Þarf þýðing að vera skiljanleg?
Erindi Steinunnar Sigurðardóttur á alþjóðlegu þýðendaþingi Miðstöðvar íslenskra bókmennta í september 2019 í Veröld - húsi Vigdísar
Góðan dag, kæra aðalfólk, þýðendur allra landa!
Við urðum vitni að því á föstudag að þýðendur voru allt í einu komnir á óvenjulegan stað, í sviðsljós það er að segja, þegar verðlaunin Orðstír voru veitt á Bessastöðum. Að þessu sinni þeim John Swedenmark og Silviu Cosimini, sem ég er svo stálheppin að geta talið til minna þýðenda. Einhvern tímann hef ég kallað þýðendur skuggaverur - þetta dýrmæta verkafólk sem flytur bókmenntafjöll milli landa og eyja - starfsstétt sem ég mundi vilja hafa í ljósinu seint og snemma, ef það væri á mínu valdi. Þegar ég hef tök á, sæti ég færis. Þýðendur hafa í mínu tilfelli stundum verið örlagavaldar. Svo ég nefni Régis Boyer, franska þýðandann og miðaldafræðinginn, sem nú er látinn. Hann kom skáldsögunni minni Tímaþjófnum á framfæri 1996, á tímum þegar norrænar bókmennir voru ekki komnar í tísku í hinum stóra heimi, hvað þá íslenskar bókmenntir, og þröngvaði henni upp á fínt forlag í París, með þeim árangri að bókin sló í gegn og var kvikmynduð með stjörnum. Régis Boyer og fleiri þýðendum á ég meira upp að unna en ég gæti tíundað í stuttu máli.
Hvað mig sjálfa varðar, hef ég, eins og margir aðrir íslenskir höfundar, látið til mín taka á þýðingarvellinum - þó ekki eins mikið og ég hefði viljað gera - vegna þess að ég er næstum jafnlengi að þýða skáldsögu eins og ég er að semja hana. Þannig fór fyrir mér þegar ég þýddi Svarta prinsinn eftir Iris Murdoch. Það tók mig grínlaust tvö ár. Um leið varð ég fyrir þeirri auðmýkjandi reynslu að átta mig á því að ég kann ekki ensku. Ég sem hafði verið þrjú ár í háskóla í Dublin, skrifað ritgerðir á ensku, lesið ensku endalaust, og hafði varla talað annað tungumál en ensku heilu og hálfu árin.
Þegar að Svarta prinsinum kom sat ég með orðabókina á hnjánum í tvö ár - þetta var Þýðingin á tímum orðabókanna. Og ég varð margs vísari - the hard way. Ég komst að því að ofurvenjuleg orð þýddu ekki nákvæmlega það sem ég hélt að þau þýddu, eða að þau gátu þýtt annað og meira og fleira en mér hafði verið kunnugt um. Texti skáldsögunnar var á köflum mjög snúinn. Leikar fóru þannig að ég skildi ekki með nokkru móti allt sem á bókinni stóð, þrátt fyrir grimmileg heilabrot. Þannig að útgefandinn sá aumur á mér og ívilnaði mér aðstoðarmanni, sjálfum Sverri Hólmarssyni, til að draga mig í land. Mín eina uppreist æru var þegar Sverrir, þýðandi TS Eliots og Shakespeare með meiru sagði: “Iris Murdoch er flóknari en Shakespeare.” Ég leyfi mér að bæta því við að ég tel að Svarti prinsinn hafi verið fullþýdd bók þegar yfir lauk.
Ekki síst eftir þessa þýðendalífsreynslu sem smækkaði mig og mína enskukunnáttu svo mjög í áliti hjá sjálfri mér vil ég halda því til haga að enn elska ég Svarta prinsinn, eftir þessa tvísýnu viðureign þar sem litið gat út fyrir að sá svarti mundi hafa mig undir. (Ég bæti því við hér að ég held áfram að þýða ljóð og ljóð, og það er eftirlætisiðja hjá mér.)
