Viðburðaríkt ár hjá Miðstöð íslenskra bókmennta

Árið 2025 í máli og myndum

8. janúar, 2026

Á árinu veitti Miðstöð íslenskra bókmennta 70 milljónir króna í styrki til bókaútgáfu, innlendra og erlendra þýðinga, ferðalaga höfunda og í nýræktarstyrki. Kynningarstarf erlendis var öflugt og einkenndist af bókamessum, fundahöldum með erlendum útgefendum og gjöfulu samstarfi með þýðendum og sendiráðum. 

Við bjóðum nýtt ár velkomið og hlökkum til komandi verkefna, enn fleiri bóka!

Árið 2025 var viðburðaríkt í starfsemi Miðstöðvar íslenskra bókmennta og einkenndist af gefandi samstarfi, áframhaldandi styrkúthlutunum og auðvitað frábærum íslenskum bókum. Á döfinni eru ýmis ný verkefni sem verður hrundið af stað á næstu vikum og mánuðum. 

70 milljónir í styrki til útgáfu, þýðinga og kynninga

Á árinu veitti Miðstöð íslenskra bókmennta 70 milljónir til þýðinga, útgáfu og kynninga í níu styrkjaflokkum. 


Mynd-med-frett-utgst-25

Hér má sjá allar styrkveitingar ársins.

Nýræktarstyrkir veittir til tveggja nýrra höfunda

Karolina-nyraekt-2025Á vormánuðum veitti Miðstöð íslenskra bókmennta tvo nýræktarstyrki en þeir eru veittir til efnilegra höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum. Karólína Rós Ólafsdóttir hlaut styrk fyrir handrit að ljóðabókinni Lífskán og Natan Jónsson hlaut styrk fyrir handrit að smásagnasafninu Sjáðu þú brennur. 55 handrit bárust að þessu sinni. 

 

Natan

Þetta er í átjánda sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa um áttatíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi fyrir afar fjölbreytt verk. Meðal þeirra sem áður hafa hlotið Nýræktarstyrk eru höfundarnir Pedro Gunnlaugur Garcia, Arndís Þórarinsdóttir, Fríða Ísberg, Sverrir Norland, Benný Sif Ísleifsdóttir, Maó Alheimsdóttir, Hildur Knútsdóttir, Dagur Hjartarson, Júlía Margrét Einarsdóttir, Bergur Ebbi, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Jakub Stachowiak svo aðeins nokkur séu nefnd. 

Kynningarstarf erlendis

Eitt hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að kynna íslenskar bókmenntir erlendis og í ár voru fulltrúar frá Miðstöðinni á þremur bókamessum: Bókamessunni í Leipzig, Bókamessunni í Gautaborg og Bókmessunni í Frankfurt. Á messunum gefst tækifæri til að funda með erlendum útgefendum, umboðsmönnum, þýðendum og öðrum áhugasömum um íslenskar bókmenntir. 

IMG_7782_Original

Á Bókamesssunni í Leipzig tóku þau Pedro Gunnlaugur García og Yrsa Sigurðardóttir þátt í metnaðarfullri dagskrá á vegum norrænu sendiráðanna í Berlín. Þau lásu upp úr verkum sínum ásamt þýðendum sínum, Tinu Flecken og Anniku Wolff fyrir fullum sal af áhugasömum lesendum. 

 

Processed-A7179476-3049-440E-93DE-2CC093DB98D5_1767877220550Fulltrúar Miðstöðvar íslenskra bókmennta sóttu Bókamessuna í Gautaborg líkt og undanfarin ár, en messan var óvenju fjölmenn í ár en um 95.000 gestir lögðu leið sína þangað. Rithöfundarnir Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir sögðu frá verkum sínum á nokkrum viðburðum og hlutu afar góðar viðtökur gesta.

 

Í Frankfurt urðu talsverðar breytingar á fyrirkomulagi því í fyrsta sinn var Miðstöð íslenskra bókmennta þar með systurstofnunum sínum á Norðurlöndunum á sameiginlegum norrænum bás. Áður hafði Félag íslenskra bókaútgefanda séð um íslenskan bás um áratugaskeið. Nánar um Bókamessuna í Frankfurt hér.

Frankf-4

Á bókamessunum og í öðru kynningarstarfi er kynningarefni Miðstöðvarinnar notað til grundvallar sem ber heitið, Books from Iceland, en þar eru valin verk og höfundar kynnt. Mikill áhugi er á íslenskum rithöfundum og verkum þeirra erlendis, ekki síst í Danmörku, Frakklandi og Þýskalandi. 


Frankf-3

Auk funda á messunum sjálfum bauð Miðstöðin upp á fjölda fjarfunda fyrir erlenda útgefendur og umboðsmenn sem vildu fræðast um það nýjasta á döfinni í íslensku bókmenntaumhverfi. 

Þýðendaþing tileinkað Sjón

F1927916-5ED9-4717-9172-69E3ABB7E1F4Miðstöðin efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl en hún hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. Að þessu sinni var í fyrsta sinn áhersla lögð á þýðingar eins höfundar, í þessu tilviki verk Sjóns og áttu allir þátttakendur það sameiginlegt að hafa þýtt verk eftir höfundinn og skáldið úr íslensku á sín móðurmál.

Dagskráin stóð í tvo daga og var blanda af fyrirlestrum, vinnustofum, heimsóknum og gefandi samveru. Undir lok dagskrár heimsótti Sjón þingið og deildi m.a. með þeim kafla úr óútgefnu verki og fengu þýðendurnir að spreyta sig á textanum. Þingið var haldið í beinu framhaldi af Bókmenntahátíð í Reykjavík 2025.

