Stefnumörkun 2016-2019

Miðstöð íslenskra bókmennta leggur fram tillögur til mennta- og menningarmálaráðherra um stefnumörkun til þriggja ára. Hér að neðan eru þau stefnumið sem stjórn telur æskilegt að leggja áherslu á þegar fjármunum til stuðnings íslenskri bókmenningu, bókaútgáfu og kynningu á íslenskum bókmenntum innanlands og utan verður ráðstafað á komandi árum.  

Lagaumgjörð

Samkvæmt lögum er hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta að styrkja útgáfu bóka á íslensku, styðja við og styrkja þýðingar og kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis og efla bókmenningu hér á landi. Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta telur mikilvægt að styrkja enn frekar fjárhagslegan grunn miðstöðvarinnar svo hún geti ávallt gegnt lögbundnu hlutverki sínu og eflst enn frekar.

Stuðningur við íslenska bókaútgáfu

Miðstöðin veitir útgáfustyrki til íslenskra bókaútgefenda einu sinni á ári með það að markmiði að tryggja fjölskrúðuga og metnaðarfulla útgáfu hér á landi. Kappkostað er að styrkja verk sem hafa menningarlegt og þekkingarfræðilegt gildi, almenn rit sem hafa raunhæfa tekjumöguleika en eru flókin í vinnslu og verk sem eru mikilvæg fyrir íslenska bókmenningu en hafa takmarkaða tekjuvon. Jafnframt skal styrkja fyrstu verk höfunda sem eru að hefja feril sinn og vandaðar þýðingar erlendra verka á íslensku.

Verklag við styrkúthlutun

Til að tryggja fagmennsku og gegnsæi við afgreiðslu styrkja felur miðstöðin utanaðkomandi bókmenntaráðgjöfum, sem ráðnir eru til eins árs í senn, að gera tillögur að úthlutun styrkja. Stjórn úthlutar styrkjum og hefur eftirlit með því að farið sé að lögum.

Kynningarstarf erlendis

Miðstöðin styður við og kynnir íslenskar bókmenntir og bókmenningu erlendis og aðstoðar íslenska rithöfunda og útgefendur við kynningu og markaðssetningu ytra á ýmsa vegu. Miðstöðin gefur árlega út kynningarlista yfir bækur liðins árs, sem eru taldar eiga sérstakt erindi á erlenda markaði og kynnir á helstu bókastefnum erlendis. Stefnt skal að því að efla stuðning við þýðendur á erlend mál og hvetja erlenda útgefendur til að leggja enn frekari rækt við íslenskar bókmenntir. Lögð verði áhersla á að styrkja þýðingar á íslenskum verkum á erlend tungumál og þýðingar á sýnishornum nýrra verka. Stefnt skal að því að greiða götu íslenskra bókaútgefenda til að sækja bókastefnur og kynna verk sín og nema ný lönd.

Orðstír, viðurkenning til þýðenda íslenskra bókmennta á erlend mál verður veitt annað hvert ár hér á landi í tengslum við Bókmenntahátíð í Reykjavík, en hún var fyrst veitt 2015.

Átak á Norðurlöndum – eftirfylgni

Miðstöð íslenskra bókmennta lagði sérstaka áherslu á kynningu og útbreiðslu íslenskra bókmennta á Norðurlöndum á árunum 2013-2015 og skipulögð var stigvaxandi þátttaka Íslands á stærstu bókasýningu Norðurlanda sem fram fer í Gautaborg ár hvert og náði kynningin hámarki haustið 2015 með viðamikilli íslenskri bókmenntadagskrá. Skipulögð verði þátttaka í bókasýningunni í Gautaborg næstu þrjú ár, í samstarfi við Íslandsstofu og Félag íslenskra bókaútgefenda og þar verði sjónum einkum beint að bókmenntum fyrir börn og ungmenni.

Lestrarhvatning og lestrarkönnun

Miðstöðin efli enn frekar samstarf við fagfélög bókaútgefenda og rithöfunda, Bókmenntaborgina og fleiri aðila um lestrarhvetjandi aðgerðir sem beinast munu að öllum aldurshópum. Haldið verður áfram að þróa lestrarskráningarvefinn allirlesa.is í samstarfi við Bókmenntaborgina og efnt verður til árlegs landsleiks í lestri eins og gert hefur verið frá árinu 2014.

Miðstöðin hafi frumkvæði að því að gerð verði lestrarkönnun meðal landsmanna í samvinnu við fagfélög innan bókageirans. Unnið verði markvisst að auknu aðgengi fólks á öllum aldri að bókum í daglegu lífi, um land allt. 

Áhersla á bækur fyrir börn og ungmenni

Miðstöðin leggi sérstaka áherslu á að styrkja þýðingar á vönduðum bókum fyrir börn og ungmenni og stuðli að auknu aðgengi barna að bókum í samvinnu við fagaðila innan bókageirans og jafnframt að stuðningi við barnabækur með íslenskum myndlýsingum. Miðstöðin auki samstarf við rithöfunda um heimsóknir þeirra í skóla um land allt.

Samstarf

Miðstöðin eigi frumkvæði að virku samstarfi við sem flesta fag- og hagsmunaaðila á þeim sviðum sem snerta starfsemi hennar, þar á meðal bókasöfn, rithöfunda, bókaútgefendur, þýðendur, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Bókmenntaborgina, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sendiráð Íslands erlendis og Íslandsstofu.

 

 

 

 

 

Reykjavík, 14. júní 2016

 

Virðingarfyllst, f.h. stjórnar

 


___________________________________

Hrefna Haraldsdóttir

 

 

Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta skipa:

 

Hrefna Haraldsdóttir, formaður                                                             

Bryndís Lofsdóttir, varaformaður                           

Sigmundur Ernir Rúnarsson

Salka Guðmundsdóttir

Kristján Jóhann Jónsson