Nora Gomringer

„Laxness skrifaði þessa sögu af hikandi frelsisleit árið 1933, í stíl sem var í senn meitlaður, beittur og dæmisagnakenndur,“ segir Nora Gomringer, eitt vinsælasta ungskáld Þýskalands, um Ungfrúna góðu og Húsið.

Ungfrúin góða og Húsið eða Hvernig skal eyðileggja líf konu

Nora - ÍslenskÁ lestarferðalagi fyrir nokkrum vikum las ég Ungfrúna góðu og Húsið eftir Halldór Laxness, og varð í kjölfarið afar raunaleg á svipinn í lestarvagninum. Svo raunaleg, að bláókunnugur maður bauðst til að kaupa handa mér te svo við gætum rætt um hvað lægi svona þungt á mér.

Ungfrúin góða Rannveig, útskýrði ég fyrir manninum, glatar smátt og smátt öllu sínu. Áður en hún glatar líftórunni glatar hún börnum sínum. Á undan börnunum, gleðinni; á undan gleðinni, ást systur sinnar; á undan ástinni, sakleysi sínu; á undan sakleysinu, bernsku sinni; þar áður heimilinu og svo loks öllu, og það þó að allir sem hlut eigi að máli séu vel meinandi.

Og þetta, sagði ég manninum, sem mér fannst svolítið norrænn í útliti, var skýrt dæmi um sorglega ævisögu konu – og þar með stallsystur minnar – sem lifði á öðrum tíma, en þó ekki í ósvipuðum heimi.

Herramaðurinn bauð mér upp á M&M og ég brosti þakklát, vegna þess að þetta var fallega boðið af honum og vegna þess að sykur gerir mér yfirleitt gott.

Þegar Rannveig snýr aftur úr útlegð sinni í Kaupmannahöfn, hélt ég áfram – þar sem hún átti að hitta fyrir heimsmenninguna, fína fólkið og almennilegan karlmann, en kom í staðinn heim með lausaleiksbarn (og engan karl í kaupbæti) – setur fjölskyldan hennar í gang aðgreiningarferli sem nær hápunkti í afgirtum sælureit, fangelsi utan um syndarann.

Laxness skrifaði þessa sögu af hikandi frelsisleit árið 1933, í stíl sem var í senn meitlaður, beittur og dæmisagnakenndur. Árið 2010 sit ég svo í lestarvagni og græt yfir systur minni í anda, og yfir þeim fjölmörgu á undan henni og eftir. En um leið brosi ég út í annað yfir þeim fjölmörgu viðsnúningum sem geta orðið á mannsævinni, hvernig vinst endalaust upp og ofan af henni.

Mig minnir að Dorothy Parker hafi skrifað eitthvað á þá leið að karlmenn væru almennt í kjöraðstöðu til að vera bölvaldar í lífi kvenna. En þá verð ég líka að benda á ummæli sem þýska skáldkonan Elke Heidenrich viðhafði í sögu úr bókinni Nýlendur ástarinnar, en þar nefnir hún líka börn sem einn af þeim þáttum sem stefna í voða geðheilsu og hugarró heiðvirðra kvenna.           

Þegar uppi er staðið eru það semsagt mennirnir og börnin – og í tilfelli Rannveigar líka viðkvæmt og fallegt sálarþel hennar sjálfrar – sem gera öðrum kleift að stjórna henni. Hún getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér; hún lifir á tímum feðraveldis og er bjargarlaus andspænis vilja fjölskyldunnar. Og þannig er öllum svolítið um að kenna, og þessu mannslífi einfaldlega kastað á glæ.

Þegar orðspor Rannveigar er svo endanlega lagt í rúst getur hún engu að síður huggað sig við ást sonar síns – sem þó var tekinn af henni – og eins við ást dóttur sinnar, við óvenjulegt hjónaband og sín eigin, góðviljuðu hugðarefni. En áður en hægt er að segja amen yfir þessu öllu saman, áður en ungfrúin góða deyr, þá er hún líka svipt dóttur sinni. Systir hennar, sem hefur lengi reynst henni illa, birtist og Laxness líkir fundum systranna við fund örlaganornanna Einlægni og Velsæmis.

Jæja. Þetta sagði ég herramanninum á meðan ég maulaði M&M og baðaði mig upp úr stórum og smáum þáttum mannlegrar tilveru, lífi ungfrúnnar góðu og metnaðargirnd systurinnar, hinnar fögru Þuríðar. Á einhverjum tímapunkti stóð viðmælandi minn upp og gekk út úr veitingavagninum án þess að snúa nokkurn tímann aftur. Með öðrum orðum eru bókmenntaeinræður af þessu tagi kjörnar til þess að eyðileggja stemmninguna, og jújú, línurnar líka.

Nora Gomringer, Desember 2010.

(Steingrímur Karl Teague þýddi úr þýsku)


Nora Gomringer er eitt vinsælasta ungskálds Þýskalands í dag. Hún er þrítug að aldri en hefur í meira en tíu ár verið áberandi í þýsku ljóðalífi. Einkum er Nora þekkt fyrir svokallað ‚poetry-slam‘ en í því er lögð mikil áhersla á flutning ljóðsins, ekki síður en sjálft innihaldið. Nora hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir ljóð og ljóðaflutning og hefur tekið þátt í bókmenntahátíðum og „poetry-slam“ hátíðum víða um heim.

Nora Gomringer er lesandi desembermánaðar hjá Sagenhaftes Island. Hún vinnur jafnframt að verkefni tengdu Íslendingasögunum ásamt tveimur öðrum þýskum ungskáldum og þremur íslenskum listamönnum. Hefur hópurinn kynnt sér efni og rætur Íslendingasagna og mun á vordögum frumflytja verk sem byggt er á þeirri upplifun. Verður verkið bæði flutt á Íslandi og á bókmenntahátíðum víða um Þýskaland í aðdraganda Bókasýningarinnar í Frankfurt í október 2011.