Höfundaheimsóknir í framhaldsskóla
Lestrarhvatning og skemmtun í senn.
Í ársbyrjun 2020 hleypti Miðstöð íslenskra bókmennta af stokkunum verkefni sem ber heitið höfundaheimsóknir í framhaldsskóla. Það fer þannig fram að rithöfundar heimsækja nemendur framhaldsskólanna með það að markmiði að hvetja þá til lestrar og auka skilning þeirra og áhuga á íslenskum bókmenntum og starfi rithöfunda.
Glæðir áhuga og dýpkar lesskilning
Það er skemmst frá því að segja að höfundaheimsóknirnar hafa heppnast mjög vel og er almenn ánægja hjá öllum sem að málinu hafa komið; kennurum, nemendum og höfundunum sjálfum. Ljóst er af þeirri reynslu sem komin er á verkefnið að brýn þörf er fyrir heimsóknir af þessu tagi í framhaldsskólana; til að vekja athygli og glæða áhuga nemenda á bókmenntum og lestri og ekki síst til að dýpka lesskilning þeirra.
Fjöldi höfunda í framhaldsskólana
Höfundaheimsóknirnar hófust á vorönn 2020. Fyrstu önnina mættu fjórir rithöfundar í tíma til nemenda nokkurra framhaldsskóla í íslenskum bókmenntum þar sem þeir fjölluðu um og ræddu bækur sínar. Nemendurnir höfðu þegar lokið við að lesa a.m.k. eina valda bók þess höfundar sem kom í heimsókn og fengu tækifæri til að bera upp spurningar og vangaveltur sínar við höfundinn eftir lesturinn.
Þessar fyrstu heimsóknir tókust vel til og frá því að verkefninu var hleypt af stokkunum hefur fjölgað ört í hópi þeirra sem hafa lagt því lið og á þriðja tug rithöfunda hefur tekið þátt: Andri Snær Magnason, Anna Hafþórsdóttir, Arnar Már Matthíasson, Auður Ava Ólafsdóttir, Bjarni Fritzson, Dagur Hjartarson, Dóri DNA, Einar Kárason, Eva Björg Ægisdóttir, Fríða Ísberg, Gerður Kristný, Guðrún Eva Mínervudóttir, Gunnar Helgason, Halldór Baldursson, Hildur Knútsdóttir, Jón Gnarr, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Ragnar Jónasson, Ragnheiður Gestsdóttir, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Sjón, Þóra Hjörleifsdóttir og Þorsteinn Guðmundsson.
Framtíðarhorfur
Markmiðið með verkefninu er að höfundaheimsóknir í framhaldsskóla geti orðið fastur liður í starfi framhaldsskóla en nú þegar hafa fimmtán framhaldsskólar víðs vegar um landið þegið heimsóknir: Fjölbrautaskóli Suðurlands, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Menntaskólinn á Ísafirði, Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn við Sund, Tækniskólinn og Verslunarskóli Íslands.
Gott samstarf
Verkefnið er unnið í góðu samstarfi Miðstöðvar íslenskra bókmennta við Rithöfundasamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands og með styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Ákveðið hefur verið að bjóða nýjum skólum og nemendum til leiks á næstu misserum.