Heim til míns hjarta

„Ég ligg í rúmi á heilsuhæli og berst við svefninn en man svo að ég má alveg sofna, að ég er með vottorð upp á svefn, stimpil á rassinum: Útbrunnin." Með þessum orðum hefst bókin Heim til míns hjarta eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur.

Uppgefið hjarta í brúnum bréfpoka

 Heim til míns hjarta„Ég ligg í rúmi á heilsuhæli og berst við svefninn en man svo að ég má alveg sofna, að ég er með vottorð upp á svefn, stimpil á rassinum: Útbrunnin. Orsakir ástandsins eru ókunnar en ég held að leit mín að skilningi á ástinni, sem ég tel vera lífsverkefni mitt, hafi tekið svona á mig, því ég hef ekki kunnað að fínstilla í mér hjartað. Ég kom hingað í leit að hjálp, með leifarnar af uppgefnu hjarta í brúnum bréfpoka.“

Með þessum orðum hefst bókin Heim til míns hjarta: Ilmskýrsla um árstíð á hæli eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur sem bókaforlagið Bjartur gaf út fyrir síðustu jól. Kona með kramið hjarta er úrskurðuð útbrunnin af sérfræðingum heilsuhælis og við tekur endurhæfingarferli þar sem meðferðarúrræðin eru mörg og óvenjuleg: hugurinn er hreinsaður, draumar túlkaðir, áran lesin, hjartað eimað og úr því búið til ilmvatn. Upphefst margbrugðin og ævintýraleg ferð sögupersónunnar um sögu lækninga og meðferðarheimspeki, en einnig inná við, heim til hjartans, þar sem innstu kimar lífs hennar opnast upp á gátt í von um endurnýjun.

Nokkrum gagnrýnendum þótti bókin skara fram úr öðrum prósaverkum í jólabókaflóðinu síðasta og hlaut hún tilnefningu til Menningarverðlauna DV 2010. Í umsögn dómnefndarinnar sagði að Oddnýju hafi tekist að skapa sér greinilega sérstöðu meðal íslenskra rithöfunda með einungis tveimur útgefnum verkum: „Oddný Eir kafar miskunnarlaust í eigið hjarta [...]. Yfirbragðið er í senn fræðilegt, rannsakandi og ævintýralegt. Brugðið er á leik með frásagnarformið á þrauthugsaðan og fágaðan hátt og tekist á við grundvallarspurningar um markmið skáldskaparins og möguleika.“

Mörk fræða, skáldskapar og veruleika

Oddný Eir ÆvarsdóttirOddný Eir er fædd árið 1972 í Reykjavík. Hún hefur stundað heimspekinám við Háskóla Íslands, þaðan sem sem hún lauk mastersgráðu í stjórnmálaheimspeki. Undanfarin ár hefur hún stundað doktorsnám við háskólana Sorbonne og EHESS í París samhliða rannsóknum á íslenskum safnavettvangi og myndlist. Hún rak um skeið listagalleríið Dandruff Space í New York ásamt bróður sínum Ugga Ævarssyni fornleifafræðingi, saman hafa þau einnig staðið að bókaútgáfu undir nafninu Apaflasa.

Heim til míns hjarta er í senn margslungið innra ævintýri sögupersónunnar og uppgjör höfundarins við fræðaheiminn, ástina og sjálfa sig. Árið 2004 kom út fyrsta bók Oddnýjar Opnun kryppunnar: Brúðuleikhús, sérstætt verk í íslenskum bókmenntum þar sem stefnt er saman fræðilegum, sjálfsævisögulegum og skálduðum skrifum. Í Heim til míns hjarta er aftur reynt á skilrúmin milli fræða, skáldskapar og raunveruleika, þar til þau falla saman og ólík svið skrifa taka að blandast en úrvinnslan er þó önnur og hallar meira í átt að fagurbókmenntum þar sem höfundurinn tekst á loft í hreinni fantasíu. Heilsuhælið sem sögupersónan dvelur á er óræður staður sem verður framandlegri eftir því sem líður á frásögnina en þar kemst sögupersónan í kynni við ýmist sjúklinga eða meðferðarsérfræðinga, hver öðrum sérkennilegri, sem eiga sér meðal annars skírskotanir í ævintýrið Lísa í Undralandi eftir Lewis Carroll. Samræðufletir bókarinnar eru þar af leiðandi margir og úr verður kímin og frjó frásögn knúin af hugvitssemi og leikgleði höfundarins.

 „Ég segi ekki frá neinu nema ég hafi áreiðanlega reynslu af því sjálf.“

Einkunnarorð bókarinnar eru listuð í tveimur tilvitnunum fremst í bókinni, önnur í Nietzsche: „Sannarlega skal jörðin verða heilsuhæli! Og nú þegar umlykur hana heilnæm og ný angan – og ný von.“ Og hin í Theresu frá Avila: „Ég segi ekki frá neinu nema ég hafi áreiðanlega reynslu af því sjálf.“ Oddný gengur nærri sjálfri sér í verkinu, líkt og áður í Opnun kryppunnar, og gengst óhrædd við því að ‚Ég‘ frásagnarinnar er hún sjálf. Sagan er þó, eins og gefur að skilja, fjarri því að vera hefðbundin sjálfsævisaga; bókin klofar mörkin á milli hins skáldaða og raunsanna þar sem Oddný sviðsetur sjálfa sig í skáldskapartexta byggðum á persónulegum dagbóka-, bréfa- og fræðaskrifum hennar sjálfrar.

Heim til míns hjarta er djúpúðugt verk, nýstárlegt og ósérhlífið. Það ber því vitni að höfundinum liggur ótalmargt á hjarta og dregur lesendur inn í spíral forvitninnar með sér. Líkt og Páll Baldvin Baldvinsson, gagnrýnandi Fréttablaðsins, komst að orði í dómi sínum um bókina: „Þetta er texti sem lesandinn á eftir að sækja oft í sér til hugarhægðar og bata í mörgum ólíkum greinum, ilmskýrsla gerir manni jú gott.“