Já, eftir þessa þýðingarmiklu þýðingarlífsreynslu er mér það hulin ráðgáta hvernig einn þýðandi fer að því að vinna svo hratt og örugglega eins og raun ber oft vitni - að búa til trúverðugan, congenial, jafnvel magnaðan og upphleyptan texta á einhverjum mánuðum - úr texta sem höfundurinn var kannski að rótast í árum saman.
Ég er viss um að þetta er ekki eitthvað sem kemur bara með æfingunni - ég held að þessi örugga, hraða og skapandi vinna sé spurning um sérstakan hæfileika. Svo verður atvinnuþýðandi einfaldlega að vinna á vissum hraða. Bæði til þess að hann svelti ekki í hel, ef hann vinnur of hægt og þar með úti um okkur höfundana líka - og svo líka til þess að verkið, ef það er nútímabómenntaverk, nái því að komast út í sitt ákveðna samhengi tímans, áður en allt of langt líður - áður en samhengið sem skrifað var í breytist um of.
Við skáldin erum stundum spurð hvernig sé að skrifa á íslensku - þessu tungumáli sem svo fáir kunna. Eitt af mínum svörum við því er að það er dásamlegt að vera alla daga - ég skrifa semsagt alla daga - að skrifa nokkurs konar leyndarmál. Það eru tiltölulega svo fáir sem kunna vel íslensku og þar með svo fáir sem geta verið alveg gjörsamlega nákvæmlega vissir um hvað það var sem skáldið sagði. Íslensk ritmennska er leyndarmáls ígildi, vegna þess hvað fáir geta flett nákvæmlega ofan af orðunum og orðnotkuninni.
Þegar að orðunum kemur get ég ekki talist hlutlaus, en mér finnst íslenska eiga svo mikið af óviðjafnanlega fallegum og gagnsæjum orðum, að ég spyr mig hvernig það geti yfirleitt virkað að koma þeim og samhenginu yfir á önnur tungumál. En það VIRKAR þó, eins og þið þýðendurnir hafið sýnt og sannað. Tökum nú lykilorðið eldhúsborð - þennan stað sem sem meikar eða breikar manneskjuna. Afsakið íslenskuna mína! En manneskjan á auðvitað allt sitt undir því að vel takist til við eldhúsborðið, frá upphafi og svo áfram, mótunarstaðinn okkar númer eitt, og lykilorð í lífinu!
Þegar við heyrum orðið eld-hús-borð, sjáum við fyrir okkur eld, þak yfir höfuðið og næringu. Ég spyr: hvað er kitchen table hjá eldhúsborði? Hver vill sitja við kitchen table ef hann getur frekar setið við eldhúsborð? Þegar við sjáum enskt kitchen table eða þýskan Kuchentisch sjáum við einn planka og fjórar lappir. Enga kjötsúpu, a.m.k. sé ég hana ekki. Ekki einu sinni útlenska kjötsúpu. Þannig að eldhúsborðið, nærandi í hlýju skjólinu, er í eðli sínu óyfirstíganlega óþýðanlegt.
Nú, við þetta eldhúsborð situr með manni, þegar fram í sækir, stundum, lífsförunautur. Aftur undrafallegt íslenskt orð sem er reyndar til í sömu mynd á þýsku, Lebensgefahrte - sem þýðist á ensku ef maður gúgglar: Significant other. Eitthvað er það lítið í ætt við lífsförunaut - og hver vill fá significant other ef hann getur krækt sér í alminlegan lífsförunaut, eða jafnvel Lebensgefahrte, þótt það þýði það sama. Svo er orðið förunautur sem slíkt, án lífs fyrir framan, líka eitt af íslensku undraorðunum.
