Raddir frá Íslandi / Röster från Island fengu glimrandi viðtökur í Gautaborg

Fullyrða má að þátttaka Íslands með dagskránni Raddir frá Íslandi / Röster från Island, hafi vakið verðskuldaða athygli á bókamessunni í Gautaborg ár. Alls tóku 15 höfundar þátt í fjölda dagskráratriða.

29. september, 2015

Fullyrða má að þátttaka Íslands með dagskránni Raddir frá Íslandi / Röster från Island, hafi vakið verðskuldaða athygli á bókamessunni í Gautaborg ár. Alls tóku 15 höfundar þátt í fjölda dagskráratriða. 

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp við opnun messunnar og gerði aðkallandi málefni samtímans að umræðuefni. Illugi fékk sérlega hlýjar móttökur við sínu ávarpi, þar sem hann fjallaði á heimspekilegum nótum um helstu átakamál samtímans – og ítrekaði nauðsyn þess að menn glímdu við þau með samkennd og mannúð að leiðarljósi.

Höfundarnir 15 sem tóku þátt í dagskránni árituðu alltaf bækur sínar að loknum samræðum og málþingum og greinilegt er að þeir eiga marga aðdáendur og dygga lesendur í Svíþjóð – auk þess sem sænskir fjölmiðlar voru mjög áhugasamir um að ná tali af þeim. 

Stöðugur straumur gesta var á íslenska básinn alla messudagana fjóra en hann vakti athygli fyrir frumlega og nútímalega hönnun HAF Studio. Að auki var hann mun stærri en áður og vel staðsettur við helsta inngang messunnar. Til nýjunga heyrði að hægt var að kaupa íslenskar bækur í sænskri þýðingu og segir Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda að þannig hafi íslenskir höfundar orðið sýnilegri en oft áður og jafnframt stutt við þátt sænskra útgefenda.

 Þórarinn Leifsson, Bergrún Íris Sævarsdóttir, Áslaug Jónsdóttir og Katti Hoflin. 

Bergrún Íris Sævarsdóttir sem er tilnefnd til norrænu barnabókaverðlaunanna í ár fyrir bók sína Vinur minn, vindurinn segir um þátttökuna í Gautaborg: „Bokmässan í Gautaborg er fyrsta bókamessan sem ég tek þátt í. Ég vissi því ekki við hverju var að búast en þegar út var komið tók það mig dágóða stund að meðtaka stærð messunnar, en um 100.000 gestir voru á svæðinu. Það var sannkallaður heiður að vera hluti af jafn glæsilegum hóp íslenskra höfunda og sér í lagi í ár, þegar Ísland var í fókus undir yfirskriftinni Raddir frá Íslandi. Það er greinilegt að bókmenntaheimurinn er spenntur fyrir Íslandi og íslenskum höfundum, sagnahefð okkar og menningu.“

  Arnaldur Indriðason, Unni Lindell, Árni Þórarinsson, Monica Kristensen og Johanna Hallström.

Árni Þórarinsson tók meðal annars þátt í málþingi um glæpasagnahefðina á bókamessunni og sænskur útgefandi hans kynnti nýjustu bók Árna í sænskri þýðingu, Den sjunde sonen (Sjöundi sonurinn). „Það sem vakti athygli mína á bókamessunni var hversu staða bókarinnar virtist sterk og hvað áhugi og aðsókn almennings voru mikil. Þess naut kynningin á íslenskum höfundum og þýðingum verka þeirra sannarlega. Bókin rokkaði feitt í Gautaborg." Sagði Árni aðspurður um hvað stæði uppúr að lokinni dvölinni í Gautaborg.

Íslendingasögur og rithöfundar nútímans Einn fjölmargra dagskrárliða Radda frá Íslandi fjallaði um áhrif sem stíll og frásagnaraðferð Íslendingasaga hefur haft á samtímahöfunda, sænska og íslenska. Hinn velþekkti forsagnafræðingu og prófessor Lars Lönnroth kallaði til liðs við sig rithöfundana Erik Anderson og Klas Östergrein frá Svíþjóð, ásamt þeim Einar Kárasyni og Gerði Kristnýju. Spennan gagnvart efnnu var greinilega næg, því að málþingið fór fram í stórum sal, sem var sneisafullur af fólki. Umræðan spannst skemmtilega áfram, var snörp og athyglisverð. Þau Einar og Gerður þóttu standa sig einstaklega vel, Gerður las meðal annars úr sænskri þýðingu á Blóðhófni.


Ísland og ástin Á öðrum degi messunnar var samtal við Auði Övu Ólafsdóttur og Jón Kalman Stefánsson með blaðamanninum Mats Almård, en Afleggjarinn eftir Auði og Fiskarnir hafa enga fætur eftir Jón eru meðal nýrra sænskra þýðinga sem kynntar eru hér. Sænskur útgefandi þeirra er Svane Weyler förlag. Yfirskrift spjallsins var Ísland og ástin, en fjörugt samstalið átti eftir að sveigjast og teygjast í ýmsar áttir, fjölmörgum áheyrendum til skemmtunar, enda erfitt að hemja ástina. Rætt var um t.a.m. karlmennsku, hugrekki, foreldrahlutverkið, útrásarvíkinga, gróðurfar, skrýtna staði – og hugrekkið sem þarf til að horfast í augu við veikleika sína.


