Höfundaheimsóknir í framhaldsskóla

Lestrarhvatning og skemmtun í senn.

Í ársbyrjun 2020 hleypti Miðstöð íslenskra bókmennta af stokkunum verkefni sem ber heitið höfundaheimsóknir í framhaldsskóla. Það fer þannig fram að rithöfundar heimsækja nemendur framhaldsskólanna með það að markmiði að hvetja þá til lestrar og auka skilning þeirra og áhuga á íslenskum bókmenntum og starfi rithöfunda. 

Hofundaheimsoknir-7-hofundar

Hér á myndinni eru þeir höfundar sem tóku þátt í verkefninu í fyrra. En skólum er velkomið að panta heimsókn frá hvaða rithöfundi sem er.

Glæðir áhuga og dýpkar lesskilning

Það er skemmst frá því að segja að höfundaheimsóknirnar hafa að sögn þeirra sem til þekkja heppnast mjög vel og er almenn ánægja hjá öllum sem að málinu hafa komið; kennurum, nemendum og höfundunum sjálfum. Ljóst er af þeirri stuttu reynslu sem komin er á verkefnið að brýn þörf er fyrir heimsóknir af þessu tagi í framhaldsskólana; til að vekja athygli og glæða áhuga nemenda á bókmenntum og lestri og ekki síst til að dýpka lesskilning þeirra. 

Sjö höfundar í fjóra skóla

Höfundaheimsóknirnar hófust á vorönn 2020, í fyrstu umferð tóku fjórir rithöfundar þátt og mættu í tíma til nemenda í íslenskum bókmenntum þar sem þeir fjölluðu um og ræddu bækur sínar. Nemendurnir hafa þegar lokið við að lesa a.m.k. eina valda bók þess höfundar sem kemur í heimsókn og fá tækifæri til að bera upp spurningar og vangaveltur sínar við höfundinn eftir lesturinn.

Sjö höfundar hafa tekið þátt í verkefninu á árinu 2020, þau Auður Ava Ólafsdóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir, Hildur Knútsdóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir.

Eftirtaldir framhaldsskólar sem taka þátt í verkefninu og hafa boðið eða munu bjóða höfundum í heimsókn til nemenda í ár eru Menntaskólinn við Hamrahlíð, Tækniskólinn, Kvennaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn við Sund, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Verslunarskóli Íslands, Menntaskólinn í Kópavogi og Flensborgarskóli. 

Gott samstarf 

Verkefnið er unnið í góðu samstarfi Miðstöðvar íslenskra bókmennta við Rithöfundasamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands og með  styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Vonir standa til að unnt verði að fjármagna og halda áfram með verkefnið og bjóða nýjum skólum og nemendum til leiks á næstu misserum.