Orðstír afhentur á Bessastöðum

Tatjana-Kim-og-Bjorn-SkulasonMaki forseta Íslands, Björn Skúlason, afhenti Orðstír, heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, á Bessastöðum 26. apríl sl. en það er í fimmta sinn sem hann er veittur.

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hlutu Orðstírinn í ár, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku. Auk Miðstöðvar íslenskra bókmennta eru aðstandendur Orðstírs Forsetaembættið, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík og ÞOT samtök þýðenda og túlka.

Tvær kannanir: lestur þjóðarinnar og tekjur af útflutningi bókmennta

Tima-a-dag-varid-i-baekur_1762767912705

Miðstöðin hefur undanfarin ár í samstarfi við helstu aðila á bókmenntasviðinu látið gera könnun á lestrarhegðun þjóðarinnar. Niðurstöður úr könnuninni sýna að þjóðin ver að jafnaði um klukkustund á dag í að lesa og/eða hlusta á bækur. Þrátt fyrir það hefur heildartíminn sem fólk ver í lestur/hlustun engu að síður minnkað á undanförnum árum og fleiri segjast ekki verja neinum tíma í bóklestur.

Í ár var einnig í fyrsta sinn unnin könnun í samstarfi við systurstofnanir okkar á Norðurlöndunum um tekjur sem hljótast af útflutningi bókmenntanna. Samkvæmt könnuninni námu tekjur af bókmenntaútflutningi frá Norðurlöndunum til annarra landa nærri 78,5 milljónum evra árið 2024.

Þar af eru 1,9 milljónir evra tekjur af sölu útgáfuréttar íslenskra bóka til annarra landa. Tölurnar koma frá umboðskrifstofum sem halda utan um rétt íslenskra höfunda, innanlands sem utan. 

 

Alþjóðleg tengsl styrkt með ýmsum hætti 

IMG_6939

Miðstöð íslenskra bókmennta er hluti af tvennum alþjóðlegum samtökum: NordLit sem eru samtök norrænu bókmenntamiðstöðvanna, og EnLit sem eru samtök skipuð 27 stofnunum um alla Evrópu sem eiga það sameiginlegt að styðja við og styrkja þýddar bókmenntir og stuðla að útbreiðslu þeirra.

NordLit hefur átt gott og gjöfult samstarf um árabil með það sameiginlega markmið að stuðla að auknum sýnileika og útbreiðslu norrænna bókmennta með ýmsum hætti og miðstöðvarnar geta lært mikið hver af annarri. Jafnframt vinnur NordLit saman að styrkveitingum til þýðinga á norræn mál. 

Starfsfólk stofnananna hittist árlega og ber saman bækur sínar, hlusta á fróðleg erindi og vinnur að sameiginlegum verkefnum. Fundur ársins 2025 var haldinn um miðjan janúar í Reykjavík og Miðstöð íslenskra bókmennta skipulagði og hafði umsjón með honum, og þótti hann takast mjög vel. Nefna má að unnið var að tveimur nýjum samstarfsverkefnum á fundinum; annars vegar sameiginlegri þátttöku bókmenntamiðstöðvanna í Frankfurt og hins vegar könnun um tekjur af útflutningi bókmennta. 

Miðstöðin hitti einnig félaga sína í EnLit á Bókamessunni í Frankfurt í október. Þar var farið yfir markmið samtakanna og yfirlit þeirra styrkja sem evrópsku stofnanirnar bjóða upp á í sínum heimalöndum. 

Á döfinni 

Við hefjum nýja árið af krafti en á næstu vikum opnar ný heimasíða Miðstöðvar íslenskra bókmennta ásamt nýrri ásýnd kynningarefnis. Útlitið er nú þegar farin að líta dagsins ljós á samfélagsmiðlum. Hönnuðir eru Studio studio, Arnar Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir.

Ferdastyrkir-isl-januar-26

Í byrjun febrúar fer svo af stað öflug lestrarhvatning sem beinist að fullorðnu fólki. Markmiðið er að vekja fólk til umhugsunar um gildi þess að lesa sér til yndisauka og auka lestur þjóðarinnar jafnt og þétt. 

Í ljósi aukins fjármagns til Miðstöðvar íslenskra bókmennta munu styrkveitingar til útgáfu og þýðinga aukast, einkum til útgáfu íslenskra og þýddra barna- og ungmennabóka. 

Áfram verður unnið að nýrri bókmenntastefnu í samstarfi við menningar- nýsköpunar- og háskólaráðuneytið. Samkvæmt þingsályktunartillögu sem lögð var fram á vormánuðum 2025 eru Miðstöðinni þar falin ýmis ný verkefni sem miða að auknum stuðningi við íslenskt bókmenntaumhverfi. 

Áhersla er lögð á kynningu á barna- og unglingabókahöfundum erlendis á árinu.  Nýtt kynningarrit tileinkað 20 höfundum sem skrifa fyrir börn og ungmenni kemur út í vor og verður nýtt á bókamessum á árinu; barnabókamessunni í Bologna í apríl, bókamessunni í Gautaborg í september og í Frankfurt í október.

Frankf-5


Allar fréttir

24 styrkir veittir til þýðinga á íslensku í seinni úthlutun ársins - 5. janúar, 2026 Fréttir

Veittir voru 44 styrkir að upphæð 17,1mkr í tveimur úthlutunum á árinu; 9 mkr í fyrri úthlutun ársins og 8,1mkr í þeirri síðari.

Nánar

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2025 og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans - 3. desember, 2025 Fréttir

Tilnefnd eru fimm verk í þremur flokkum Íslensku bókmenntaverðlaunanna, auk fimm verka til Íslensku glæasagnaverðlaunanna. Félag íslenskra bókaútgefenda stendur að verðlaununum. 

Nánar

Allar fréttir