Sögueyjan Ísland - Frankfurtarverkefnið 2008-2012

Upphaf

Í september 2007 samþykkti ríkisstjórn Íslands, að tillögu og frumkvæði Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þáverandi menntamálaráðherra, að sækjast eftir að verða heiðursgestur á Bókasýningunni í Frankfurt árið 2011. Þreifingar hófust reyndar strax árið 2003 á fundi Jóns Egils Egilssonar þáverandi sendiherra með þýska utanríkisráðuneytinu og í framhaldinu á fundi hans með framkvæmdastjóra Bókasýningarinnar í Frankfurt. Áhuga Íslands á að taka að sér heiðurshlutverkið var svo fylgt eftir á fundum sendiherrans Ólafs Davíðssonar með sömu aðilum árin á eftir og var hugmyndinni þannig haldið áfram lifandi. Til greina hafði reyndar komið nokkru áður að Norðurlandaþjóðir efndu til sameiginlegrar kynningar, en ekkert varð af því. Þegar til átti að taka sóttust Íslendingar og Finnar eftir að verða heiðursgestir árið 2011 og Ísland varð á endanum fyrir valinu snemma árs 2008. Um forsögu málsins má lesa nánar um í nokkrum minnisblöðum frá sendiráði Íslands í Berlín frá árunum 2003 - 2007. Í aðdraganda endanlegrar ákvörðunar 2007 var síðan leitað álits íslenskra hagsmunaaðila og ákvörðunin því vel undurbúin.

Halldór Guðmundsson var ráðinn verkefnisstjóri verkefnisins, sem hlaut nafnið Sögueyjan Ísland/Sagenhaftes Island/Fabulous Iceland, 21. febrúar 2008, en hafði reyndar unnið að undirbúningi þess frá haustinu 2007.  Verkefnisstjórn var skipuð 17. apríl 2008 sem í voru: Steingrímur Sigurgeirsson, formaður, aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar, síðar tók Sigtryggur Magnason, aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur, núverandi mennta- og menningarmálaráðherra,  við formennsku,  Guðný Helgadóttir, deildarstjóri á skrifstofu menningarmála í mennta- og menningarmálaráðuneytinu,  Kristrún Heimisdóttir,  aðstoðarmaður utanríkisráðherra, síðar tók  Auður Edda Jökulsdóttir, menningarfulltrúi utanríkissráðuneytisins sæti hennar og Gunnar Dungal, stjórnarformaður Bókmenntasjóðs. Verkefnisstjórnin hélt 20 fundi.

Samningur á milli ríkisstjórnar Íslands og Bókasýningarinnar í Frankfurt var undirritaður þann 25. apríl 2008.

Rekstur og fjármögnun

Vorið 2008 hóf Rakel Björnsdóttir störf sem aðstoðarverkefnisstjóri en hún hafði, í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið, skrifað BS-verkefni í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík um hlutverk heiðursgestsins og væntingar íslenskra hagsmunaaðila til þátttökunnar. Þjóðverjarnir Matthias Wagner K, sýningastjóri, sem starfað hafði náið með sendiráði Íslands í Berlín, og Thomas Böhm verkefnisstjóri bókmennta í Þýskalandi  hófu síðan störf síðsumars 2008. Skipurit var sett upp fyrir verkefnið og markmiðin með heiðursþátttökunni voru sett.

Alls störfuðu 11 manns við verkefnið um lengri eða skemmri tíma. Á Íslandi: Halldór Guðmundsson, verkefnisstjóri, Rakel Björnsdóttir, aðstoðarverkefnisstjóri, Stella Soffía Jóhannesdóttir, skipulag og framkvæmd, Davíð Kjartan Gestsson, bókmenntir og vefstjórn, Steingrímur Karl Teague, bókmenntir og þýðingar, Björn Kozempel, bókmenntir og þýðingar, Þorsteinn J. Vilhjálmsson, myndbandsgerð fyrir vefsíðu og kynningarmál. Í Þýskalandi:  Matthias Wagner K, sýningastjóri, Thomas Böhm, verkefnisstjóri bókmennta,  Katrín Árnadóttir, skipulag og framkvæmd og Arthúr Björgvin Bollason, ráðgjafi í kynningarmálum. Starfsmannafjöldi í þá 5 daga sem á Bókasýningunni stóð var um 45 manns, margir þeirra voru sjálfboðaliðar. Í þeirri tölu er líka starfsfólk Sagafilm, sem hannaði íslenska skálann, og starfsfólk Avenion, sem byggði skálann. Halldór hætti störfum í maí 2012 og Rakel tók við starfi verkefnisstjóra.

