Afar vel sótt bókamessa í Gautaborg
Fulltrúar Miðstöðvar íslenskra bókmennta sóttu Bókamessuna í Gautaborg líkt og venja er, en messan var óvenju fjölmenn í ár. Talið er að um 95.000 gestir hafi lagt leið sína á viðburðinn.
Íslenskar bókmenntir vöktu athygli á Bókamessunni í Gautaborg, þar sem fulltrúar Miðstöðvarinnar hittu norræna útgefendur og höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Eiríkur Örn Norðdahl hlutu góðar viðtökur frá sænskum lesendum.
Fulltrúar Miðstöðvar íslenskra bókmennta sóttu Bókamessuna í Gautaborg líkt og venja er, en messan var óvenju fjölmenn í ár. Talið er að um 95.000 gestir hafi lagt leið sína á viðburðinn.
Rithöfundarnir Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir sögðu frá verkum sínum á nokkrum viðburðum og hlutu afar góðar viðtökur meðal gesta.

Í vikunni kom út sænsk þýðing á skáldsögu Eiríks Arnar, Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn sem tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Verkið, sem þýtt er á sænsku af John Swedenmark, hefur hlotið afburðagóða dóma í Svíþjóð og má segja að mikil spenna sé fyrir afhendingu verðlaunanna sem fer fram í Osló í nóvember.
Gleymdu mér aldrei kom einnig út á sænsku fyrr í mánuðinum en Yrsa á sér dyggan lesendahóp í Svíþjóð. Hún tók þátt í nokkrum viðburðum á messunni og sagði frá skrifunum og sögusviði bókanna.
Leikritun og leikhússkrif voru í sérstökum brennidepli á messunni og á leikritunarsviðinu komu fram leikskáldin Hranhildur Hagalín og Birnir Jón Sigurðsson. Þau sögðu frá verkum sínum og lýstu blómlegu leikhúslífi á Íslandi. Sviðslistamiðstöð stóð að viðburðunum í samstarfi við messuna.
Á básum útgefendanna mátti finna ýmis íslensk verk sem þýdd hafa verið á sænsku og það var ánægjulegt að sjá hversu margir íslenskir höfundar eru lesnir í Svíþjóð og hversu mikill áhugi er fyrir íslenskum bókmenntum þar í landi.
Fulltrúar Miðstöðvarinnar hittu einnig erlenda útgefendur, einkum frá hinum Norðurlöndunum, sem leituðu ráðgjafar um íslenskar bókmenntir. Á slíkum fundum styðst Miðstöðin við kynningarbæklinginn Books from Iceland 2025 og miðlar því helsta úr íslensku bókmenntalífi til útgefenda.