Jonathan Franzen
Sykurmolarnir og Sjálfstætt fólk
Rithöfundar hvaðanæva að úr heiminum hafa hrifist af íslenskum bókmenntum í gegnum tíðina. Þar á meðal er bandaríski rithöfundurinn Jonathan Franzen. Sjálfstætt fólk kom honum til bjargar á erfiðum tímum.
Rithöfundar hvaðanæva að úr heiminum hafa hrifist af íslenskum bókmenntum í gegnum tíðina og orðið fyrir áhrifum af þeim. Bandaríski rithöfundurinn Jonathan Franzen er einn af þessum höfundum en að hans sögn kom það honum til bjargar á erfiðum tímum í rithöfundarferli sínum að lesa Sjálfstætt fólk.
Mikið hefur borið á Franzen undanfarið. Andlit hans rataði á forsíðu tímaritsins TIME vegna nýjustu bókar hans Freedom, sem kom út í ágúst á þessu ári, en núlifandi rithöfundur hefur ekki prýtt forsíðu tímaritsins í heil tíu ár. Freedom hefur hlotið frábærar viðtökur lesenda og gagnrýnenda sem keppast við að lýsa henni sem bestu bók ársins.
Hér er brot úr viðtali við Franzen sem Birna Anna Björnsdóttir blaðamaður tók í mars 2007. Þá var hann að hefjast handa við nýjustu skáldsöguna. Hann rifjaði upp kynni sín af íslensku Sykurmolunum og svo Halldóri Kiljan Laxness.
Þið hafið staðið ykkar plikt fyrir 20. öldina
Franzen: „Ísland, Ísland, Ísland. Veistu það, að fyrir mér er Ísland Sjálfstætt fólk og Sykurmolarnir. Fyrsta platan þeirra kom mér í gegnum seinni hluta níunda áratugarins. Ég hafði gefist upp á popptónlist, fannst ekkert í gangi, svo las ég grein þar sem minnst var á Sykurmolana... Þetta er alveg frábær tónlist! Björk er auðvitað ofsalega hæfileikarík, en mér finnst þetta samt skemmtilegra en það sem hún hefur síðan gert. Og hvert einasta lag, algjör poppsnilld, tíu meiriháttar lög. Þetta, plús Sjálfstætt fólk, frá svona litlu landi, þið hafið staðið ykkar plikt fyrir 20. öldina. Og ég er viss um að þið eigið miklu meira til...“
Þú heldur semsagt líka upp á Sjálfstætt fólk?
Franzen: „Já, ég las hana á seinni hluta tíunda áratugarins. Þetta var á þeim tíma sem ég var að byrja upp á nýtt með The Corrections. Ég henti öllu sem ég hafði skrifað og var að reyna að verða öðruvísi rithöfundur. Tvær bækur höfðu þá mest áhrif á mig. Sjálfstætt fólk og bók Kenzaburo Oe, A Personal Matter. Stundum þegar maður er kominn í öngstræti og heldur að maður getur ekki orðið spenntur yfir neinu, þá kemur eitthvað sem gerir mann svona líka ofboðslega spenntan. Og fyrir mig, þegar ég var fastur með The Corrections, þá voru það einkum þessar tvær bækur.“
Hvað var það við Sjálfstætt fólk sem snerti við þér?
Franzen: „Hvað textinn er safaríkur og sagan. Þetta er bók um 20. öldina. Og það er ekki fyrr en maður er búinn með svona 2/3 af bókinni sem maður uppgötvar að já, þetta er bók um 20. öldina. Þetta er stórkostleg bók um 20. öldina. Og frá svo frábærlega ólíkindalegu sjónarhorni. Að hægt sé að skrifa bók um – hún er auðvitað um fullt af hlutum – en bók sem er í kjarna sínum um hlutskipti og þjáningu einstaklingsins í nútímanum, að hægt sé að gera þetta með því að segja sögu fjárbónda, af mikilli nákvæmni, það var algjör uppgötvun. Að það þurfi ekki að kalla til sögunnar þjóðhöfðingja eða flókin alþjóðleg samsæri, að allt þetta geti haldið sig lengst í bakgrunni og að þú getir samt, og kannski enn frekar, komist að því sem skiptir mestu máli.“