Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum

Heiðursviðurkenning þýðenda íslenskra bókmennta á erlend mál afhent í sjötta sinn

5. maí, 2025

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

 Myndin er tekin á Bessastöðum: Orðstírshafarnir og Björn Skúlason eiginmaður Höllu Tómasdóttur forseta Íslands, sem afhenti viðurkenninguna.


Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Heiðursviðurkenningin er veitt einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi.

Maki forseta Íslands, Björn Skúlason, afhenti heiðursviðurkenninguna Orðstír í fimmta sinn á Bessastöðum 26. apríl sl.

Kim Lembek hefur í meira en 40 ár starfað í íslenskum bókmenntum. Hann hefur þýtt um það bil 85 verk úr ýmsum greinum bókmenntanna, bæði nútímabókmenntir og fornbókmenntir. Lembek hefur þýtt öll helstu verk Hallgríms Helgasonar, Sjóns og Jóns Kalmans Stefánssonar yfir á dönsku og að auki hefur hann þýtt höfunda á borð við Fríðu Ísberg, Bergsvein Birgisson og Arnald Indriðason. Einnig hefur hann nýlega þýtt Njálssögu og Grettissögu upp á nýtt.

Tatjana Latinovic hefur búið og starfað á Íslandi síðan árið 1994. Hún þýðir bæði á serbnesku og króatísku og á meðal höfunda sem hún hefur þýtt á serbnesku eru Sjón, Arnaldur Indriðason, Auður Ava Ólafsdóttir, Gyrðir Elíasson, Oddný Eir Ævarsdóttir, Halldóra Thoroddsen, Ófeigur Sigurðsson og Jón Kalman Stefánsson. Á króatísku mætti nefna höfunda eins og Sigurbjörgu Þrastardóttur, Sjón, Einar Má Guðmundsson og Auði Övu Ólafsdóttur.

Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík. Í stjórn að þessu sinni sátu fyrir hönd þessara aðila þau Gauti Kristmannsson, Guðrún C. Emilsdóttir, Kristjana Rós Guðjohnsen, Sif Gunnarsdóttir og Örnólfur Thorsson.


Allar fréttir

Íslensku bókahönnunarverðlaunin 2025: Tilnefningar - 19. nóvember, 2025 Fréttir

Tilkynnt hefur verið um tilnefningar til Íslensku bókahönnunarverðlaunanna 2025 en það eru Félag íslenskra bókaútgefanda (FÍBÚT) og Félag íslenskra teiknara (FÍT) sem standa að verðlaununum.

Nánar

Þjóðin ver að jafnaði 59 mínútum á dag í lestur samanborið við 69 mínútur fyrir tveimur árum - 13. nóvember, 2025 Fréttir

Í nýrri könnun á lestrarhegðun þjóðarinnar kemur fram að Íslendingar lesa/hlusta að jafnaði 2,3 bækur á mánuði. Tölurnar sýna einnig að dregið hefur úr lestri bóka á öllum formum, þ.e. hefðbundinna bóka, raf- og hljóðbóka. 

Nánar

46 styrkir veittir til þýðinga íslenskra verka - mikill áhugi í Danmörku og Frakklandi - 29. október, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir tvisvar á ári styrki til þýðinga íslenskra bóka á erlend mál. 50 umsóknir bárust í þessari síðari úthlutun ársins og veittir voru 33 styrkir. Þá voru veittir 13 styrkir til norrænna þýðinga.

Nánar

Allar fréttir