Milan Kundera

„Hver einasta lína í Svaninum angar af íslensku landslagi,“ skrifaði Milan Kundera í grein um skáldsögu Guðbergs Bergssonar.

Milan KunderaSkáldsagan Svanurinn, eftir Guðberg Bergsson, kom út á Íslandi árið 1991 og hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin það ár. Haustið 1996, þegar bókin kom út franskri þýðingu hjá bókaútgáfunni Gallimard, skrifaði rithöfundurinn Milan Kundera grein um hana sem birtist fyrst í vikuritinu Le Nouvel Observateur. Hún kom svo út í endurskoðaðri útgáfu í ritgerðasafni Kunderas, Kynni (Une rencontre) árið 2009. Friðrik Rafnsson þýddi það verk eins og margar aðrar bækur Milan Kundera á íslensku.

Leyndarmál ólíkra tímaskeiða lífsins

Um Svaninn, eftir Guðberg Bergsson.


Lítil stúlka hnuplaði samlokum í stórmarkaði í Reykjavík. til að refsa henni sendu foreldrar hennar hana í nokkra mánuði út í sveit til bónda sem hún þekkti ekki neitt. Í gömlu Íslendingasögunum frá þrettándu öld voru stórglæpamenn sendir í útlegð til óbyggða á þeim tíma og jafngilti það dauðarefsingu þar sem landið er gríðarlega víðáttumikið, kalt og gróðursnautt. Ísland: þrjú hundruð þúsund íbúar á hundrað þúsund ferkílómetrum. Til að þola einsemdina (ég vísa hér í lýsingu í skáldsögunni) nota bændurnir sjónauka til að fylgjast með því sem gerist á næstu bæjum. Ísland: einsemd þar sem allir fylgjast með öllum.

Hver einasta lína í Svaninum, þessari skálkasögu um æskuna, angar af íslensku landslagi. En ég bið ykkur þó lengst allra orða að lesa skáldsöguna sem „íslenska skáldsögu“, sem framandi furðufyrirbæri! Guðbergur Bergsson er stórmerkur evrópskur höfundur. Innblásturinn í verk sín sækir hann ekki fyrst og fremst í félagslegan eða sögulegan fróðleik, og þaðan af síður landfræðilegan, heldur í tilvistarleit, sannkallað tilvistargrúsk sem staðsetur bók hans algerlega í miðdepli þess sem (að mínum dómi) mætti kalla hið nútímalega við skáldsöguna.

Viðfangsefni þessarar leitar er kornung söguhetja („telpan“ eins og höfundur kallar hana) eða öllu heldur aldur hennar: níu ára. Ég hugsa oftar og oftar með mér (nokkuð sem liggur í augum uppi en við tökum þó ekki eftir) að maðurinn sé aðeins til í áþreifanlegum aldri sínum, og að allt breytist með aldrinum. Að skilja annað fólk þýðir að skilja aldursskeiðið sem það er að fara í gegnum. Ráðgáta aldursins: eitt viðfangsefna sem einungis skáldsagnahöfundur getur varpað á ljósi. Níu ára: mörk æsku og unglingsára. Aldrei hef ég séð eins skýru ljósi varpað á þau mörk og í þessari skáldsögu.

Hvað þýðir það eiginlega, að vera níu ára? Það er að feta sig áfram í þokukenndum draumaheimi. Ekki þó ljóðrænum draumaheimi. Það er síður en svo verið að fegra æskuna í þessari bók! Dagdraumar, hugarórar, það er leið „telpunnar“ til að takast á við ókunnan og illskiljanlegan heim; og hann er síður en svo vinsamlegur. Fyrsta daginn í sveitinni stendur hún andspænis heimi sem er framandi og virðist fjandsamlegur og þá ímyndar hún sér, að til að verja sjálfa sig „sendi hún í skyndi úr höfðinu ósýnilegt eitur um allt húsið. Hún eitraði herbergið, fólkið, dýrin, gróðurinn og loftið...“

Hún getur ekki áttað sig á raunverulega heiminum nema með því að beita hugarfluginu. Þarna er heimasæta á bænum, dóttir bóndans; við getum okkur þess til að bak við móðursýkislega hegðun hennar búi ástarsaga; en hvað með stúlkuna, á hvað getur hún giskað? Haldin er hátíð í sveitinni; pörin dreifa sér um móana; stúlkan sér hvar karlarnir leggjast á konurnar; hún hugsar sem svo að þeir séu eflaust að skýla þeim fyrir rigningunni: himininn er svartur og þungbúinn.

