Myndskeið

Skemmtileg viðtöl við höfunda, þýðendur, listamenn og fleiri um íslenskar bókmenntir og menningu.

Nýjar þýðingar Íslendingasagna

Myndskeið

„Þetta á að vera útgáfa fyrir lesendur,“ segir Kristof Magnússon, um heildarútgáfu Íslendingasagna á þýsku sem kemur út hjá S.Fischer bókaforlaginu í haust.


„Þetta á að vera útgáfa fyrir lesendur,“ segir Kristof Magnússon, um heildarútgáfu Íslendingasagna á þýsku sem kemur út hjá S.Fischer bókaforlaginu í haust.

Kristof er einn fimmtán þýðenda sem koma að þessu mikla verki sem er hornsteinninn í þáttöku Íslands í Bókasýningunni í október. Hans verkefni var að þýða Grettissögu. „Mér hefur alltaf fundist Grettir vera sérstaklega áhugaverður karakter,“ segir Kristof. „Hann passar svo illa inn í samtíma sinn. Hann hefði getað orðið alvöru hetja á öðrum tíma, en á mælikvarða hans tíma var hann bara svo skelfilega ódæll!“

Nánar er sagt frá útgáfunni á heimasíðu Fischer útgáfunnar.

Ennfremur er nú unnið að þýðingu Íslendingasagnanna á dönsku, norsku og sænsku. Áætlað er að það verk komi út á næsta ári. Það er Jóhann Sigurðsson hjá bókaútgáfunni Saga forlag sem gefur verkið út, en Jóhann stóð líka að heildarútgáfu Íslendingasagna og þátta á ensku árið 1997. Sú útgáfa liggur til grundvallar þýsku útgáfunni sem kemur út hjá Fischer.

„Okkur finnst sögurnar vera heimsbókmenntir,“ segir Örnólfur Thorsson. Hann kom fyrst að heildarútgáfu Íslendingasagna hjá Svörtu á hvítu 1985 og átti síðar þátt í að skipuleggja með Jóhanni útgáfu 23 sagna í níu bindum í ritröðinni Penguin Classics, og sá sjálfur um frágang tveggja. Hann situr nú í ráðgefandi ritnefnd fyrir norrænu útgáfurnar af Íslendingasögunum. Í nefndinni eru auk hans Vésteinn Ólason, Jónas Kristjánsson, fyrrum forstöðumenn Árnastofnunar, Viðar Hreinsson, ritstjóri ensku útgáfunnar, og Gísli Sigurðsson. Gísli er jafnframt útgáfustjóri þessara þriggja norrænu heildarútgáfna Íslendingasagnanna.

Samsetning: Þorsteinn J.
Tónlist: Einar Scheving, Cycles.