Sögueyjan átti í góðu samstarfi við Bókmenntasjóð, Rithöfundasamband Íslands, Félag íslenskra bókaútgefenda, sendiráð Íslands í Berlín og sendiherra Íslands í Berlín, Gunnar Snorra Gunnarsson, og Íslandsstofu á meðan á verkefninu stóð, auk fjölmargra annarra.

Áætluð velta verkefnisins er samtals 504 milljónir, 355 milljónir af fjárlögum og 148 milljónir í formi styrkja og samstarfssamninga. Helstu styrktar- og samstarfsaðilar voru: Actavis, Landsbanki Íslands, Icelandair, Menningaráætlun Evrópusambandsins og Kunststiftung Nordrhein Westfalen. Sett var á fót styrktarfélag í Þýskalandi undir formennsku Ólafs Davíðssonar fyrrverandi sendiherra Íslands en þar tóku þátt allir heiðursræðismenn Íslands í Þýskalandi og mikill fjöldi Íslandsvina og fyrirtækja. Fjárhagslegt uppgjör verkefnisins liggur ekki fyrir.

Bókmenntir – þýðingar og ýmsir viðburðir

Ráðgjafahópur um bókmenntir var stofnaður haustið 2008. Í honum áttu sæti: Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur, fulltrúi Rithöfundasambandsins, Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor, fulltrúi Hagþenkis, Þorgerður Agla Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bókmenntasjóðs og Auður Edda Jökulsdóttir menningarfulltrúi utanríkisráðuneytisins. Hópurinn hélt 7 fundi en starf hans var mest í aðdraganda heiðursársins.

Þýðendaþing á Hala

Eitt af fyrstu verkefnum Sögueyjunnar var að skipuleggja og halda alþjóðlegt þýðendaþing í Reykjavík og á Hala í Suðursveit 23. - 26. apríl 2009. 31 þýðandi úr íslensku á ýmis tungumál tók þátt í þinginu. Góðar þýðingar eru lykilatriði þegar kemur að útgáfu íslenskra bókmennta erlendis og því var mikilvægt að kynna þýðendum verkefnið strax í upphafi. Starfsmenn Sögueyjunnar störfuðu náið með þýðendum allan tímann og þýðendurnir sinntu ýmsum verkefnum, til dæmis sem spyrlar og túlkar í dagskrám með íslenskum höfundum og fleira.

Kynningar íslenskra bókmennta hjá forlögum í Þýskalandi

Sögueyjan lagði ríka áherslu á öflugt kynningarstarf í hinum þýskumælandi heimi. Vandað prentað og rafrænt kynningarefni var útbúið um rithöfunda og verk þeirra sem lagði grunn að gagnagrunni sem nú telur hátt á þriðja hundrað höfunda á heimasíðu Sögueyjunnar, www.sagenhaftes-island.is. Megináhersla kynningarstarfsins var á að kveikja áhuga þýskra forlaga og fjölmiðla á íslenskum bókmenntum. Viðbrögð þýskra bókaútgefenda voru mjög jákvæð og á bókasýningunni sjálfri í október 2011 var það samstarfið við þá sem réði valinu á því hvaða íslenskir höfundar færu til Frankfurt.

