Barna- og ungmennabókahöfundar verða áberandi í erlendri kynningu
Árið 2026 leggur Miðstöð íslenskra bókmennta áherslu á barna- og ungmennabækur í erlendu kynningarstarfi
Nýtt kynningarrit um íslenska barna- og ungmennabókahöfunda í vændum, þátttaka í barnabókamessunni í Bologna og aukinn stuðningur við þýðingar barna- og ungmennabóka á erlend mál.
Á árinu 2026 leggur Miðstöð íslenskra bókmennta áherslu á íslenskar barna- og ungmennabækur í erlendu kynningarstarfi. Markmiðið er að vekja athygli á höfundum sem skrifa fyrir börn og ungmenni og kynna höfundaverk þeirra fyrir erlendum útgefendum.
Nýtt kynningarrit um barna- og ungmennabókahöfunda kemur út í mars nk. og verður lagt til grundvallar í erlendri kynningu, meðal annars á barnabókamessunni í Bologna í apríl, en einnig í Gautaborg í september og Frankfurt í október.
Af þessu tilefni mun Miðstöðin því veita eftirfarandi stuðning til þýðinga og kynningar á íslenskum barna- og ungmennabókum erlendis:
- 70% af þýðingakostnaði bóka (að hámarki 500.000 kr), að því gefnu að umsóknin uppfylli þær kröfur sem miðstöðin gerir. Sjá nánar hér.
- Hluta af prentkostnaði á myndríkum barnabókum til útgáfu erlendis, að því gefnu að umsóknin uppfylli kröfur sem miðstöðin gerir. Sjá nánar hér
- Ferðastyrki til barna- og ungmennabókahöfunda til að kynna verk sín erlendis.
