Íslenskar barna- og ungmennabókmenntir í Gautaborg

Höfundarnir Arnar Már Arngrímsson, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, Þórdís Gísladóttir, Snæbjörn Brynjarsson og Kjartan Yngvi Björnsson taka þátt í aðaldagskrá bókamessunnar.

6. september, 2016

Höfundarnir Arnar Már Arngrímsson, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, Þórdís Gísladóttir, Snæbjörn Brynjarsson og Kjartan Yngvi Björnsson taka þátt í aðaldagskrá bókamessunnar.

Bókamessan í Gautaborg verður haldin 22. – 25. september næstkomandi. Í samræmi við stefnu Miðstöðvarinnar verður áherslan að þessu sinni á barna- og ungmennabókmenntir, og þeir höfundar sem taka þátt í dagskránni eru Þórdís Gísladóttir, Snæbjörn Brynjarsson, Kjartan Yngvi Björnsson, Arnar Már Arngrímsson og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, en þau tvö síðastnefndu eru tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Koma þau fram í aðaldagskrá og fjalla m.a. um efnistök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda og fantasíu í norrænum bókmenntum. Öll taka þau jafnframt þátt í öðrum dagskrárliðum á messunni.  

Messan tekur jafnan á málefnum líðandi stundar og í ár verða umræður um tjáningarfrelsi í forgrunni. Þar tekur Jóhannes Kr. Kristjánsson, fjölmiðlamaður, þátt í umræðum um Panamalekann.

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur undanfarin misseri unnið markvisst að kynningu íslenskra bókmennta á Norðurlöndunum með það að markmiði að fjölga þýðingum íslenskra bókmennta á norræn tungumál. Átakið er nú þegar farið að bera árangur, því fjöldi umsókna frá norrænum útgefendum um styrki til þýðinga úr íslensku á Norðurlandamál, hefur nær tvöfaldast á liðnum tveimur árum.

Hápunktur Norðurlandaátaksins var þátttaka 15 íslenskra höfunda og skálda í tugum dagskrárliða bókamessunnar í Gautaborg í fyrra, en þar voru íslenskar bókmenntir og höfundar í forgrunni í sérstakri dagskrá undir yfirskriftinni Raddir frá Íslandi - Röster från Island.   

Bókamessan í Gautaborg er stærsta bókamessa Norðurlanda en hana sækja árlega um 100.000 gestir. Í bókmenntadagskrá messunnar má finna um 3000 dagskrárliði og rúmlega 800 sýnendur og 2000 höfundar og fyrirlesarar taka þar þátt. Þátttaka Íslands í messunni er í samstarfi við Íslandsstofu. Íslenski básinn er númer C03:02 en hönnun hans er í höndum HAF studio.

 


Allar fréttir

Auglýst eftir umsóknum um Nýræktarstyrki - 16. mars, 2023 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir árlega Nýræktarstyrki fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira.

Nánar

Hjalti Pálsson hlýtur viðurkenningu Hagþenkis 2022 fyrir Byggðasögu Skagafjarðar I.-X. bindi - 16. mars, 2023 Fréttir

Hjalti Pálsson tók við viðurkenningu Hagþenkis 2022 þann 15. mars síðastliðinn fyrir verk sitt Byggðasaga Skagafjarðar, I.-X. bindi

Nánar

Auglýst eftir umsóknum um útgáfustyrki, þýðingastyrki á íslensku og styrki úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði - 15. febrúar, 2023 Fréttir

Styrkirnir eru veittir útgefendum á Íslandi og er umsóknarfrestur til 15. mars 2023. 

Nánar

Allar fréttir