Þýðingarstyrkir og samvinna við Bókmenntasjóð

Þýðingar úr íslensku á þýsku voru styrktar sérstaklega í tengslum við verkefnið. Mjög góð samvinna var á milli Sögueyjunnar og Bókmenntasjóðs, sem lagði áherslu á þýðingar yfir á þýsku á árunum 2010 og 2011. Auk þess styrkti Sögueyjan ýmsar útgáfur, svo sem yfirlitsrit um íslenskar bókmenntir,  ljósmynda- og viðtalsbók við íslenska rithöfunda og yfirlitsverk um arkitektúr á Íslandi. Sögueyjan stuðlaði einnig að útgáfu tveggja safnrita með smásagna- og ljóðaþýðingum í samstarfi við Suhrkamp forlagið í Þýskalandi. Ritnefndir þessara rita voru íslenskar. Í bæklingi má sjá lista yfir allar þær bækur sem komu út á þýskumælandi markaði árið 2011 og tengdust Íslandi, þ.e. voru þýddar úr íslensku eða fjölluðu um Ísland og íslenska menningu. Bækurnar voru alls 230 talsins í samstarfi við 111 forlög í Þýskalandi, Austurríki og Sviss sem var langt umfram væntingar.

Íslendingasögurnar: Þýðingar, útgáfa og kynning

Eitt það mikilvægasta í starfi Sögueyjunnar var að ráðast í að láta þýða og gefa út heildarsafn Íslendingasagna á þýsku. Hið virta forlag S. Fischer gaf Íslendingasögurnar út í fimm bindum haustið 2011 og má segja að sú útgáfa hafi verið rauði dregillinn í öllu starfi verkefnisins. Sögueyjan styrkti verkefnið sérstaklega og vandað var til útgáfunnar og þýðinganna á allan hátt.

Sex þýðendur og þrír ritstjórar tóku þátt í verkefninu, auk margra aðstoðarmanna. Þeir hittust reglulega og báru saman bækur sínar. Haldnar voru Íslendingasagnakynningar víðs vegar í Þýskalandi, Austurríki og Sviss í samvinnu við S. Fischer og var hápunkturinn á því kynningarstarfi þriggja daga Íslendingasagnahátíð í Corvey í Þýskalandi, í samstarfi við Literaturbüro Ostwestfalen-Lippe þangað sem fjöldi manns mætti til að hlýða á lestur úr sögunum og umræður um þær. Menningaráætlun Evrópusambandsins styrkti Íslendingasagnakynningarnar um 200.000 evrur. Þá styrkti hin virta þýska menningarstofnun, Kunstiftung Nordhrein Westfalen, þýðingarverkefnið með 100.000 evru framlagi.

Viðburðir á Íslandi

Fimmtán viðburðir voru haldnir á Íslandi í tengslum við heiðursþátttöku Íslands, meðal annars þátttaka á Bókmenntahátíð í Reykjavík 2009 og 2011, Bændur flugust á - verkefnið sem var samstarfsverkefni ungra þýskra og íslenskra skálda og sviðslistamanna og styrkt af Landsbanka Íslands og málþing í Norræna húsinu á vordögum 2012.

Viðburðir í Þýskalandi og víðar

251 viðburður var haldinn í Þýskalandi, Austurríki og Sviss árið 2011 í aðdraganda Bókasýningarinnar og eftir að henni lauk. Þetta voru upplestrar, höfundarkynningar, umræður og þátttaka í ráðstefnum og bókmenntahátíðum. Í sendiráði Íslands í Berlín voru til dæmis haldnir 16 upplestrar í samstarfi við verkefnið og þýsk forlög.

Dagskrá í sýningarskála Íslands 12.-16. október 2011, auk dagskrár í Frankfurt dagana í kring

Í sýningarskála Íslands voru 50 atriði á dagskrá með þátttöku íslenskra rithöfunda og fræðimanna, blaðamanna, þýðenda og túlka. Auk þess var sýnt brot úr myndinni Hetjur Valhallar og haldnir voru blaðamannafundir og ráðstefna. Víðsvegar um Frankfurtborg voru haldnir 76 viðburðir með íslenskum rithöfundum: á kaffihúsum, listasöfnum og víðar.

Aðrar listir

Haldinn var kynningarfundur um verkefnið fyrir forstöðumenn íslenskra menningarstofnana í nóvember 2009 þar sem þeir voru hvattir til að nýta þau tækifæri sem myndu skapast í tengslum við verkefnið. Þýskum fulltrúum menningarstofnana og sýningarstjórum var boðið til landsins til að kveikja áhuga þeirra á íslenskri list.