Við þetta eldhúsborð, og vonandi víðar, með lífsförunauti, getur orðið til velsæld. Enn eitt íslenskt töfraorð. Ég þekki ekki jafngildi þess á öðrum tungumálum. Svo nú spyr ég ykkur hér. Dettur ykkur eitthvað í hug? Yfir velsæld. Í minni biblíu, Orðabók Sigfúsar Blöndal er velsæld þýtt sem lykke, velstand. Það er þá kannski bara mitt vandamál, en mér finnst hvorki lykke né velstand fanga orðið velsæld.
Í beinu framhaldi, allar þýðingar eru þýðingar milli menningarsvæða - og það er eitt af því sem hlýtur að gera starf þýðandans svo heillandi og um leið svo ótrúlega snúið. Menningarmunur er frá mínum bæjardyrum alltaf mikill, líka milli svokallaðra skyldra landa, eins og Norðurlanda, fyrir þann sem þekkir til. Fyrir utanaðkomandi eru Svíþjóð, Noregur, Danmörk, sami grautur í sömu skál. Klósettin hrein og innfæddir ekki með óþarfa derring - en fyrir þann sem þekkir innviðina í þessum löndum, þá er ekki því að heilsa að þau séu öll eins. Ekki er því að heilsa að margt sé til dæmis líkt með landslaginu í Noregi og Danmörku, hvað þá með húsagerðarlistinni. Hvað hugarfar varðar, finnst mér það gjörólíkt í þessum löndum. Til dæmis, hvað væri líkt með danskri fyndni og norskri?
Hér er nú farið að örla á spurningunni góðu, hvort það sé auðveldara að þýða úr tungumáli sem hefur sömu rætur og tungumálið sem þýtt er á heldur en á tungumál af gjörólíkri rót. Og hér gæti tunga enn farið að vefjast um höfuð.
Það eru alveg ákveðin vandamál sem fylgja því að þýða t.d. af íslensku yfir á grannmálin dönsku, sænsku og norsku. Hér leynast til dæmis of margir falskir vinir, sérstaklega í líki orða, sem eru góð og gild á nútímaíslensku, en eru gamaldags á norðurlandamálinu. Þetta er auðveld gildra til að falla í. Mér dettur í hug orðið stundum, sem ekki væri gott að þýða sem stundom á sænsku, það mundi hljóma eins og söguöldin væri byrjuð upp á nýtt.
Sérlega meinlegt væri að nota orðið skald á sænsku, því eins fínt og íslenska skáldið er, þá er skald á sænsku því miður hlægilegt nú orðið.
Þegar við komum að þýðingum milli menningarsvæða sem eru gjörólík - og tungumálin af gjörólíkri rót, þá flækist málið enn. Tökum þýðingu úr tyrknesku á germanskt mál. Og spurningin um útskýringar, sem er eitt af viðfangsefnum mínum í þessu spjalli, verður áleitin.
Með öðrum orðum: Ætti þýðingin að vera skiljanleg? Eða: Þarf þýðing að vera skiljanleg?
Eigum við sem sagt að neyða útskýringar um smáatriði eða jafnvel stór ofan í lesandann, eða láta þau lönd og leið? Ef ekki, eigum við þá að smeygja skýringum inn í textann - hafa neðanmálsgreinar, eða eftirmálaskýringar?
Þegar framandi tyrkneski höfundurinn skrifar um sitt daglega tyrkneska brauð, SIMIT, ætti þá þýðandinn að bæta í eyðurnar og segja: hann skrapp út að kaupa simit, framandi tyrkneskt brauð, kringlulaga, með sesamfræi, eða ætti hann einfaldlega að segja og skrifa SIMIT? Mín kenning væri sú að það sem venjulegur lesandi veit ekki um, getur ekki gert honum til. Nú ef lesandinn er ekki venjulegur heldur stórlega smámunasamur, og verður að vita hvaða efni er í framandi brauðinu og hvernig það er í laginu, getur hann bara gúgglað það. Venjulegur lesandi sér að mínu viti án gúggls út úr SIMIT heillandi ótiltekið framandi bragð og ríki óttómana opnast handan við brauðið, án íþyngjandi útskýringa.
