Vigdís – kona verður forseti

„Saga Vigdísar er saga íslensku þjóðarinnar á tuttugustu öld,“ segir Páll Valsson, höfundur ævisögu Vigdísar.

VigdisbokFyrir þrjátíu árum beindist kastljós umheimsins að Íslandi í einu vetfangi: Vigdís Finnbogadóttir – fráskilin, einstæð móðir – var orðin fyrst kvenna í veröldinni til að hljóta kjör sem þjóðhöfðingi í lýðræðislegum kosningum:

,,Kjör Vigdísar sem forseta var heimsfrétt. Ein af sárafáum fréttum frá þessu fámenna landi sem hafa endurómað í heimspressunni og fékk meira rými en eldgos, enda eru þau ólíkt algengari en að kona sé kosin þjóðhöfðingi í almennum lýðræðislegum kosningum. Það hafði aldrei gerst áður.“

Þannig kemst ævisöguritarinn og íslenskufræðingurinn Páll Valsson að orði í Vigdís – kona verður forseti, sem kom út í vetur sem leið á íslensku. Með útkomu bókarinnar fengu Íslendingar í fyrsta sinn tækifæri til að skyggnast á bak við opinbera ímynd Vigdísar. Vigdís, sem fagnaði áttræðisafmæli sínu fyrr á árinu, hafnaði öllum þrábeiðnum útgefenda um að festa ævi hennar niður í bók áður en leiðir hennar og Páls mættust. Páll hafði áður gefið út ævisögu Jónasar Hallgrímssonar, og hlotið fyrir Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita árið 1999. Við ritun bókarinnar um Vigdísi lagðist hann í ýtarlega heimildarvinnu, fékk aðgang að bréfum hennar, og vann jafnframt náið með henni sjálfri. Bókin er skrifuð í þriðju persónu, en af og til tekur Vigdís sjálf til máls í fyrstu persónu innslögum. Úr verður tvíradda og persónuleg frásögn, nokkurs konar þroskasaga, sem er öðrum þræði merkileg samtíðarlýsing af einni mestu umskiptaöld Íslands.

Bókin hlaut afar jákvæðar umsagnir hjá gagnrýnendum. Páll Baldvin hjá Fréttablaðinu gaf bókinni fjórar stjörnur: „Hér er margt á ferð: Páll semur skemmtilega og ítarlega samtíðarlýsingu um hvernig Evrópukynslóðin sem sótti menntun sína suður breytti samfélaginu [...]. Þetta er björt saga með djúpum og dimmum sorgarköflum.“

Jóhann Hauksson, gagnrýnandi DV, gaf bókinni fjórar og hálfa stjörnur og sagði engan verða svikinn af því að lesa bókina: „Páll Valsson vandar til verka í þessari 450 blaðsíðna frásögn af uppvexti Vigdísar Finnbogadóttur, fjölskyldu, áhrifavöldum og áföllum í lífi hennar. [...] Stíll Páls er hrífandi, hófstilltur og rennur vel. Hann hefur sannarlega ekki slegið af kröfum sínum frá því hann ritaði bók sína um Jónas Hallgrímsson, bók sem færði honum Íslensku bókmenntaverðlaunin.“

Morgunblaðið veitti bókinni fjórar stjörnur. Í ritdómi Steinunnar Ingu Óttarsdóttur sagði meðal annars: „Það er ekki heiglum hent að skrifa ævisögu Vigdísar sem er lifandi goðsögn. Páll Valsson gerir það af mikilli vandvirkni og líka af mikilli virðingu fyrir viðfangsefninu og væntumþykju.“ Þýsk forlög hafa auk þess lýst yfir áhuga á bókinni.


„Mitt markmið var að varpa ljósi á manneskjuna Vigdísi“

„Útgefendur og fleiri höfðu árum saman lagt net sín fyrir Vigdísi og reynt að fá hana til að segja sögu sína eða láta skrifa hana, án árangurs,“ segir Páll Valsson. „Hún neitaði ávallt öllum slíkum beiðnum. En svo fór að lokum að hún féllst á að slík saga yrði skrifuð með hennar þátttöku og gerði það þá með stæl; afhenti öll sín einkabréf og gögn og var alltaf til reiðu.''

vigdisogpallFáir Íslendingar hafa markað jafn djúp spor í sögu þjóðarinnar og Vigdís. Í áranna rás hefur hún nánast orðið að goðsögn í lifanda lífi. Hvernig nálgast maður slíka manneskju sem viðfangsefni ævisögu á hreinskilinn hátt?

Ég setti tvö skilyrði fyrir því að skrifa þessa bók: að ég fengi öll hennar bréf og pappíra og svo fullt frelsi og síðasta orð yfir textanum. Vigdís brást vel við þessu, svaraði öllum mínum spurningum og á milli okkar var hreinskilni og traust – sem er það mikilvægasta í svona ferli. Mitt markmið var að varpa ljósi á manneskjuna Vigdísi; hver er hún og hvaðan kemur hún? Af hvaða rótum er hún sprottin? Hvaða lífsgildi einkenna hana og hvernig mótast þau? ... auk þess að fjalla um þann hluta lífs hennar fyrir forsetatíðina sem hún hafði aldrei áður talað um.

Hvaða hlutverki hefur Vigdís að gegna nú á dögum, fyrir Ísland og umheiminn, að þínu mati?

Vigdís er einn þekktasti Íslendingur allra tíma og nýtur mikillar virðingar víða um heim. Þess vegna er það óhemju mikilvægt fyrir okkur hversu bóngóð hún hefur verið og er enn í að kynna land og þjóð á erlendum vettvangi. Fyrir okkur sjálf er hún sameiningartákn, ein örfárra þar sem þjóðin öll leggur við hlustir þegar talar. Þess vegna er síðasti kafli bókarinnar öðruvísi í laginu en hinir fyrri; hann er samtal okkar Vigdísar um hrun fjármálakerfisins á Íslandi og hugleiðingar um hvað við gerðum rangt og hvernig við ættum að vinna okkur út úr vandanum.

Hvaða erindi á þessi ævisaga Vigdísar við erlenda lesendur?

Saga Vigdísar er ekki einungis saga merkilegrar persónu og óvenjulegrar konu, heldur er hún líka saga Íslands á tuttugustu öld. Á hennar ævi gerbreytist land og þjóð; Ísland gengur í gegnum margar byltingar á fáeinum áratugum – og í bókinni fylgjumst við með því í gegnum þessa tilteknu konu. Þess vegna ætti lesandi, að loknum lestri, ekki bara að vera einhverju nær um Vigdísi – heldur líka um íslenska menningu, land og þjóð.