Missir

„Þegar ég var barn var talað um fegurð og visku ellinnar. Ég trúði því varla,“ segir Guðbergur Bergsson í viðtali við Sagenhaftes Island. Nýútkomin nóvella hans er tileinkuð „kynslóð hinnar eilífu æsku.“

missirÚt er komin nóvella tileinkuð „kynslóð hinnar eilífu æsku“ eftir rithöfundinn Guðberg Bergsson. Nýútkomið íslenskt skáldverk á vordögum er sjaldséð fyrirbæri hér á landi og bók Guðbergs, sem ber titilinn Missir, sker sig sérstaklega úr vegna andstæðunnar milli inntaks hennar, sem er einmanaleiki og hnignun ellinnar, við nýútsprunginn gróðurinn þegar náttúran vaknar loks til lífsins eftir langan vetur. Bókin er nöturleg frásögn af, að því er virðist, tilgangslausri framvindu lífsins undir það síðasta inn í óumflýjanlegt tóm dauðans. Maður á gamals aldri, sem langar ekki að lifa en gerir það samt, bíður eftir að vatn í tekatli taki að sjóða og á meðan sækja á hann hugsanir og minningar í gegnum mók ellinnar; allt sem hann hefur glatað eftir því sem æskan hefur hopað fyrir hrörnuninni.

Sumir gagnrýnendur segja bókina vera eina þá bestu sem Guðbergur hefur látið frá sér á löngum ferli. Þríeykið í bókmenntaþættinum Kiljan, Kolbrún, Páll Baldvin og Egill, lét hrifningu sína í ljós í umfjöllun sinni um hana. Kolbrún sagði að bókin væri: „Meistaraleg frásögn af því þegar ellin hremmir mann og lífið verður tilgangslaust ... Það kæmi mér ekki á óvart að eftir einhvern tíma yrði litið á þessa bók í hópi með bestu bókum Guðbergs.“ Páll sagði Missi vera hrífandi: „Mjög fallega skrifað verk ... Hófstillt í lýsingum á því hvernig fer fyrir einstaklingi sem að er einn og þarf að takast á við það að öllu er lokið ... Það sem hann ætlar sér með verkinu, að lýsa einmanaleik og hnignun síðustu áranna sem maðurinn lifir, það er gert af virðingu og smekkvísi.“ Egill benti jafnframt á að þrátt fyrir djúpstæðan nöturleika er bókin brotin upp með „Guðbergskri fyndni“.

Gagnrýnandi Morgunblaðsins, Einar Falur Ingólfsson, var sömuleiðis hrifinn og gaf bókinni fjóra og hálfa stjörnu í dómi sínum: „Skáldsagan Missir er sögð „stuttsaga“ og höfundur hefur afar styrk tök á formi og innihaldi í knappri framsetningunni ... Missir er tvímælalaust eitt af hans áhrifameiri verkum, knappt og meitlað og vekur lesendann til umhugsunar. Umfjöllunarefnið í verkinu er í senn viðkvæmt og mikilvægt. Einsemd, lífsgæði og aðbúnaður aldraðra. Í sögunni birtist oft harla kaldranaleg sýn á þennan veruleika.“

„Þegar ég var barn var talað um fegurð og visku ellinnar. Ég trúði því varla...“

Guðbergur BergssonSagenhaftes Island náði tali af Guðbergi á dögunum. Spurður að því hvað kveikti hugmyndina að sögunni segist hann ekki hafa hugmynd um það: „Hugmyndirnar virðast bara vera fyrir hendi í huganum og bíða þar annað hvort eftir úrvinnslu eða dauða sínum.“

Missir lýsir hrörnun mannskepnunar, niðurníðslu líkama og sálar. Guðbergur hefur sjálfur sagt í viðtali við Morgunblaðið fyrir tveimur árum eða svo að í niðurníðslunni, því sem fólki finnist alla jafna ógeðslegt, megi finna raunverulega fegurð, sem leiðir útsendara Sagenhaftes Island að spurningunni um hvort það sé ekki hægt á sambærilegan hátt að sjá fegurð í síðustu fetum ævinnar?

Jörðin og allt sem á henni er, menn, dýr og blóm, er hringrás niðurníðslu og uppvaxtar. Þegar ég var barn var talað um fegurð og visku ellinnar. Ég trúði því varla, enda ólst ég upp við samgang við karla og kerlingar og hafði talsverða reynslu af kynjunum komnum á aldur rúsínuandlitsins. En einu sinni þegar ég vann á Hótel Borg sem næturvörður og Kjarval bjó þar, þá kom hann að gamalmenni sem sat dauðadrukkið og sofandi í útskorna stólnum í gestamóttökunni og málarinn sagði: Þú ert fallegur vegna þess að þú ert gamalmenni. Gamli karlinn hrökk upp við hrósið og hann yngdist um tuttugu ár. Það rann af honum í skyndi og hann ljómaði næstum í fegurð æskunnar. Hrós Kjarvals hafði vakið hann frá áfengisdauða til lífs í bjartsýni, að minnsta kosti fram að lokun barsins. Kannski hefði hrósið getað vakið hann upp frá alvarlegri dauða og drifið hann upp úr kistunni í fullu fjöri, eins og manninn í kvikmyndinni Orðið eftir Dreyer. Það var álit manna hér á landi að menn væru fallegastir í dauðanum og það var sannleikur, að minnsta kosti um suma.

Guðbergur hefur oft verið óvæginn í lýsingum sínum á íslenskri þjóð. Spurður að því hvort íslensk alþýða, sem sjálf hefur gengið í gegnum hrörnunarskeið dulbúið sem góðæri, hafi tekist að hrista af sér húsbóndahollustuna í búsáhaldabyltingunni svokölluðu svarar hann:

Húsbóndahollusta án skipulags þrælahalds er germanskt fyrirbrigði, ef marka má rómverska skrásetjara. Það eina sem búsáhaldabyltingin hefur sannað er það að  núna er íslensk alþýða ekki kannski eins og hún var, að líta upp til húsbóndans. Í staðinn fyrir að vera honum holl með uppliti horfir hún núna ofan í skálinni og sýnir grautnum meiri hollustu, þótt hann sé orðinn að grautnum sem hvarf. Eftir því að dæma hefur hollustan losnað frá húsbóndanum og hrokkið niður í grautarskálina. Það er kannski viss framför hagfræðilega séð.

Hann lét í ljós áhyggjur vegna öskunnar sem undanfarið hefur streymt úr þessum litla bletti í norðri og með því truflað venjubundinn gang umheimsins. Ég slysaðist til að spyrja hvað hann væri að fást við þessa dagana: „Ég er að fást við eldfjallaöskuna og biðja hana að fara ekki til meginlands Evrópu til þess að loka þar flugvöllum þannig að German Wings fari algerlega á hausinn.“