Sýningar: myndlist, ljósmyndun, hönnun, arkitektúr og annað

Í Frankfurt voru haldnar átta íslenskar myndlistarsýningar haustið 2011. Schirn Kunsthalle efndi til sýningar  á verki Gabríelu Friðriksdóttir „Crepusculum“ sem hún tengdi meðal annars  íslenskum fornritum og voru sjö handrit af Árnastofnun flutt til Þýskalands og sýnd í sérbyggðum hylkjum. Schirn efndi til sýningarinnar „Portraits and Landscapes“ með verkum Erró. Þar voru sýndar tvær stórar myndaraðir, „Scapes“ og „Monsters“ en sú síðarnefnda hafði aldrei áður verið sýnd opinberlega í heild sinni. Voru sýningarnar opnar í þrjá til fjóra mánuði. Gefnar voru út sýningarskrár með báðum sýningunum.

Frankfurter Kunstverein efndi til sýningar með verkum Ragnars Kjartanssonar „Endless Longing, Eternal Return“. Var þar um að ræða fyrstu stóru einkasýningu listamannsins  í Þýskalandi. Ljósmyndasýning sjö íslenskra ljósmyndara, „Frontiers of Another Nature“ var jafnframt sýnd í safninu í samvinnu við Forum Fotografie International og var gefin út vegleg bók í tengslum við þá sýningu,  Ný náttúra – myndir frá Íslandi.

Hönnunarsafnið í Frankfurt , Museum für Angewandte Kunst, efndi til stórrar hönnunarsýningar með verkum meira en 60 íslenskra hönnuða. Vegleg sýningarskrá var gefin út,On the Cutting Edge – Design in Iceland. Einnig var haldin sölusýning með íslenskri hönnun í Frankfurt.

Haldin var yfirlitssýning um íslenskan arkitektúr í Deutsches Architekturmuseum, frá landnámi til okkar daga og gefin út bók í tengslum við þá sýningu, sem fylgir þessari skýrslu, og íslenskar fornleifar sýndar í Archäologisches Museum. Þar var auk þess viðamikil dagskrá í tengslum við sýninguna, m.a. málþing og tónleikar.

Tónlist og dans

Listamiðstöðin Mousonturm hélt tónleika með íslenskum listamönnum, meðal annarra léku hljómsveitin amiina og tónlistarmaðurinn Valgeir Sigurðsson. Íslenski dansflokkurinn sýndi dansverk Ernu Ómarsdóttur „Transaquania – Into Thin Air“ í Mousonturm og þar voru einnig sýndar íslenskar kvikmyndir.

Í Alte Oper í Frankfurt héldu píanóleikarinn Vladimir Stoupel og fiðluleikarinn Judith Ingólfsson, og fleiri, tónleika helgaða norrænum bókmenntum. Þar var meðal annars frumfluttur píanókvartett eftir Áskel Másson, sem var saminn sérstaklega fyrir tilefnið.

Mótettukór Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar hélt tónleika í dómkirkjunni í Frankfurt þar sem íslensk kirkjutónlist, forn og ný, var á efnisskránni.

Sögueyjan studdi eða stóð fyrir ýmsum fleiri viðburðum.

Kynningarstarf

Eitt af markmiðum Sögueyjunnar var að skapa íslenskum bókmenntum verðugan sess í umfjöllun um evrópskar bókmenntir í þýskum fjölmiðlum á heiðursárinu. Árangurinn á þessu sviði var ótvíræður en um 1100 blaðagreinar birtust um íslenskar bókmenntir, Ísland og listviðburði í þýskum fjölmiðlum. Þýska kynningarstofan Projekt2508 sem annaðist kynningarmál verkefnisins í Þýskalandi árið 2011 í samvinnu við Sögueyjuna metur verðgildi þessarar umfjöllunar á um 3 milljarða íslenskra króna.

Heimasíða

Heimasíða Sögueyjunnar var sett í loftið í maí 2009 og er á þremur tungumálum, íslensku, ensku og þýsku. Hún er upplýsingaveita um íslenskar bókmenntir þar sem reglulega birtast viðtöl við höfunda, greinar um bækur og menningartengd efni. Fram að Bókasýningunni voru einnig framleidd „Myndskeið mánaðarins“.