Fullorðna fólkið er sífellt upptekið af veraldlegum áhyggjum sem ýta burt öllum háspekilegum spurningum. En telpar er fjarri veraldarvafstrinu og ekkert skilur hana frá spurningunum um lífið og dauðann. Hún er komin á háspekilegan aldur. Hún hallar sér yfir mógröf, virðir fyrir sér eigin spegilmynd á bláu vatnsborðinu: „Líkami hennar leystist upp og hvarf í blámann (...) Á ég að stíga sporið? spurði hún, lyfti fæti, teygði hann fram og sá slitinn skósóla speglast í vatninu.“ Hún brýtur ákaft heilann um dauðann.

Það á að slátra kálfi. Allir krakkarnir í sveitinni vilja fylgjast með því þegar honum verður slátrað. Nokkrum mínútum áður en hann er leiddur til slátrunar hvíslar stúlkan að honum: „Þú átt að deyja og hætta að vera til. Veistu það?“ Krökkunum finnst þetta fyndið hjá henni og öll, hver á eftir öðru, fara þau og hvísla þessu sama að kálfinum. Hann er síðan skorinn á háls og nokkrum klukkutímum síðar er kallað í mat. Krökkunum finnst gaman að tyggja skrokkinn sem þau höfðu horft á þegar slátrað var. Síðan hlaupa þau til kýrinnar, mömmu kálfsins. Stúlkan veltir fyrir sér: veit hún að við erum núna að melta afkvæmi hennar í maga okkar? Og hún opnar munninn og andar á granirnar á kúnni.

Tímaskeiðið milli æsku og unglingsára: ekki er lengur þörf á stöðugri umönnun foreldranna og maður uppgötvar skyndilega hversu sjálfstæður maður er; þar sem maður er enn ekki stiginn inn í veraldarvafstrið finnur maður fyrir því hversu gagnslaus maður er. Þetta finnur telpan mun betur en aðrir þar sem henni hefur verið holað niður hjá vandalausum. Þrátt fyrir það heillar hún annað fólk, enda þótt hún sé gagnslaus. Hér er ógleymanlegur kafli: Dóttir bóndans er illa haldin af ástarsorg, fer út á hverri nóttu (bjartri íslenskri sumarnóttu) og sest niður við ána. Telpan sem fylgist stöðugt með henni, fer líka út og tyllir sér langt að baki henni. Þær vita hvor af annari en hvorug segir orð. Síðan bendir bóndadóttirin henni að koma til sín. En telpan vill ekki hlýða og snýr heim á bæ. Hversdagslegur, látlaus, en magnaður kafli. Ég sé stöðugt fyrir mér þessa uppréttu hönd, merki sem fjarlægar verur senda hver annari, verur sem þurfa einungis að senda sín á milli þessi skilaboð: ég er hér; og ég veit að þú ert þarna. Ég sé stöðugt fyrir mér þessa uppréttu hönd, merkið sem þeir sem langt er á milli í aldri senda hver öðrum, án þess að skilja hver annan, án þess að hafa nokkuð að segja nema þessi skilaboð: ég er langt frá þér, ég hef ekkert að segja við þig, en ég er hérna; og ég veit að þú ert þarna. Þessi upprétta hönd, handarhreyfing þessarar bókar vísar til löngu liðins aldursskeiðs sem við getum hvorki endurlifað né endurgert og er orðin okkur öllum ráðgáta sem væri áfram hulin ef ekki kæmi til innsæi skáldsagnahöfundarins.