Jafnvel þegar málið snýst ekki um brauð heldur þjóðhetjur, þurfum við ekki að vita alla söguna. Í upphafi skáldsögunnar minnar, Tímaþjófurinn, er söguhetjan Alda Ívarsen að ganga í hringi kringum íslensku Ataturk styttuna, af frelsishetjunni Jóni Sigurðssyni, á Austurvelli. Engra skýringa er þörf fyrir útlendan lesanda, skyldi ég vilja segja. Það er augljóst að þessi Jón er einn af aðalmönnum íslands, af einhverri ástæðu, og svo getur lesandinn bara haldið áfram með bókina, án þess að detta kylliflatur um innskotsskýringu á eftir Jóni Sigurðssyni: - þjóðhetja, sverð Íslands, sómi þess og skjöldur - eða þá að reka tærnar í þröskuld neðanmálsgreinar. Innskotið að minnsta kosti væri nógu óeðlilegt til þess að skemma textann. Það væri lesandanum augljóst að íslenski höfundurinn hefði aldrei skrifað setninguna á þann veg.
Það væri þá mín nálgun að útskýra ekki það sem er ekki þegar útskýrt í frumtextanum. Þetta þýðir ekki að ég sé á móti útskýrandi neðanmálsgreinum í skáldsögum - þótt ég sé það reyndar. Þá er betra að halda slíkum glósum við bókarlok, ef nauðsynlegt er, og gefa lesandanum val um að lesa þær eða ekki - val sem hann hefur ekki ef skýringunni er klínt inn í textann, eða neðanmáls.
Ég ímynda mér að samviskusamir þýðendur séu of oft með böggum hildar yfir því að lesandinn skilji ekki smáatriði frá framandi menningarsvæði - en ég væri á þeirri línu að þessi tegund af skilningsleysi geri lesandanum ekki til, heldur sé þetta eðlilegt og sjálfsagt skilningsleysi. Það er lesandans sjálfs að ákveða hversu forvitinn hann er um menningarleg óskiljanlegheit í textanum.
Þá er fyrsta svarið við spurningunni, NEI, þýðing þarf ekki að vera skiljanleg.
Ég spyr spurningarinnar aftur: þarf þýðing að vera skiljanleg? Og núna snýst það um grundvallaratriði, orðin sjálf, um það að skilja textann í bókstaflegri merkingu. Sem sagt, um það hvort rétt sé þýtt eða rangt - um grundvallarskilning.
Þar sem ég hef þýtt úr tungumáli sem ég hélt ég kynni, en það var því miður ekki raunin, þá vil ég taka það fram með hraði, að ég er mjög umburðarlynd gagnvart misskilningi og villum sem geta slæðst inn í þýðingu. Þær eru óhjákvæmilegar. En vandamálið er, að ef farið er yfir vissan villuþröskuld þá missir lesandinn trúna á textann. Hann finnur lykt af rottu, eins og sagt er á góðri íslensku - the reader smells a rat - og rottan skemmir textann, grefur undan honum, þetta valinkunna pappírsnagdýr sem hún er, og í þessu tilfelli textanagdýr.
Ef svo vill til að það standi í bókinni að einhver hafi fengið hland fyrir hjartað - sem þýðir eins og þið vitið að einhverjum verður um og ó - og það væri svo þýtt á ensku sem piss goes to my heart, eða það sem verra væri, á þýsku, Piss auf dem Herzen, þá er voðinn vís - eins og í fleiri tilvikum þar sem óvart er þýtt þráðbeint, þótt ekki væru öll dæmi svo óhreinlega meinleg.
Vandamálið við villur er að þær eru ekki bara truflandi og gera ekki bara litla samhengið óskiljanlegt, í vondri merkingu orðsins óskiljanlegt, heldur skemma villur líka innri mekanisma textans, ef það er of mikið af þeim.
Of margur misskilingur, villur, rjúfa innri lógík textans, rugla munstrið í textavefnum svo úr verður heild þar sem lesandinn sér ekki endilega hvar misræmið er, en úr verður löskuð upplifun.
