Starfsreglur stjórnar
Starfsreglur fyrir stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2025-2028
Fundir
- Formaður (framkvæmdastjóri) boðar til funda með fyrirvara og sendir fundargögn.
- Fundir geta verið haldnir rafrænt ef nauðsyn krefur.
- Fundargerðir skulu skráðar formlega og staðfestar á næsta fundi.
- Stjórnin er ákvörðunarbær ef meirihluti meðlima er viðstaddur.
- Kalla skal inn varamann ef stjórnarmaður forfallast.
- Ákvörðun telst samþykkt með einföldum meirihluta greiddra atkvæða.
Úthlutun styrkja
- Styrkir eru veittir samkvæmt faglegu og málefnalegu mati á umsóknum.
- Stjórn velur tvo bókmenntaráðgjafa sem starfa að hámarki tvö ár í senn við mat innlendra umsókna, að fengnum tillögum framkvæmdastjóra.
- Stjórn afgreiðir og ber ábyrgð á úthlutun og getur kallað eftir endurmati ef nauðsyn þykir.
Hagsmunaárekstrar og vanhæfi
- Stjórnarmenn skulu sjálfir tilkynna um hugsanleg vanhæfi vegna tengsla við umsækjendur eða verkefni.
- Vanhæfir stjórnarmenn taka ekki þátt í umræðum eða atkvæðagreiðslu um viðkomandi mál eða úthlutun í heild og skulu víkja af fundi meðan það er til umfjöllunar.
- Í þessu efni er farið að stjórnsýslulögum II. kafli. 3. gr.
Gagnsæi og trúnaður
- Stjórnarmenn eru bundnir trúnaði um málefni sem varða persónuleg gögn, fjárhagsupplýsingar og óbirtar umsóknir.
- Úthlutunartilkynningar skulu vera gagnsæjar og byggðar á málefnalegum forsendum. Upplýsingar um styrkþega og styrkupphæðir skulu birtar opinberlega.
Skráningar og aðgangur að gögnum
- Öll fundargögn, umsóknir og ákvarðanir skulu skráð og varðveitt samkvæmt lögum um opinbera skjalavörslu. Ekki er veittur rökstuðningur vegna úthlutana samkvæmt 21. gr stjórnsýslulaga (3):
Aðili máls getur krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt.
Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki ef:
1. umsókn aðila hefur verið tekin til greina að öllu leyti,
2. um er að ræða einkunnir sem veittar eru fyrir frammistöðu á prófum,
3. um er að ræða styrki á sviði lista, menningar eða vísinda.
Ábyrgð og endurskoðun
- Stjórn ber ábyrgð á því að starfsreglur séu virtar og skal endurskoða þær að lágmarki á þriggja ára fresti.
- Stjórnarmenn skulu kynna sér hlutverk sitt og fara eftir lögum um opinbera stjórnsýslu og siðareglum sem gilda um starf þeirra.
Úr lögum um bókmenntir:
[2. gr. Miðstöð íslenskra bókmennta.Viðfangsefni Miðstöðvar íslenskra bókmennta eru að:
a. styrkja útgáfu íslenskra ritverka og útgáfu erlendra bókmennta á íslenskri tungu með fjárframlögum úr bókmenntasjóði, sbr. 4. gr.,
b. kynna íslenskar bókmenntir hér á landi og erlendis og stuðla að útbreiðslu þeirra og
c. efla bókmenningu á Íslandi.] 1)
Um stjórn samkvæmt lögum um bókmenntir (Tóku gildi 3. maí 2007. Breytt með l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011) og l. 137/2012 (tóku gildi 1. jan. 2013).
Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta ákveður árlega skiptingu ráðstöfunarfjár á fjárlögum á milli viðfangsefna hennar, sbr. 2. gr., og úthlutar úr bókmenntasjóði. Hún gerir tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi miðstöðvarinnar og bókmenntasjóðs, sbr. 4. gr., til þriggja ára. Hún veitir einnig umsögn um erindi sem ráðuneytið vísar til hennar og getur einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum um bókmenntamálefni til ráðuneytisins.
Ráðherra felur stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila að annast þjónustu í nafni miðstöðvarinnar.