Stefnumörkun 2022-2025
Miðstöð íslenskra bókmennta leggur fram
tillögur til menningar- og viðskiptaráðherra um stefnumörkun til þriggja ára.
Hér að neðan eru þau stefnumið sem stjórn telur æskilegt að leggja áherslu á
þegar fjármunum til stuðnings íslenskri bókmenningu, bókaútgáfu og kynningu á
íslenskum bókmenntum innanlands og utan verður ráðstafað á komandi árum.
Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta telur mikilvægt að hækka fjárframlög til miðstöðvarinnar svo hún hafi nægilegt bolmagn til að styðja af krafti við íslenskar bókmenntir og geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um mikilvægi tungumálsins og stofnun ráðherranefndar um íslenska tungu.
Stjórnin leggur til að rekstur miðstöðvarinnar verði skilinn frá almennri starfsemi hennar og að fjárframlag verði vísitölutryggt.
Öflug útgáfa á íslensku
Samkvæmt lögum er hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta að styrkja útgáfu bóka á íslensku, styðja við og styrkja þýðingar og kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis og efla bókmenningu hér á landi með því að styrkja útgáfu rita sem hafa ótvírætt menningarlegt og þekkingarfræðilegt gildi. Markmiðið er að tryggja metnaðarfulla útgáfu hér á landi, útbreiðslu íslenskra bókmennta erlendis og þýðingar erlendra verka á íslensku.
Til að ná framangreindum markmiðum veitir miðstöðin árlega styrki til innlendra og erlendra útgefenda og höfunda; útgáfustyrki, barna- og ungmennabókastyrki, þýðingastyrki, nýræktarstyrki, ferðastyrki höfunda, dvalarstyrki þýðenda, kynningarþýðingastyrki og lestrarskýrslustyrki.
Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta telur mikilvægt að haft sé gott samráð við hagsmunaaðila um frekari sókn. Stjórnin vill gera könnun meðal hagsmunaaðila um hvernig hægt sé að bæta þjónustu miðstöðvarinnar.
Íslenskar bókmenntir eiga erindi um allan heim
Miðstöðin styður við og kynnir íslenskar bókmenntir erlendis og aðstoðar íslenska rithöfunda og útgefendur við kynningu ytra á ýmsa vegu. Miðstöðin gefur árlega út kynningarlista yfir bækur liðins árs, sem eru taldar eiga sérstakt erindi á erlenda markaði, og kynnir á helstu bókastefnum erlendis. Greiða skal götu íslenskra bókaútgefenda til að efla tengsl þeirra við erlenda kollega með útgefendaskiptum milli Íslands og annarra landa.
Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta vill í samvinnu við útgefendur og höfunda skoða möguleikann á því að sækja inn á ný málsvæði. Mikilvægt er að kortleggja hvernig hægt sé að auka útgáfu íslenskra bókmennta á rómönskum málsvæðum.
Þýðendur eru sendiherrar íslenskra bókmennta
Stuðningur við þýðendur íslenskra verka á erlend mál er grundvöllur þess að íslenskar bókmenntir ferðist um heiminn. Hvetja þarf erlenda útgefendur til að leggja enn frekari rækt við íslenskar bókmenntir. Eitt af mikilvægum hlutverkum Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að styrkja þýðingar á íslenskum verkum á erlend tungumál og þýðingar á sýnishornum nýrra verka.
Hlúa verður að þýðendum íslenskra bókmennta á fjölbreyttan og lifandi hátt. Áfram verði haldin þýðendaþing fyrir þýðendur íslenskra bókmennta á erlend tungumál annað hvert ár í samvinnu við helstu stofnanir á sviði bókmenntanna. Jafnframt verði áfram unnið að þróun, kynningu og notkun þýðendasíðu á vef miðstöðvarinnar og Orðstír, heiðursviðurkenning til þýðenda íslenskra bókmennta á erlend mál, verði veittur annað hvert ár líkt og gert hefur verið frá árinu 2015.
Fleiri þurfa að lesa meira
Markvissar aðgerðir þarf til að hvetja til þess að fleiri lesi bókmenntir í samvinnu við breiðan hóp á bókmenntasviðinu. Hlúa þarf að góðu og lifandi sambandi rithöfunda og lesenda. Ekki síst þarf að horfa til lestrar unglinga og ungs fólks. Miðstöð íslenska bókmennta skal eiga gott samstarf við menntamálayfirvöld og samtök útgefenda og rithöfunda um átak í lestri í framhaldsskólum.
Hluti af því að hvetja fólk til að lesa er að hafa yfirsýn yfir breytingar á lestrarvenjum. Miðstöðin þarf áfram að hafa frumkvæði að því að árlega verði gerð lestrarkönnun meðal landsmanna í samvinnu við fagfélög og stofnanir innan bókageirans.
Öflug samstarf um allt samfélagið
Miðstöðin eigi ávallt frumkvæði að virku samstarfi við sem flesta fag- og hagsmunaaðila á þeim sviðum sem snerta starfsemi hennar, þar á meðal rithöfunda, bókaútgefendur, þýðendur, háskólana, bókasöfn, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Bókmenntaborgina, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sendiráð Íslands erlendis og Íslandsstofu.
Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta vill skoða þann möguleika að leita til einkaaðila til að styðja við einstök verkefni.
Íslensk tunga og bókmenntir í breyttu samfélagi
Íslensk tunga er sameiginleg auðlind þjóðarinnar og eru bókmenntir mikilvægur þáttur í að vernda hana og efla. Útgáfa íslenskra bókmennta og þýðing á mikilvægum sígildum verkum og bókmenntum úr samtímanum er mikilvæg til að efla íslenska tungu.
Miðstöð íslenskra bókmennta þarf að líta til þess að samsetning þjóðarinnar hefur breyst mikið á síðustu áratugum. Mikilvægt er að bókmenntasamfélagið horfi til þeirra breytinga og styðji við verkefni sem stuðla að því að sem flestir hópar í samfélaginu geti notið bókmennta á íslensku.
Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta telur mikilvægt að horfa sérstaklega til barnabókmennta þegar kemur að inngildingu ólíkra hópa samfélagsins.
Jafnrétti
Hér eftir sem hingað til skal leitast við að gæta jafnréttis í öllu starfi Miðstöðvarinnar; við styrkúthlutanir, þátttöku höfunda í viðburðum, vali bókmenntaráðgjafa og fleira.
Fagleg ákvarðanataka
Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta setur sér starfsreglur.
Til að tryggja fagmennsku við afgreiðslu styrkja felur miðstöðin utanaðkomandi bókmenntaráðgjöfum, sem ráðnir eru til eins árs í senn, að gera tillögur að úthlutun styrkja. Stjórn úthlutar styrkjum, hefur eftirlit með og ber ábyrgð á því að farið sé að lögum.