Ég vil nefna hér að góður ritstjóri eða góður yfirlesari er mér ómetanlegur á mínu eigin móðurmáli, til dæmis þegar að því kemur að finna ástæðulausa hundalógík í mínum eigin texta, það er að segja dog logic. Ef þið hafið ekki heyrt um dog logic þá get ég bara sagt að piss goes to my heart þegar ég finn lyktina af ómeðvitaðri dog logic í textanum sem ég er að setja saman.
Það verður að fylgja þessari sögu að það er ekki endilega á hæfileikaskrá góðs þýðanda að þýða algjörlega villulaust. Auðvelt er að ímynda sér annars vegar hæfileikaríkan þýðanda sem gerir aðeins of margar villur og svo hæfileikaminni þýðanda sem þýðir algjörlega kórrétt - en fletur út textann. Í síðara tilfellinu er ekkert í málinu að gera, enginn heimsins ritstjóri eða yfirlesari getur blásið lífi í dauðan texta. Á móti er það heimsins auðveldasta mál að leiðrétta mistök og misskilning, fyrir þann sem þekkir bæði tungumál nógu vel.
Greinilega mætti forða mörgu klúðri með því að hafa það sem hefðbundið ferli að bera saman textana á báðum málum - en þetta er væntanlega það síðasta sem útgefandinn splæsir í að öðru jöfnu. Þótt það geti varla talist svo kostnaðarsamt þegar allt ferlið er haft í huga, en getur skipt höfuðmáli fyrir útkomuna. Mér finnst að þessi einfalda ritstjórn ætti að vera rútína, matter of fact. Auðvitað ekki til að koma þýðandanum á kaldan klaka og gera lítið úr honum, ef honum verður eitthvað smottirí á í messunni - þýðanda sem hefur í mjög mörgum tilfellum unnið nokkurs konar kraftaverk og ætti að dýrka hann og tilbiðja frekar en reyna að kraka hann niður af stalli af því að hann hefur misskilið eitthvað, eða yfirsést eitthvað.
Ég get auðveldlega og án þess að verða andstutt talað um þýðingarvillur og misskilning, bæði vegna minnar eigin reynslu sem þýðanda og svo vegna þess að svoleiðis vandamál hafa ekki orðið á mínum einkavegi svo heitið geti síðustu árin, með þá draumaþýðendur sem ég hef. Það er semsagt mín algjöra heppni að eiga toppþýðendur á tungumálum sem ég botna sjálf eitthvað í - þýðendur sem kunna svo vel mitt villugjarna móðurmál að þeir þurfa kannski ekki einu sinni að spyrja mig spurninga - en þau forréttindi eru annars yfirleitt frátekin fyrir dauðan höfund.
Hér er þá kominn vísir að niðurstöðu úr síðasta máli: sú selvfölgelighed (ég reikna með því að allir þýðendur úr íslensku kunni líka dönsku!) að þýðingin þarf að vera nógu villusnauð til þess að textinn skiljist.
Þar af leiðir svar númer tvö JÁ, þýðing þarf að vera nógu kórrétt til þess að vera bókstaflega skiljanleg.
Áfram með skiljanlegheitin. Eitt af því sem er í mikilli hættu með að verða óskiljanlegt í þýðingu er fyndni. Nú skilningsleysið gæti auðvitað byrjað á því að þýðandinn sjálfur hefur ekki húmor og sér þar af leiðandi ekki hvar húmor er á fleti fyrir. Ég þekki hins vegar enga húmorslausa þýðendur. Og það eru góðar fréttir fyrir bækurnar mínar.
