Stefnumörkun 2013-2016

Festa í starfsemi

Samkvæmt lögum er hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta að styrkja útgáfu bóka á íslensku, styðja við og styrkja þýðingar og kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis og efla bókmenningu hér á landi. Miðstöðin telur mikilvægt að henni verði tryggður stöðugur rekstrargrundvöllur svo unnt verði að fylgja eftir lögbundnu hlutverki hennar og skyldum.

Áherslur í rekstri

Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta hefur þá stefnu að rekstrar- og umsýslukostnaði verði haldið í lágmarki og að mestur hluti af fjárframlögum til miðstöðvarinnar á hverjum tíma renni beint til lögbundinna verkefna hennar. Afgreiðsla styrkja og öll umsýsla er einfölduð til að ná þessu markmiði.

Nýtt verklag

Til að tryggja hlutleysi, fagmennsku og gegnsæi í afgreiðslu styrkja felur miðstöðin tveimur utanaðkomandi bókmenntaráðgjöfum, sem ráðnir eru til eins árs í senn, að vinna með starfsmönnum að því að úthluta styrkjum og velja bækur á kynningarlista miðstöðvarinnar (sjá um hann neðar). Stjórnin er þó sem fyrr ábyrg fyrir öllum úthlutunum.

Stuðningur við íslenska bókaútgáfu

Miðstöðin veitir útgáfustyrki til íslenskra bókaútgefenda einu sinni á ári. Kappkostað er að styrkja grundvallarrit sem nýtast þorra almennings og hafa ótvírætt menningarlegt og þekkingarfræðilegt gildi, almenn rit sem hafa raunhæfa tekjumöguleika en eru flókin í vinnslu og verk sem eru mikilvæg fyrir íslenska bókmenningu en hafa takmarkaða tekjuvon. Miðstöðin veitir árlega nýræktarstyrki til höfunda sem eru að hefja sinn feril. Frá og með árinu 2014 hyggst stjórnin einnig veita sérstaka styrki til myndskreytinga á barnabókum, enda telur hún mikilvægt að efla íslenska barnabókaútgáfu sem á í samkeppni við erlent samprent.

Lestrarhvatning

Miðstöðin hyggst efna til samstarfs við bókasöfn, fagfélög bókaútgefenda og rithöfunda, Bókmenntaborgina og fleiri aðila um skipulagningu á reglubundnum lestrarhvetjandi aðgerðum sem beinast munu að öllum aldurshópum en þó sérstaklega börnum og unglingum. Stefnt er að því að beita nýstárlegum aðferðum og fá til liðs við verkefnið aðila sem fólk tengir ekki hversdagslega við bóklestur.

Kynningarstarf erlendis

Miðstöðin kappkostar að kynna íslenskar bókmenntir og bókmenningu erlendis og aðstoða íslenska rithöfunda og útgefendur við kynningu og markaðssetningu ytra. Miðstöðin mun árlega, í samstarfi við útgefendur, velja á kynningarlista bækur sem eru taldar eiga sérstakt erindi á erlenda markaði.  Hún telur einnig mikilvægt að hvetja þýðendur og útgefendur til að sinna íslenskum bókmenntum og efnir til viðburða í því skyni. Lögð verður áhersla á að styrkja þýðingar á íslenskum verkum á erlend mál, styrkja þýðingar á sýnishornum nýrra verka og veita höfundum styrki til að taka þátt í bókakynningum og fylgja eftir útgáfu erlendis. Þá mun stjórnin leggja áherslu á að styðja við kynningarstarf smærri útgefenda erlendis, meðal annars með námskeiðahaldi og ferðastyrkjum.

Átak á Norðurlöndum

Í ljósi þess góða árangurs sem náðist þegar Ísland var heiðursgestur á Bókasýningunni í Frankfurt 2011, þar sem sjónum var beint að ákveðnu málsvæði, hyggst miðstöðin leggja sérstaka áherslu á kynningu íslenskra bókmennta á Norðurlöndum á næstu þremur árum. Hámarki mun þessi kynning ná á Bókasýningunni í Gautaborg haustið 2016. Æskilegt er að mennta- og menningarmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og Íslandsstofa taki þátt í verkefninu. Í tengslum við þetta átak verður einnig lögð áhersla á að efla tengsl við norræna þýðendur og verður hluti styrkja eyrnamerktur þessu verkefni.

Virkt samstarf

Miðstöðin hyggst eiga frumkvæði að virku samstarfi við sem flesta fag- og hagsmunaaðila á þeim sviðum sem snerta starfsemi hennar, þar á meðal systurstofnanir á Norðurlöndum, bókasöfn, rithöfunda, bókaútgefendur, þýðendur, Bókmenntaborgina, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sendiráð og Íslandsstofu.

Lagaumgjörð

Í núverandi lögum eru fjármál miðstöðvarinnar á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta telur mikilvægt að styrkja lagalegan grunn miðstöðvarinnar sem sjálfstæðrar stofnunar og skerpa þar með ábyrgð hennar á starfsemi sinni og fjármálum.