Fréttabréf á þremur tungumálum hafa verið send út með jöfnu millibili til um 5000 viðtakenda víða um heim, almennings, blaðamanna, forleggjara og umboðsmanna og eru fréttabréfin notuð til að vekja athygli á nýjum bókum, áhugaverðum höfundum eða bókmenntaviðburðum. Í aðdraganda Bókasýningarinnar var einnig á heimasíðunni viðburðadagatal þar sem upplýsingar um allar þær uppákomur – höfundakynningar, upplestra, myndlistarsýningar og tónleika – sem Sögueyjan stóð fyrir í samstarfi við þýskar menningarstofnanir voru aðgengilegar.

Heimasíðan hefur að geyma gagnagrunn þar sem sækja má ævi- og ritaskrár hátt í þrjúhundruð íslenskra skáldsagnahöfunda, ljóðskálda, barnabókahöfunda, leikskálda og fræðibókahöfunda. Þessi gagnagrunnur hefur nú verið afhentur Bókmenntavefnum til frekari varðveislu.

Sögueyjuna var einnig að finna á Facebook, á íslensku, þýsku og ensku, þar sem hægt er að fylgjast með nýjustu fréttum, greinum og viðtölum af heimasíðunni.

Ferðir á bókasýningar

Starfsmenn Sögueyjunnar hafa farið reglulega á erlendar bókasýningar síðan verkefnið tók til starfa. Megintilgangur slíkra ferða var að kynna íslenskar bókmenntir fyrir erlendum forlögum og styrkja tengslin við erlend forlög. Farið var á Bókasýninguna í Frankfurt 2007, 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012, til Leipzig 2010, 2011 og 2012, til London 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012, á Barnabókasýninguna í Bologna 2012 og til Gautaborgar 2012. Unnið var í samstarfi við Bókmenntasjóð, Félag íslenskra bókaútgefenda og Íslandsstofu, og var Sögueyjan þátttakandi í sýningarstöndum á öllum sýningunum frá og með 2010. Var samvinnan við þessa aðila mjög jákvæð og góð.

Samskipti við erlend forlög

Starfsfólk Sögueyjunnar hefur lagt sig fram við að kynna sér útgáfulista erlendra forlaga og er í reglulegu sambandi við sína tengiliði hjá erlendu forlögunum, ritstjóra og fleiri. Oft er þá verið að mæla með bók eða rithöfundi eða verið að fylgja eftir fundi á bókasýningu, senda kynningarefni og fleira í þeim dúr.

Fjölmiðlar og blaðamannaferðir

Sögueyjan hélt góðu sambandi við blaðamenn frá þýska málsvæðinu og komu hingað til lands a.m.k. 75 þýskir blaðamenn 2010 og 2011. Í kjölfarið birtust greinar og þættir um íslenskar bókmenntir í þýskum miðlum. Samantekt leiðir í ljós að 1100 greinar, þættir og umfjallanir birtust í þýskum fjölmiðlum á árinu 2011, en þá eru ekki taldir með minni fjölmiðlar og héraðsblöð eða umfjöllun árin á undan. Fjölmiðlaumfjöllun, bæði þýsk umfjöllun og umfjöllun á Íslandi, er haldið til haga í möppum sem fylgja þessari skýrslu. Reiknað verðgildi umfjöllunar á þýska málsvæðinu eru 3 milljarðar íslenskra króna en kynningarfyrirtækið Projekt2508 tók þær upplýsingar saman. Notuð var viðurkennd aðferð sem byggir á því að verðmeta pláss í fjölmiðlum á verði auglýsinga.

Blaðamannafundir á Íslandi, í Þýskalandi og á Bókasýningunni í Frankfurt

Sögueyjan hélt nokkra blaðamannafundi á meðan á verkefninu stóð og voru þeir skipulagðir af Projekt2508 :