Sennilega er fyndni eitt allra af því allra vandmeðfarnasta í texta sem þýða skal. (Og hér dugar náttúrlega ekki að útskýra brandarann, eins og kvikindislegt fólk segir að Þjóðverjar geri þegar þeir eru búnir að segja brandara: das lustige ist! Semsagt: það fyndna í þessari sögu er...!) Sérstaklega vandmeðfarin er fyndnin þegar hún liggur í orðunum, milli orðanna, í því að skúbba inn ofurvenjulegu orði í samhengi þar sem það verður broslegt, stórhlægilegt, eða allt þar á milli - þegar grínið liggur í því hvernig orðin eru notuð, ofnotuð, vannotuð, viljandi afflutt, til að bregða ljósi yfir menn, málefni og aðstæður … eða til að stríða lesandanum - og svo þýðandanum, eins og John Swedenmark komst að orði um mína texta í upphafi þýðendaþings.
Ef þetta missir marks í þýðingu - texti sem er fyndinn upphaflega, en í þýddu formi án möguleika til brosvipru, þá er útkoman skilningsleysi - skilningsleysið sem við óttumst, ekki skapandi skilningsleysið - þegar við vitum ekki nákvæmlega hvað eitthvað er, en við grillum í það, gleðilega.
Þegar ég var nú áðan að tala um lúmska fyndni, undirfurðulega, þá hefði ég til dæmis getað verið að tala um texta Halldórs Laxness. Þeir eru fullir af unaðslegri fráleitni. Þessi höfundur ræður ekki bókstaflega ekki við sig fyrir fyndni, jafnvel í alvarlegustu kringumstæðum. Loksins þegar Bjartur í Sumarhúsum kemur sér að efninu við prestinn, semsagt því að Rósa konan hans er dáin: “Nú er á mér þokkalegt fargan,” segir hann um það mál, eftir langa vafninga. Já, þýðendur góðir, þýðið þið það þokkalega fargan….
Við erum hér komin að þeim kjarna máls að fyndni er mjög menningarlega skilyrt. Víkur sögunni til Parísar. Lítið bíó á Rue des écoles, þar sem verið var að sýna eina af eldri myndum Hitchcocs - full af níðangurslega svörtum húmor. Enginn hló annar en fíflin frá Íslandi á aftasta bekk!! Næsta kvöld, sama bíó, Les Diaboliques, Henri-George Clouzot …. líka full af svörtum húmor … bara frönskum svörtum, ekki enskum. Samkundan var tryllt af hlátri. Semsagt, bíógestir skyldu eigin franska fyndni, en alls ekki fyndnina sem er ástunduð handan við Ermasundið - í klukkutíma siglingar fjarlægð.
Með öðrum orðum - ef fyndinn texti missir marks í þýðingu verður hann í versta falli óskiljanlegur - þannig að svarið er: Já, í þessu fyndna tilfelli þarf þýðing að vera skiljanleg, hvernig svo sem þýðandinn fer að því að töfra fyndnina yfir á tungumálið sitt.
——
Að lokum: Hvað er þýðing - hvers konar ferli er það? Hvernig er hægt að lýsa því? Hvað kemur út úr þýðingu? Ein leið til að tala um það væri að segja, þegar að útkomunni kemur, að þýdda útkoman sé ný bók. Það er einfaldlega ekki sama verk eins og upprunabókin, sama hversu góð og trygg og skapandi þýðingin er.
Fyrir þetta ættum við vera þakklát en ekki leið. Þetta þýðir að það eru mun fleiri bækur sveimandi um heiminn en hingað til hefur verið talið. Og þegar ný bók er búin til í þýðingunni er það kannski aðalverkefni þýðandans að gera andrúmsloftið í henni skiljanlegt í nýju landi. Til þess að gera þetta þarf að endurskapa ekki minna en andrúmsloftið í bókinni, andrúmsloftið í ljóðinu, með hrynjandi og öllu saman. Og eins og við vitum öll er andrúmsloft óþýðanlegt. Hér erum við þá komin að kraftaverkinu. Þýðendum getur tekist að fá lesandann til að finna lykt sem hann hefur sannanlega aldrei fundið.
September 2019,
Steinunn Sigurðardóttir, skáld og þýðandi.