Nýræktarstyrkir 2023

Nyraekt2023-1Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutar tvemur Nýræktarstyrkjum í ár, hvor þeirra er 500.000 kr. Verkin sem hljóta viðurkenninguna nú eru ljóðabók og skáldsaga. 57 umsóknir bárust.

Eftirtalin verk og höfundar hljóta Nýræktarstyrki 2023:

Mannakjöt

Höfundur: Magnús Jochum Pálsson er 25 ára ritlistarnemi og blaðamaður. Sumarið 2018 gaf hann út örsagnasafnið Óbreytt ástand. Síðan hafa ljóð og sögur birst eftir hann í tímaritum, ljóðasöfnum og útvarpi. Eftir að hafa lokið BA-námi í Íslenskum fræðum við Háskóla Íslands sumarið 2021 hóf hann meistaranám í ritlist við sama skóla.  Samhliða námi hefur hann unnið við grunnskólakennslu og blaðamennsku, hvort tveggja störf sem hafa gefið honum innsýn inn í íslenskt samfélag.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

Mannakjöt er heilsteypt og úthugsuð ljóðabók sem vekur lesandann til umhugsunar um dökkar hliðar mannkynsins og hvernig kunni að fara fyrir jörðinni breyti mannfólkið ekki hegðun sinni. Á frumlegan hátt yrkir höfundur um manneskjuna, græðgi hennar, fíkn og neyslu en einnig um hringrás lífsins, fjölskylduna, og allskyns fórnir jafnt á fólki og dýrum. Óvæntar myndir, forvitnilegar vísanir og skemmtilegur leikur að orðum og formi magna áhrif ljóðanna.

Grunnsævi

Höfundur: Margrét Marteinsdóttir er fædd árið 1971 og uppalin í Breiðholti. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og stundaði nám í sagnfræði og stjórnmálafræði við HÍ. Stærstan hluta starfsævinnar hefur Margrét unnið í fjölmiðlum. Hún starfaði hjá RÚV í 16 ár við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi og sem fréttakona í sjónvarpi. Hún hefur komið víðar við undanfarin ár, meðal annars unnið á hjúkrunarheimilinu Grund, í Kvennaathvarfinu, á Gljúfrasteini og hjá Geðhjálp. Margrét starfar nú sem blaðakona á Heimildinni. 

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

Grunnsævi er marglaga skáldsaga um 49 ára konu sem liggur banaleguna á elliheimili í Reykjavík. Áleitin frásögn um áföll og sársauka sem halda áfram að erfast milli kynslóða „þar til einhver stoppar í gatið“. Teflt er fínlega saman djúpri löngun til að ná stjórn á lífi sínu og getuleysi til að endurskrifa örlögin. Blærinn á sögunni er grípandi, stíllinn raunsæislegur og einstaklega myndrænn.