagnarlist sinni, áhrifamikilli persónusköpun og kvennasögu eins og í bókunum um myndlistarkonuna Karítas (2004 og 2007) sem jafnframt segir listasögu tuttugustu aldarinnar á heillandi hátt. Henni tekst að sameina bæði áherslu á atburðarás og djúpa persónusköpun. Hið sama má segja um annan sagnamann, Vigdísi Grímsdóttur (1953-) sem skrifar bæði fagurfræðilega og þematískt róttækar sögur um sexualitet og dauða. Frá og með áttunda áratugnum hafa konur komið sterkt inn í íslenskar bókmenntir og breytt mynd þeirra.
"Steinunn Sigurðardóttir (1950-) hefur skrifað innan allra bókmenntagreina og fáar íslenskar bækur hafa vakið eins mikið umtal og tilfinningarót og skáldsaga hennar Tímaþjófurinn (1986) sem segir á stílfærðan, fyndinn hátt frá”grand passion” piparmeyjar af yfirstétt."
Steinunn Sigurðardóttir (1950-) hefur skrifað innan allra bókmenntagreina og fáar íslenskar bækur hafa vakið eins mikið umtal og tilfinningarót og skáldsaga hennar Tímaþjófurinn (1986) sem segir á stílfærðan, fyndinn hátt frá ”grand passion” piparmeyjar af yfirstétt. Bókin er heimspekileg og skörp greining á þráhyggjukenndri hamingjuleit. Ef til vill er það líka kjarninn í lítilli, látlausri en magnaðri sögu eftir Sjón (1962-) þar sem við fylgjumst með veiðimanni á refaveiðum nema hvað bæði veiðimaðurinn og refurinn taka hamskiptum og barátta þeirra í hvítum snjónum er þess eðlis að hvorugur getur unnið. Þessi saga, Skugga-Baldur (2003) aflaði höfundi sínum Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2005. Sjón kom fyrst fram sem ljóðskáld, var einn helsti textasmiður rokkhljómsveitarinnar Sykurmolanna og er samstarfsmaður og vinur Bjarkar Guðmundsdóttur. Það er Bragi Ólafsson (1962-) líka en hann var bassaleikari Sykurmolanna en fór úr tónlistinni yfir í ritstörf. Sérkenni Braga Ólafssonar er fáguð og fíngerð íronía sem hann beitir kerfisbundið í skáldsögum sínum til að varpa hliðarljósi á hversdagslegt fólk í absúrd kringumstæðum. Og enn annar meistari hins samþjappaða forms og hins ósagða er Gyrðir Elíasson (1961-) sem fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir smásagnasafnið Milli trjánna. Gyrðir er bæði ljóðskáld og sagnaskáld og hans sérkenni sem höfundar eru undarlega seiðandi, fallegir og kyrrlátir textar þar sem ógnin er oftast yfirvofandi og lesandinn finnur að allur friður er stundarfriður, ekkert getur verið gefið í tilverunni en komi þessi ógn ekki utan frá kemur hún innan frá.
"Gyrðir [Elíasson] er bæði ljóðskáld og sagnaskáld og hans sérkenni sem höfundar eru undarlega seiðandi, fallegir og kyrrlátir textar þar sem ógnin er oftast yfirvofandi og lesandinn finnur að allur friður er stundarfriður, ekkert getur verið gefið í tilverunni en komi þessi ógn ekki utan frá kemur hún innan frá."
Hallgrímur Helgason (1959-) er bæði rithöfundur og myndlistamaður en hans aðalsmerki er mælska og myndauðgi. Bækur hans eru eins og þeytivinda af áhrifum úr fjölmiðlum og fjöldamenningu í bland við heimsbókmennir, samfélagsádeilu og húmor. Verðlaunaskáldsaga hans, Höfundur Íslands, fjallar um Halldór Laxness. Hallgrímur hefur líka látið til sín taka í samfélagsumræðunni eins og Halldór Laxness og notar allar tegundir miðlunar frá bók til fésbókar. Auður Jónsdóttir (1973-) er sömuleiðis pólitísk, róttæk og ögrandi í bókum sínum. Hún hefur skrifað persónulega bók um Halldór Laxness sem var afi hennar. Eins og svo margir af yngri höfundunum er Auður heimsborgari og hefur skrifað um innflytjendur á Íslandi, menningarárekstra og ”menningarlegt misgengi” (dislocation). Hinum myrkari hliðum alþjóðavæðingarinnar lýsir hún í bókinni Vetrarsól (2008). Guðrún Eva Mínervudóttir (1976-) horfir líka í bókinni Yosoy (2005) á furðulegar og óhugnanlegar hliðar hins alþjóðlega neyslusamfélags. Hún lýsir íslensku ”freak show” sem laðar að sér áhorfendur vegna þess að í leikhúsinu Yosoy er bæði ytri og innri sársauki til sýnis. Tilfinningakuldi og einmanaleiki tengjast kynlífsiðnaði samtímans og hvort tveggja verður viðfangsefni Steinars Braga (1975-) í hinni áhrifamiklu skáldsögu Konur (2008) sem varð bæði umtöluð og umdeild á Íslandi fyrir grimmd sína og fegurð.
