46 styrkir veittir til þýðinga íslenskra verka - mikill áhugi í Danmörku og Frakklandi

Íslenskar bækur eru væntanlegar á 22 tungumálum á næstunni. Samtímabókmenntir, ljóð, barnabækur og klassík eftir Halldór Laxness og Ástu Sigurðardóttur eru meðal þýðinga sem hljóta styrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta í þessari síðari úthlutun ársins.

29. október, 2025

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir tvisvar á ári styrki til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál. 50 umsóknir bárust í þessari síðari úthlutun ársins og veittir voru 33 styrkir. Þá voru veittir 13 styrkir til norrænna þýðinga.

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir styrki tvisvar á ári til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál og norræn mál.
50 umsóknir bárust í þessari síðari úthlutun ársins og veittir voru 33 styrkir, samanlagt að upphæð 8.040.000 kr. Þá voru veittir 13 styrkir til norrænna þýðinga, að upphæð 3.150.000 kr.

Umsóknarfrestur um styrki til þýðinga á erlend mál og þýðinga á norræn mál er tvisvar á ári; í febrúar og september.

Mikill áhugi hjá dönskum útgefendum

Stafli-af-donskum-bokum-2024

Athygli vekur að átta þýðingar á dönsku hljóta styrk að þessu sinni, en mikill áhugi er á íslenskum bókmenntum þessi misserin í Danmörku. Þessi verk eru: Móðurást – Draumþing eftir Kristínu Ómarsdóttur, Himintungl yfir heimsins ystu brún eftir Jón Kalman Stefánsson, Ég færi þér fjöll eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur, Gegnumtrekkur eftir Einar Lödvahl, Alt frá hatti oní skó, eftir Einar Má Guðmundsson, Sextíu kíló af sunnudögum eftir Hallgrím Helgason og Saknaðarilmur eftir Elísabetu Jökulsdóttur.

Þá eru sex verk sem eru væntanleg á frönsku á næstunni en höfundar á borð við Jón Kalman Stefánsson, Auði Övu Ólafsdóttur og Ragnar Jónasson njóta mikillar velgengni þar í landi. Frönsku þýðingarnar sem hljóta styrki eru: Sögur og ljóð eftir Ástu Sigurðardóttur, Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur, Duft: Söfnuður fallega fólksins eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Sextíu kíló af kjaftshöggum eftir Hallgrím Helgason, Deus eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur og Bráðin eftir Yrsu Sigurðardóttur.

Barnabækur í útrás

Þrjár barnabækur halda áfram ferðalagi sínu um heiminn; Tjörnin eftir Rán Flygenring, sem kemur út í Þýskalandi; Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur m sem kemur út í Frakklandi og Makedóníu – og Ég þori! Ég get! Ég vil! Eftir Lindu Ólafsdóttur sem kemur út í Japan. Þessi verk hafa verið gefin út á ýmsum öðrum tungumálum eða eru væntanleg.

Árið 2026 mun Miðstöðin leggja sérstaka áherslu á kynningu barna- og ungmennabóka erlendis og vonin er að það muni auka sýnileika verka og höfunda þeirra.

Ljóðið á alltaf við

Nokkuð er um ljóðaþýðingar meðal styrkveitinga. Ljóðabók Soffíu Bjarnadóttur, Ég er hér kemur út í portúgalskri þýðingu Luciano Dutra og Francescu Cricelli í Brasilíu. Safn með ljóðum Sjóns kemur út í þýðingu Johns Swedenmark hjá Rámus forlag í Svíþjóð og félagarnir Wolfgang Schiffer og Jón Þór Gíslason þýða ljóð ýmissa samtímaskálda á þýsku og gefa út í Þýskalandi.

Þríleikur Hallgríms Helgasonar heldur áfram að ferðast um heiminn, en von er á þriðju bókinni í Danmörku, fyrstu og annarri í Bandaríkjunum og annarri í Frakklandi.

Hægt er að skoða allar úthlutanir hér (erlendar þýðingar) og hér (norrænar þýðingar). 




Allar fréttir

Norrænu bókmenntamiðstöðvarnar með sameiginlegan stand í Frankfurt - 8. október, 2025 Fréttir

Eftir mörg ár í umsjón Félags íslenskra bókaútgefenda verða breytingar á fyrirkomulagi á básnum í Frankfurt þegar Miðstöð íslenskra bókmennta slæst í hóp systurstofnana sinna á Norðurlöndum og verður þar með sameiginlegan norrænan bás, Halle 4.1, B17

Nánar

Afar vel sótt bókamessa í Gautaborg - 1. október, 2025 Fréttir

Íslenskar bókmenntir vöktu athygli á Bókamessunni í Gautaborg, þar sem fulltrúar Miðstöðvarinnar hittu norræna útgefendur og höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Eiríkur Örn Norðdahl hlutu góðar viðtökur frá sænskum lesendum.

Nánar

Allar fréttir