Myndlist

Fátt er að segja af íslenskri myndlist frá landnámi og undir miðja nítjándu öld. Landnámsmenn fluttu með sér þekkingu á forn-norrænni handiðn sem var rómuð að gæðum, en afraksturinn hefur að mestu glatast í tímans rás.

Fyrir utan Sigurð Guðmundsson (1833-74) var Þórarinn B. Þorláksson (1867-1924) líklega fyrsti listmálarinn í nútímaskilningi, og í kjölfarið fylgdu brautryðjendurnir Ásgrímur Jónsson (1876-1958), Jón Stefánsson (1881-1962) og Jóhannes S. Kjarval (1885-1972). Fyrsti íslenski nútímamyndhöggvarinn var Einar Jónsson (1874-1954), og á meðal arftaka hans voru Ásmundur Sveinsson (1893-1982), Sigurjón Ólafsson (1908-1982) og Gerður Helgadóttir (1928-1975).

Íslenskir listamenn sem lærðu og störfuðu erlendis sneru oft heim með strauma og stefnur meginlandsins í farteskinu. Þannig var listmálarinn Jón Engilberts (1908-1972) undir áhrifum frá þýska expressjónismanum við upphaf ferils síns, og verk Nínu Tryggvadóttur (1913-1968) bera sum hver einkenni kúbismans. Svavar Guðnason (1909-1988) var sömuleiðis meðlimur í COBRA-hópnum um skeið, og í verkum hans birtist sú leikgleði með liti og form sem einkenndi félagsskapinn.

Síðan á síðari hluta sjöunda áratugarins hefur hugmyndalistin verið atkvæðamikil á Íslandi. Síðustu ár hefur hún verið í örri þróun, meðal annars fyrir tilstuðlan Sigurðar Guðmundssonar (f. 1942), eins „alþjóðlegasta“ listamanns Íslands. Í verkum Sigurðar ægir öllu saman – gjörningum, ljósmyndum, teikningum, prentunum, höggmyndalist, innsetningum og jafnvel tónlist og ritlist; þau feta jafnan ótroðnar slóðir og hunsa takmarkanir listforms og tækni.

Dieter Roth (1930-1998) hafði gríðarmikil áhrif á yngri listamenn og hefur enn. Roth var í senn teiknari, skartgripa- og húsgagnahönnuður, kvikmyndagerðarmaður, myndlistarmaður, myndhöggvari, rithöfundur og tónlistarmaður. Enn gætir áhrifa frá verkum hans – sem iðulega sprengdu af sér takmarkanir listhugtaksins – í innsetningum yngri kynslóðarinnar. Margir ungir listamenn eru auk þess innblásnir af dálæti Roth á samstarfi listamanna af ólíkum sviðum. Slík samvinna er í dag eitt af höfuðeinkennum íslenskrar listar.

Í hverjum mánuði hefur hér verið og mun verða fjallað um íslenskt listafólk í máli og myndum, sbr. höfundur mánaðarins, bók mánaðarins og myndband mánaðarins.. Árið 2011 má búast við fjölmörgum íslenskum myndlistarsýningum í þýskum söfnum, og verða þær kynntar hér eftir því sem nær dregur

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, eða Center for Icelandic Art, er mikilvægur vettvangur upplýsinga fyrir íslenska myndlistarmenn, jafnt sem erlenda, sýningastjóra, safnara, blaðamenn og alla þá sem eru áhugasamir um íslenska myndlist.

Tenglar á helstu söfn og gallerí:

Listasafn Íslands - Safn Ásgríms Jónssonar

Listasafn Reykjavíkur - Ásmundarsafn - Hafnarhús - Kjarvalstaðir

Listasafn Einars Jónssonar

Listasafn Kópavogs-Gerðarsafn 

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar

Listasafn ASÍ

Listasafnið á Akureyri

Nýlistasafnið

Gallerí i8

Crymo gallerí

Reykjavík Art Gallery

Kling&Bang gallerí

Gallerí Fold