  • Á Bókasýningunni í Frankfurt árið 2010 stóð Sögueyjan fyrir blaðamannafundi, þar sem mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir og Juergen Boos forstjóri Bókasýningarinnar í Frankfurt tóku m.a. þátt, auk verkefnisstjóra og sýningarstjóra Sögueyjunnar og íslensku rithöfundanna Steinunnar Sigurðardóttur og Sjón.
  • Á Bókasýningunni í Leipzig í mars 2011 hélt Sögueyjan kynningu fyrir blaðamenn með þátttöku íslensku höfundanna Einars Kárasonar og Kristínar Marju Baldursdóttur.
  • Í júní 2011 stóð Sögueyjan fyrir blaðamannafundi í Frankfurt þar sem Vigdís Finnbogadóttir kom fram og Þorsteinn frá Hamri las ljóð. Á þeim fundi voru helstu áherslur Íslands kynntar fyrir Bókasýninguna.
  • 4. ágúst 2011 fór fram blaðamannafundur í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík fyrir íslenska blaðamenn (sjá fylgiskjal 21).
  • Í upphafi Bókasýningarinnar í Frankfurt var íslenski skálinn sýndur blaðamönnum og íslenskir rithöfundar kynntir.
  • Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, flutti ávarp á opnunarhátíð Bókasýningarinnar í Frankfurt, 11. október 2011. Rithöfundarnir Arnaldur Indriðason og Guðrún Eva Mínervudóttir fluttu ávörp fyrir hönd íslenskra rithöfunda við sama tækifæri.
  • Starfandi mennta- og menningarmálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, flutti ræðu þegar íslenski skálinn var opnaður gestum. Utanríkisráðherra Þýskalands, Guido Westerwelle, skoðaði íslenska skálann með forseta Íslands í fylgd blaðamanna.
  • Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, opnaði tvo blaðamannafundi í sýningarskálanum. Annars vegar þar sem AmazonCrossing og Sögueyjan kynntu samstarf sitt um útgáfu íslenskra bókmennta í Bandaríkjunum og hins vegar þar sem þýska forlagið Ankerherz kynnti bók Óttars Sveinssonar, Árásin á Goðafoss. Í tilefni útgáfunnar voru Sigurður Guðmundson, sem var háseti á Goðafossi þegar árásin var gerð, og Horst Korske, fyrrum loftskeytamaður á þýska kafbátnum sem sökkti Goðafossi, leiddir saman á sögulegum sáttafundi.
  • Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, tók þátt í blaðamannafundi þar sem Reykjavík var kynnt sem Bókmenntaborg UNESCO og skjólborg ICORN. Aðrir þátttakendur á fundinum voru Peter Ripkin, stjórnarmaður hjá Icorn, Einar Örn Benediktsson  borgarfulltrúi og Pétur Gunnarsson rithöfundur. Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs stýrði dagskránni.
  • Undir lok sýningarinnar í pallborði þann 16. október var litið yfir atburði dagana á undan. Fram komu Halldór Guðmundsson, verkefnisstjóri, Rakel Björnsdóttir, aðstoðarverkefnisstjóri, Juergen Boos, forstjóri Bókasýningarinnar, Simone Bühler, yfirmaður mála sem tengjast gestalandinu hjá Bókasýningunni, Kristján B. Jónasson formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, Kristín Steinsdóttir formaður Rithöfundasambands Íslands og Kristof Magnússon rithöfundur og þýðandi.

Fleiri minni blaðamannafundir voru einnig haldnir.

Sýningarskálinn

Hugmynd og þróun

Íslendingar beindu kastljósinu að þrennu í sýningarskálanum í Frankfurt. Að bókunum, en líka að lesandanum sjálfum, en það hafði ekki verið með sama hætti áður, og hins vegar náttúru landsins. Hugmyndin var þróuð í samvinnu Sögueyjunnar og Sagafilm, en aðalhönnuður íslenska skálans var Páll Hjaltason.

Gestalandið fær úthlutað 2500 fermetra sýningarskála á sýningarsvæðinu til að kynna bókmenntir sínar og menningu. Í íslenska skálanum var lesandinn í aðalhlutverki, sýndar voru myndir af íslenskum heimilisbókasöfnum sem lesendur höfðu sjálfir sent til verkefnisins „Komdu með til Frankfurt!“ sem Sögueyjan blés til en þátttaka í verkefninu var mjög góð og bárust um 2000 myndir af heimilisbókasöfnum Íslendinga. Eigendur þriggja mynda voru valdir af handahófi og fengu þeir ferð fyrir tvo til Frankfurt í verðlaun.

