Nýræktarstyrkir 2022

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutar þremur Nýræktarstyrkjum í ár, hver þeirra er 500.000 kr. Verkin sem hljóta viðurkenninguna nú eru ein ljóðabók, ein skáldsaga og eitt smásagnasafn. 60 umsóknir bárust.

Eftirtalin verk og höfundar hljóta Nýræktarstyrki 2022:

Talandi steinar 

Höfundur: Guðmundur Magnússon (f. 1981) er fæddur og uppalinn í Garðinum á Suðurnesjum. Hann er menntaður kvikmyndagerðarmaður og heufr unnið að gerð heimildamynda og vinnur nú að sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Guðmundur er bókamaður, sögumaður og áhugamaður um sagnfræði og gefur út tímaritið Skiphóll tvisvar á ári þar sem birtar eru gamlar myndir og viðtöl við eldra fólk á Suðurnesjum. Guðmundur hefur birt smásögur í tímaritinu Stínu og hefur hann gert útgáfusamning við Bjart um útgáfu ljóðabókarinnar Talandi steinar

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið: 

Talandi steinar er ljóðabálkur þar sem lýst er á áhrifaríkan hátt dvöl ljóðmælanda á geðdeild og viðureign hans við sálarangist og söknuð. Höfundur yrkir af næmni og skilningi á viðfangsefninu og dregur upp sannfærandi mynd af ljóðmælanda og samferðafólki hans á deildinni. Myndmál bókarinnar er lágstemmt en sterkt og býr yfir breytilegum endurtekningum sem ljá verkinu ljóðræna dýpt. Þetta heildstæða verk býr yfir framvindu um leið og hvert ljóð stendur sjálfstætt sem sjónhending inn í tilveru þeirra sem glíma við geðsjúkdóma.

Þú sem ert á jörðu

Höfundur: Nína Ólafsdóttir (f. 1986) er fædd í Reykjavík og lauk B.Sc. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og M.Sc. prófi frá Háskólanum á Hólum árið 2015 með áherslu á vatnavistfræði. Hún hefur starfað sem leiðsögumaður meðfram öðrum verkefnum frá 20019 og starfaði sem líffræðingur á Hafrannsóknarstofnun, lengst af á starfstöð stofnunarinnar á Snæfellsnesi og er í dag búsett á Norðurlandi. Nína er náttúrubarn, umhverfissinni og ötul útivistarkona og náttúran birtist sem burðarás í starfi, námi og áhugamálum.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið: 

Skáldsagan Þú sem ert á jörðu lýsir á næman og grípandi hátt ægivaldi náttúrunnar á heimskautaslóðum, þar sem manneskjan ein má sín lítils. Höfundur skapar áþreifanlega nánd við óvægin náttúruöflin, teiknar upp harða lífsbaráttu í ísköldu vetrarríki og elur á óvissu um nánustu framtíð. Söguhetjan er ein til frásagnar og er hugarheimur hennar dreginn skýrum dráttum. Frásögnin er hljómfögur og myndræn, orðfærið ríkt og náttúrulýsingar ógnvænlegar.

Svefngríman

Höfundur: Örvar Smárason (f. 1977) er ljóðskáld, rithöfundur, tónlistarmaður og tónskáld, Hann er menntaður í handritaskrifum frá kvikmynaskólanum FAMU í Prag, og er með BA gráðu frá Háskóla Íslands í kvikmyndafræði og útskrifaðist úr meistaranámi í ritlist vorið 2021. Örvar gaf út tvær bækur árið 2005 í samstarfi við Nýhil, nóvelluna Úfin, strokin og ljóðabókina Gamall þrjótur, nýir tímar. Örvar er þekktur fyrir verk sín í tónlistarheiminum en hann er stofnandi hljómsveitarinnar múm og meðlimur FM Belfast frá upphafi. Hann hefur einnig komið að fjölbreyttum samstarfsverkefnum og skrifað texta við lög fjölmargra íslenskra hljómsveita og tónlistarmanna.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið

Smásagnasafnið Svefngríman hefur að geyma átta sögur sem dansa á mörkum hversdagslegra frásagna og furðusagna. Höfundur hefur gott vald á smásagnaforminu, vinnur markvisst með afmörkuð sögusvið og samspil persónanna við ólík rými. Hann hefur næmt auga fyrir smáatriðum sem vega þó þungt í heildarmynd hverrar sögu fyrir sig. Sögurnar eru harmrænar og sársaukafullar en um leið hafa þær húmorískan undirtón.