Nýræktarstyrkir 2019

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutaði tveimur Nýræktarstyrkjum í ár að upphæð 500.000 kr. hvor en 58 umsóknir bárust. Að þessu sinni hlutu styrkina smásagnasafn og barnabók.

Eftirtalin verk og höfundar hljóta Nýræktarstyrki 2019:

File1-40_1685622581980Í gegnum þokuna

Barnabók

Höfundur: Auður Stefánsdóttir (f. 1983) er með BA gráðu í íslensku og meistaragráðu í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands og kennsluréttindi á framhaldsskólastigi. Auður er íslenskukennari í framhaldsskóla og er í meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands meðfram kennslu.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

Í gegnum þokuna er fantasíubók fyrir börn um baráttu góðs og ills, dauðann og lífið. Höfundur tekur á viðkvæmu málefni á fágaðan hátt og fléttar saman við spennandi atburðarás á flöktandi mörkum raunveruleika og ímyndunar. Textinn er skýr og aðgengilegur, lýsingar á handanheiminum hugmyndaríkar og margar skemmtilegar skírskotanir í hvernig er að vera krakki á Íslandi í dag.”

Afkvæni

Smásagnasafn

Höfundur: Kristján Hrafn Guðmundsson (f. 1979) er bókmenntafræðingur með kennsluréttindi og kennir íslensku, heimspekisamræðu og kvikmyndalæsi í grunnskóla. Kristján þýddi bók Haruki Murakami Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup og hafði umsjón með menningarumfjöllun DV 2007–2010.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

Afkvæni er safn smásagna sem eiga það sameiginlegt að gerast í hversdagslegum íslenskum samtíma. Sögurnar eru grípandi, persónulýsingar skarpar og textinn er skrifaður á blæbrigðaríku máli. Smávægilegum atvikum er gjarnan lýst á spaugilegan hátt; andrúmsloftið er létt og leikandi en um leið tekst höfundi að miðla samspili gleði og alvöru af sérstakri næmni.”