Myndirnar voru annars vegar prentaðar á tjöld, og tjöldin hengd upp meðfram veggjum skálans, og hins vegar voru sýnd myndbönd á stórum tjöldum þar sem lesendur lásu upp úr eftirlætisbók sinni. Auk þess var stofustemning í skálanum, sem var innréttaður með heimilislegum borðstofuhúsgögnum, sófum og hægindastólum. Þar var einnig sýningin „Books on“ sýnd en hún inniheldur 800 íslenskar bækur á erlendum tungumálum sem Bókasýningin í Frankfurt sá um að setja upp auk bóka frá íslenskum útgefendum.

Áherslan á náttúru endurspeglaðist best í EXPÓ-skálanum sem var upphaflega gerður fyrir heimssýninguna í Shanghai árið 2010, og settur inn í Frankfurt skálann í aðeins smækkaðri mynd. Auk þess voru hengd upp tjöld með áprentuðum myndum úr náttúru Íslands. Þá var lögð áhersla á bókmenntir í náttúru Íslands í öllu kynningarefni Sögueyjunnar. Auglýsingastofan Fíton annaðist útlitshönnun fyrir Sögueyjuna að öðru leyti.

Þessi mikla áhersla á lesandann var sérstakt nýnæmi og eftir því var tekið á þessu mikla markaðstorgi bókmenntanna sem Bókasýningin í Frankfurt er.

Uppákomur á Bókasýningunni 2011,  á sýningarsvæði, í skála og í borginni

Fjöldinn allur af uppákomum með íslenskum rithöfundum, fræðimönnum, þýðendum og fleirum voru um alla Frankfurt-borg.

Viðtökur

Viðtökur almennings og fagfólks á framgöngu Íslands sem heiðursgests voru mjög góðar. Heildargestafjöldi á Bókasýningunni í Frankfurt árið 2011 var 280.194. Talið er að 100.000 gestir hafi heimsótt íslenska skálann, en aldrei áður hafa svo margir heimsótt skála gestalandsins. Á hverjum einasta viðburði sem Sögueyjan stóð fyrir og skipulagði í sýningarskála Íslands var þéttsetinn bekkurinn, og allt upp í 600 manns mættu á hvern viðburð. Fjöldi gesta sótti þá upplestra og umræður íslenskra höfunda sem fram fóru í Austurríki, Sviss og Þýskalandi allt árið 2011.

Viðtökur á Íslandi voru einnig góðar og naut Sögueyjan jákvæðrar umfjöllunar, bæði í fjölmiðlum og á meðal almennings. Veggspjald verkefnisins (bókin á fjallinu) var valið veggspjald ársins 2010 hjá Ímark og árið 2011 fékk íslenski skálinn Ímark-verðlaunin sem viðburður ársins.

Áhrif

Önnur lönd en Þýskaland

Af hálfu Sögueyjunnar var litið á þýska bókamarkaðinn sem stökkpall yfir á aðra markaði, og mest áhersla lögð á hann, því 40% útgefinna bóka á þýskum markaði eru þýddar bókmenntir og þegar kemur að þýðingum horfa löndin í kring mjög á þann markað. Til samanburðar má geta þess að á enskum markaði er þetta hlutfall á milli 1,5%-3%.

Áhrif verkefnisins eru merkjanleg víða og það reyndist rétt mat að álykta að aðrir markaðir horfðu til Bókasýningarinnar í Frankfurt þegar kæmi að þýðingum. Má þar nefna AmazonCrossing, útgáfuhluta bóksölurisans Amazon, en þeir óskuðu eftir samstarfi við Sögueyjuna og í kjölfarið gáfu þeir út meira en tíu skáldsögur íslenskra höfunda í Bandaríkjunum, bæði sem rafbækur og sem prentaðar bækur.

Önnur lönd hafa einnig horft til árangurs Íslands í Frankfurt, en það að koma út 230 titlum á þýsku þykir eftirtektarverður árangur hjá gestalandi. Það auðveldar líka kynningu á íslenskum bókmenntum gagnvart öðrum löndum að eiga svo margar bækur á þýsku sem hægt er að senda á erlenda forleggjara. 

