Sókn íslenskra bókmennta á Norðurlöndum

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur á liðnum misserum sótt fram á Norðurlöndum með það að markmiði að fjölga þýðingum íslenskra bókmennta á norræn tungumál.


Norðurlandaátakið hófst í maí 2014 með velheppnuðum kynningarfundum með völdum útgefendum og þýðendum í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn. 

Sendiherra Íslands í Svíþjóð, Gunnar Gunnarsson, bauð að þessu tilefni sænskum útgefendum og þýðendum til morgunverðar á miðvikudeginum 14. maí og sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Sturla Sigurjónsson, bauð þarlendum útgefendum og þýðendum til hádegisverðar fimmtudaginn 15. maí. Á fundunum komu fram rithöfundurinn Andri Snær Magnason, sem hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin í nýjum flokki barna- og ungmennabóka árið 2014 fyrir Tímakistuna en hann var einnig tilnefndur til norrænum barna- og unglingabókaverðlaunanna sama ár. 

Að auki sagði bókmenntafræðingurinn Þorgerður E. Sigurðardóttir frá helstu straumum og stefnum í íslenskum samtímabókmenntum og Þorgerður Agla Magnúsdóttur, fagstýra bókmennta og kynninga hjá Miðstöð íslenskra bókmennta, kynnti starfsemi Miðstöðvarinnar.

Ári síðar, í maí 2015, voru haldnir sams konar kynningarfundir með útgefendum og þýðendum í sendiráðum Íslands í Osló og Helsinki, með rithöfundinum Ófeigi Sigurðssyni og bókmenntafræðingnum Maríönnu Clöru Lúthersdóttur, sjá nánar frétt um fundina.

Síðast en ekki síst var mikil áhersla á sýnileika íslenskra höfunda og bókmennta í dagskrá bókamessunnar í Gautaborg. Á messunni 2014 komu 5 íslenskir höfundar, Eiríkur Örn Norðdahl, Yrsa Sigurðardóttir, Andri Snær Magnason, Sjón og Lani Yamamoto fram í ýmsum bókmenntadagskrám messunnar. Bókamessan í Gautaborg er stærsta bókamessa Norðurlanda en hana sækja árlega um 100.000 gestir. 

Hápunktur átaksins var svo þátttaka í bókamessunni í Gautaborg í september 2015, en þar voru íslenskar bókmenntir í forgrunni í undir yfirskriftinni Raddir frá Íslandi/Röster från Island og þar vöktu íslenskar bókmenntir og höfundar verðskuldaða athygli, en 15 höfundar tóku þátt í tugum dagskrárviðburða. Hér má lesa dagskrárbækling Radda frá Íslandi

Miðstöð íslenskra bókmennta fylgdi eftir Röddum frá Íslandi með þátttöku í bókamessunni í Gautaborg 2016 og beindi þar sérstaklega sjónum að barna og ungmennabókum og höfundum þeirra, dagskráin hér. Einnig má lesa ítarlegri fréttir um hvernig til tókst í Gautaborg 20162017 og 2018. Þátttaka Miðstöðvarinnar í Gautaborg er alltaf með dyggum stuðningi Íslandsstofu.

  • Arnaldur Indriðason
  • Jón Kalman
  • Sjon
  • einar_mar
  • Árni Þórarinsson
  • Þórarinn Leifsson
  • Sigurbjörg Þrastardóttir
  • einar_kara
  • aslaug
  • Jónína Leósdóttir