"Grimmd er líka á dagskrá hins flókna og áhrifamikla verks Eiríks Arnar Norðdahl (1978-) Illska (2012) sem fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin sama ár."
Grimmd er líka á dagskrá hins flókna og áhrifamikla verks Eiríks Arnar Norðdahl (1978-) Illska (2012) sem fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin sama ár. Bókin er klippt í stutt atriði, eins og kvikmynd, þar sem frásögnin hreyfist hratt á milli persóna, tímasviða og atburða. Sagt er frá þremur ungum manneskjum í Reykjavík nútímans og forsögu eins þeirra, Agnesar, í þorpinu Jurbarkas í Litháen þar sem forfeður hennar voru myrtir í helförinni. Það er kaldhæðnislegt að hún, gyðingurinn, skuli falla fyrir nýnasista sem hún kynnist í rannsóknarvinnu sinni. Eitt af verkefnum bókarinnar er að stefna saman frásögnum fórnarlamba og böðla, mannhyggju og afmennskunar en fyrst og fremst er spurt um hvaðan hin róttæka illska komi.
"Undirheimar Reykjavíkur eru kortlagðir af vaxandi hópi höfunda íslenskra sakamálasagna og fremstur meðal jafningja þar er Arnaldur Indriðason."
Undirheimar Reykjavíkur eru kortlagðir af vaxandi hópi höfunda íslenskra sakamálasagna og fremstur meðal jafningja þar er Arnaldur Indriðason (1961-). Arnaldur Indriðason er sagnfræðingur að mennt og notar þekkingu sína til að afhjúpa glæpi sem oft eiga rætur í fortíð persóna og fjölskyldna. Hið sama gerir Yrsa Sigurðardóttir (1963-) verkfræðingur að mennt sem er sérstaklega flink við að byggja upp spennu í sögum sínum.
Í sögum Jóns Kalmans Stefánssonar (1963-) er horft á hið horfna sveitasamfélag með hlýju og húmor í senn og þessum rómaða stílista tekst að sameina einlægni og íroníu á einstæðan hátt. Í Himnaríki og helvíti (2007) sem fer hundrað ár aftur í tímann fjallar Jón Kalman um baráttu íslensks alþýðufólks við óblíð náttúruöfl, baráttu sem er tilvistarleg í öllum skilningi því hún snýst líka um að gefa lífinu merkingu með gjörðum sínum. Fegurðin og frumgildin eru líka viðfangsefni listfræðingsins Auðar Ava Ólafsdóttur (1958-) í hinni látlausu skáldsögu Afleggjarinn (2007) sem fer aftur fyrir neysluhyggju og alþjóðavæðingu og byrjar á byrjuninni eða þeirri ást og því trúnaðartrausti sem verður til milli lítils barns og föður þess. Þetta trúnaðartraust eða ”empathy” er kannski brumið og upphafið að allri ást og saga Auðar Ava Ólafsdóttur hefur trúarlegar vísanir til rósarinnar.
"Á sama hátt og sagnaritarar miðalda skrifuðu um upphaf samfélagins á Íslandi og ferðina frá gamla landinu til þess nýja, draga íslenskir samtímahöfundar bæði söguna og sagnaarfinn inn í samtímann og skrifa sögur um sögur."
Á sama hátt og skáld og fræðimenn miðalda ferðuðust frá eyjunni til meginlandsins og gengu til Rómar eða sigldu til Þrándheims eða Parísar til náms hafa íslenskir höfundar samtímans gert heiminn að viðfangsefni sínu. Á sama hátt og sagnaritarar miðalda skrifuðu um upphaf samfélagins á Íslandi og ferðina frá gamla landinu til þess nýja, draga íslenskir samtímahöfundar bæði söguna og sagnaarfinn inn í samtímann og skrifa sögur um sögur.