Vitnisburður um íslensku þátttökuna í Þýskaland

Þýskur bókamarkaður tók almennt afar vel á móti íslenskum bókmenntum, íslenskum rithöfundum og Sögueyjunni.  Jákvætt viðhorf Þjóðverja í garð Íslendinga var áberandi og afslöppuð samskipti voru einkennandi. Fyrir heiðursþátttökuna í Frankfurt og alla framgöngu í Þýskalandi á gestaárinu hlaut Sögueyjan Ísland gullverðlaun þýska tímaritsins Buchmarkt og voru þau afhent við hátíðlega athöfn á Bókasýningunni í Leipzig árið 2012. Aldrei áður hafa þessi verðlaun verið veitt heiðursgesti í Frankfurt.

Simone Bühler yfirmaður mála sem tengjast gestalandinu hjá Bókasýningunni segir um þátttöku Íslands í Frankfurt:

Þátttaka Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt árið 2011 er best heppnaða kynning gestalands í sögu Bókasýningarinnar. Sýningarskáli Íslands vakti verðskuldaða athygli en hann sóttu þúsundir gesta heim til þess að hlusta á íslenska rithöfunda og njóta íslenskra bókmennta. Bókmenntadagskráin í Frankfurt og listsýningarnar voru sérlega fagmannlega unnar, og öll vinna gagnvart fjölmiðlum var vel úr garði gerð. Þátttaka Íslands í Frankfurt árið 2011 markar án vafa tímamót fyrir íslenskar bókmenntir í Þýskalandi, bæði gagnvart útgefendum og lesendum.

Nokkrar meistararitgerðir eru í smíðum um verkefnið í Þýskalandi. Verkefnið verður í þeim ritgerðum skoðað út frá ýmsum sjónarhornum og hefur verið leitað til starfsfólks Sögueyjunnar og ýmissa hagsmunaaðila sem komu að verkefninu vegna þessara ritgerða.

Eftirfylgni 2012

Sögueyjan hefur á árinu 2012 styrkt tengslin við þýsk forlög sem unnið var með í aðdraganda Bókasýningarinnar í Frankfurt, en um leið horft á aðra markaði og skapað sér tengsl við forlög á Spáni, í Frakklandi, í Hollandi, á Englandi, í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum og víðar. Þá hafa tengsl við bókmenntakynningarstofur í öðrum löndum verið styrkt um leið og Sögueyjan horfir til framtíðar.

Á bókasýningum í Leipzig, Bologna, London, Gautaborg og Frankfurt á árinu 2012 hefur Sögueyjan kynnt íslenska höfunda og bækur sem starfsmenn telja að eigi erindi á erlenda markaði, kynnt styrkjakerfi vegna þýðinga og fylgt fundum eftir með bréfaskriftum og samtölum.

Líkt og Sögueyjan vænti minnkaði ásókn í þýðingarstyrki frá Þýskalandi á árinu 2012, enda reyndu þýsku forlögin að gefa sína íslensku titla út á heiðursárinu 2011. Ýmist seinkuðu þau 2010-útgáfum sínum eða flýttu 2012-útgáfunum þannig að þær lentu á árinu 2011. Beiðnir um þýðingarstyrki frá öðrum löndum jukust hins vegar og lítur allt út fyrir að árið 2012 verði metár í veitingu þýðingarstyrkja. Hér fyrir neðan má sjá þróun þýðingarstyrkja frá því áður en verkefnið hófst og til ársins 2012 (heimild: Bókmenntasjóður).

Fjöldi styrkja á árinu 2008, áður en þýsk forlög byrjuðu að undirbúa útgáfu 2011 bókanna, var 24. Á árinu 2012 stefnir í að þeir verði 65 að lágmarki þar sem aðrir markaðir en sá þýski eru að koma sterkar inn. Búist er við að þýski markaðurinn taki aftur við sér strax í ársbyrjun 2013 og með áframhaldandi markaðsátaki á öðrum mörkuðum má gera ráð fyrir að þessar tölur verði til framtíðar, sem sagt þreföldun á fjölda veittra styrkja frá árinu 2008.

Til þess að þróunin verði með þessum hætti þarf að tryggja að kynningarstarfi Sögueyjunnar verði viðhaldið, hvort sem er innan Miðstöðvar íslenskra bókmennta, Bókmenntasjóðs eða mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Dagskrá