5.6 kíló af Íslendingasögum Meðal síðustu dagskrárliða mátti finna kynningu á Íslendingasögunum sem komu út í nýrri sænskri þýðingu fyrir tveimur árum. Greina má aukinn áhuga á fornsagnaarfinum okkar á Norðurlöndunum eftir að allar Íslendingasögurnar komu út í hinum glænýjum þýðingum á sænsku, dönsku og norsku. Kristinn Jóhannesson og Gunnar D Hansson sem áttu sæti í sænsku ritstjórninni ásamt Karl G Johanson sögðu frá vinnunni bakvið þetta risavaxna verkefni en alls komu 20 þýðendur að verkinu, bæði reyndir og óreyndir. Sænska útgáfa sagnnanna er í 5 bindum og vega samtals 5.6 kíló. Við þýðingarnar var haft í huga að koma sögunum yfir á nútímasænsku og þannig var reynt að höfða meira til ungra og nýrra lesenda. Með þýðingu og útgáfu sagnanna sem m.a. var styrkt af Sænsku akademíunni (Og Torsten Söderbergs Stiftelse) var fyrst og fremst haft í huga að lesendur gætu notið og skilið textana ekki síst dróttkvæðin sem reyndust með því erfiðasta í meðferð og túlkun. Þá var einnig strax frá upphafi tekin sú stefna að halda öllum manna- og staðarnöfnum eins og þau koma fyrir í íslenska textanum. Ritstjórarnir telja að Íslendingasögurnar séu kjörin uppspretta fyrir nútímahöfunda sem geta sótt ótal hugmyndir í þennan sígilda sagnaarf jafnt skáldsagnahöfundar sem höfundar annarra miðla og tölvuleikja.


Fjölbreytt dagskrá 
Auk framangreinds var fjöldi annarra viðburða á dagskrá; Andri Snær Magnason hélt skemmtilegan fyrirlestur/uppistand um fjölbreytilegan rithöfundaferil sinn fyrir fullum sal gesta og Jónína Leósdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir ræddu samband sitt, tilurð þess út frá bók Jónínu, Við Jóhanna og sýnt var brot úr myndinni Jóhanna sem frumsýnd verður í október á Íslandi. Arnaldur Indriðason kom einnig fram í nokkrum prógrömmum enda óhemju vinsæll hjá sænskum lesendum og fjölmiðlum sem eltu hann á röndum. Sigurbjörg Þrastardóttir, Gerður Kristný og meðgönguljóðskáldin Kári Tulinius og Valgerður Þóroddsdóttir lásu upp ljóð. Einar Már Guðmundsson ræddi m.a. bók sína Íslenskir kóngar sem nýlega var þýdd á sænsku. Árni Þórarinsson kom einnig fram í fjölmörgum dagskráratriðum, enda á hann marga dygga lesendur í Svíþjóð. Barnabókahöfundarnir Bergrún Íris Sævarsdóttir, Áslaug Jónsdóttir og Þórarinn Leifsson barnabókahöfundar fóru yfir feril sinn og sögðu frá nýjustu bókunum sínum í tveimur vel sóttum dagskrárliðum. Lestrarhesturinn Sleipnir var fulltrúi Reykjavíkur bókmenntaborgar á messunni og gladdi gesti og gangandi, með heillandi útilit sínu og skemmtilegum tilburðum. Loks má nefna að ljósmyndarinn Páll Stefánsson hélt sýningu á myndum úr nýrri bók sinni Iceland Exposure.

 Jónína Leósdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir að loknu málþingi um bók Jónínu, Við Jóhanna.  Gerður Kristný og lestrarhesturinn Sleipnir.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp við setningu messunnar.   Arnaldur Indriðason spjallar við Henrik Lindvall, sænska útgefanda sinn hjá Norstedts forlaginu í Svíþjóð.

 Andri Snær Magnason í samtali á bókamessunni.
 Móttaka sendiherra Íslands í Svíþjóð á íslenska básnum.
 Illugi Gunnarsson og Páll Stefánsson ljósmyndari ræða saman í móttökunni á íslenska básnum.  Einar Kárason og Illugi Gunnarsson.
 
Kamp Knox eftir Arnald Indriðason kom nýlega út í sænskri þýðingu Ylvu Hellerud. 
 
Einar Már Guðmundsson áritar bækur áhugasamra lesenda.
  Jón Kalman áritar bækur fyrir sænska lesendur sína.
 Auður Ava Ólafsdóttir spjallar við lesanda.
   Valgerður Þóroddsdóttir og Kári Tulinius lásu upp ljóð sín í Rum för poesi. 
Miðstöð íslenskra bókmennta skipulagði þátttöku Íslands á bókamessunni í Gautaborg með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytis, Íslandsstofu og Félags íslenskra bókaútgefenda. Samstarfsaðilar voru Reykjavík bókmenntaborg og Norræna húsið. HAF studio í Reykjavík hannaði íslenskan sýningarbás á bókamessunni.

Allar fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta flytur í Austurstræti 5 - 1. október, 2024 Fréttir

Auk Miðstöðvar íslenskra bókmennta má finna í sama húsi Tónlistarmiðstöð, Sviðslistamiðstöð, Myndlistarmiðstöð, Listahátíð í Reykjavík, Safnaráð og List fyrir alla. 

Nánar

Bókamessan í Gautaborg haldin 26.-29. september 2024 - 27. ágúst, 2024 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta sækir Bókamessuna heim og hittir norræna bókaútgefendur og aðra sem hafa áhuga á íslenskum bókmenntum. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir gera það gott í Danmörku - 19. júní, 2024 Fréttir

Verk eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, Gyrði Elíasson, Hallgrím Helgason, Einar Má Guðmundsson og fleiri eru nýkomin út í Danmörku.

Nánar

Allar fréttir