Íslensku bókahönnunarverðlaunin 2025: Tilnefningar
Verðlaunin skiptast í tvo flokka, bókarkápur annars vegar og bókahönnun hins vegar.
Tilkynnt hefur verið um tilnefningar til Íslensku bókahönnunarverðlaunanna 2025 en það eru Félag íslenskra bókaútgefanda (FÍBÚT) og Félag íslenskra teiknara (FÍT) sem standa að verðlaununum.
Í ár voru 57 verk lögð fram og dómnefnd skipa þau Atli Hilmarsson, Guðmundur Úlfarsson, Kristján Bjarki Jónasson, Margrét Áskelsdóttir og Una María Magnúsdóttir.
Í flokknum bókahönnun eru eftirfarandi bækur tilnefndar:
Hennar Rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi eftir Elinóru Guðmundsdóttur, Chanel Björk Sturludóttur og Elínborgu Kolbeinsdóttur. Vía útgáfa.
Hönnun: Kolbeinn Jara Hamíðsson Moradi, Þorgeir K. Blöndal og Kaja Sigvalda.
Umsögn dómnefndar:
„Bókin er brotin upp á óvæntan máta og unnið með ólík leturkerfi og uppsetningu, og þannig skírskotað til umfjöllunarefnisins. Góð hrynjandi í umfangsmiklu verki þar sem reynir á margt í framsetningu upplýsinga.“
Svarthol Tunglsins. Tunglið forlag.
Hönnun: Ragnar Helgi Ólafsson
Umsögn dómnefndar:
„Bókaröð þar sem himingeimurinn liggur til grundvallar. Unnið er með svarthol á kjölum bókanna, sem og á innsíðum og saurblöðum. Röðin hefur sterkan heildarbrag en hver bók hefur þó sín sérkenni. Laglegt letur og fallegt pappírsval að innan sem utan gera bækurnar góðar aflestrar,“ segir í umsögn dómnefndar.
Blaka eftir Rán Flygenring. Angústúra.
Hönnun: Rán Flygenring
Umsögn dómnefndar:
„Lesandinn sogast inn í heim bókarinnar frá fyrstu síðu. Handgerðir eiginleikar og úthugsað litaval hafa bein áhrif á lestrarupplifunina og kallast á við efni bókarinnar. Pappírinn passar teikningunum fullkomlega og grunnsýn höfundar er fylgt út í gegn þannig að úr verður sannfærandi og heilsteypt verk.“
Jörð / Earth eftir Bryndísi Jónsdóttur. Angústúra.
Hönnun: Arnar Freyr Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir hjá Studio Studio.
Umsögn dómnefndar:
„Úthugsað og stílhreint verk þar sem efnisval, prentun og myndvinnsla er til fyrirmyndar. Kápa og innsíður endurspegla verkin sem eru til umfjöllunar og samræmi er milli allra hönnunarþátta. Óhefðbundin týpógrafía sem þó lætur lítið fyrir sér fara.“
Sketching Bathing in Iceland eftir Rán Flygenring. Angústúra.
Hönnun: Arnar Freyr Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir hjá Studio Studio.
Umsögn dómnefndar:
„Gáskafullt bókverk þar sem leikgleði ræður ferðinni. Marglaga kápa sem endurspeglar umfjöllunarefnið á óvæntan hátt. Verk sem sprengir upp hugmyndir um form og flokka. Vel farið með teikningar og myndvinnslu þannig að áferð og pappír skila sér.“
TÓM eftir Spessa. Kind útgáfa.
Hönnun: Kakkalakki Studio, Fernanda Fajardo og João Linneu
Umsögn dómnefndar:
„Framúrskarandi bókverk þar sem hvert smáatriði er úthugsað. Prentun, pappírsval og myndvinnsla draga myndir bókarinnar fram og svartur saumurinn bindur efnið og bókverkið í órofa heild,“ er haft eftir dómnefnd um bókverk Spessa.
Í flokknum bókakápur eru eftirfarandi bækur tilnefndar:
Mzungu eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur og Simon Okoth Aora. Angústúra.
Hönnun: Arnar Freyr Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir hjá Studio Studio.
Umsögn dómnefndar:
„Kápa sem grípur strax athygli lesandans. Hönnunin skírskotar beint til efnis bókarinnar án þess að vera bókstafleg, allt frá brotalínu á forsíðu til saurblaða undir áhrifum afrískrar textíllistar. Ásetningur í hverju smáatriði,“ segir í umsögn dómnefndar.
Andrými - Kviksögur eftir Eirík Jónsson. Bjartur-Veröld.
Hönnun: Börkur Arnarson.
Umsögn dómnefndar:
Í umsögn dómnefndar segir að kápan sé einföld en áhrifarík og grípandi þar sem samspil leturs og auðs rýmis skapa óvanalega myndbyggingu. Bókin er gefin út af Bjarti.
Syndafall eftir Yrsu Sigurðardóttur. Bjartur-Veröld.
Hönnun: Ragnar Helgi Ólafsson
Umsögn dómnefnar:
Í umsögn dómnefndar segir að kápan sé formföst og tali inn í samræmt útlit sem hefur verið þróað yfir mörg ár. „Hér er unnið með ímynd höfundar og væntingar lesandans þar sem nafn höfundar sést varla og myndefnið vísar óbeint til inntaks bókarinnar.“
Hennar Rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi eftir Elinóru Guðmundsdóttur, Chanel Björk Sturludóttur og Elínborgu Kolbeinsdóttur. Vía útgáfa.
Hönnun: Kolbeinn Jara Hamíðsson Moradi, Þorgeir K. Blöndal og Kaja Sigvalda hönnuðu.
Umsögn dómnefnar:
„Ögrandi kápa þar sem ólíkir stílar og menningarheimar mætast í samhljómi sem kallast á við umfjöllunarefni bókarinnar. Áferð, litaval og bókband er úthugsað til að lyfta efninu upp og leika sér með væntingar lesanda,“
Blaka eftir Rán Flygenring. Angústúra.
Hönnun: Rán Flygenring
Umsögn dómnefndar:
Í umsögn dómnefndar segir að kápan sé grípandi í einfaldleika sínum „þar sem viðfangsefnið horfir beint á lesandann. Lifandi vatnslitum og skærum sjálflýsandi lit er teflt saman í mynd sem endurspeglar höfundarverkið og bókina sem heild.“
TÓM eftir Spessa. Kind útgáfa.
Hönnun: Kakkalakki Studio, Fernanda Fajardo og João Linneu
Umsögn dómnefndar:
„Dularfull kápa þar sem ljósmyndabrotum er skeytt saman svo að úr verður sjálfstætt myndverk sem vekur forvitni lesanda. Áhrifamáttur myndarinnar er magnaður upp með vönduðu efnisvali og prentvinnslu,“
