Sónata fyrir svefninn

Eins og einn langur draumur

„Afi minn trúði því staðfastlega að hann færi inn í annað fólk þegar hann svæfi, og að draumar sínir væru upplifun hinnar manneskjunnar." Úr umræddu draumaflakki afa Þórdísar Björnsdóttur rithöfundar óx skáldsagan Sónata fyrir svefninn.

„Afi minn trúði því staðfastlega að hann færi inn í annað fólk þegar hann svæfi, og að draumar sínir væru upplifun hinnar manneskjunnar. Sjálf trúi ég að þetta sé satt, að hann hafi í raun og veru farið inn í annað fólk,“ segir rithöfundurinn Þórdís Björnsdóttir í samtali við Sagenhaftes Island. Úr umræddu draumaflakki afa hennar óx skáldsagan Sónata fyrir svefninn sem bókaforlagið Bjartur gaf út fyrir síðustu jól. „Sónata fyrir svefninn er að vissu leyti eins og einn langur draumur þar sem ég velti fyrir mér hvað er veruleiki og hvers konar veruleiki er raunverulegur,“ segir Þórdís. „Til dæmis hitti ég um daginn mann sem hafði tekin inn ofskynjunarlyfið meskalín á ferðalagi sínu um Suður-Ameríku, og undir áhrifunum breyttist hann í fisk. Hann sagðist hafa fundið fyrir uggunum og sporðinum, og fór að opna og loka munninum eins og fiskur meðan hann synti um. Og þá segi ég: var hann fiskur eða ekki fiskur, það er stóra spurningin.“

Hverfull veruleiki

Sónata fyrir svefninnUng kona, Ívana að nafni, kemur til ókunnugs bæjar í leit að horfnum manni sem virðist vera þeim hæfileikum gæddurað geta ferðast utan líkama. Ívana sest að í íbúð í bænum og kemst í kynni við persónur sem virðast á stundum ekki vera af þessum heimi. Veruleikinn er hverfull í þessu öðru skáldverki Þórdísar og ekki líður á löngu þar til mörkin milli draums og veruleika þurrkast út. Í kjallara hússins sem hún býr í eru göng sem leiða inn í heim sem ekki er bundinn sömu böndum og okkar og nágranni hennar, píanóleikarinn Garibaldi, reynist vera höfundur sjálfrar sögunnar. Yfir leit Ívönu hvílir yfirvofandi ógn og dauðinn er aldrei fjarri undan.

Bókmenntafræðingurinn Úlfhildur Dagsdóttir ber bókina saman við kvikmyndir David Lynch í ritdómi sínum á Bókmenntavefnum og bendir jafnframt á líkindi með verkum Kristínar Ómarsdóttur og Gyrðis Elíassonar: „...þessi litla fallega bók er virkilega þess virði að vera lesin og svo lesin aftur.“ Gagnrýnandi Morgunblaðsins, Una Sighvatsdóttir, gaf henni þrjár stjörnur: „Þórdísi tekst vel að lokka lesandann áfram og byggja upp spennu með því að flakka fram og aftur í tíma og gefa lítið upp í einu. Hún segir áhugaverða sögu þar sem ýmsir dularfullir fyrirboðar og tákn koma fyrir en lesandanum er alfarið látið eftir að ráða í merkingu þeirra.“ Ágúst Borgþór gaf henni þrjár stjörnur af fjórum mögulegum í ritdómi sínum á Pressunni. Sagði hana vera stílhreina, lágstemmda og meitlaða fantasíu: „Þetta er spennandi ævintýri. [...] Sagan er skrifuð af sannri tilfinningu fyrir sammannlegu hlutskipti: Þörfinni fyrir sameiningu við aðrar manneskjur og hindrunum sem standa í vegi fyrir því [...]. Sagan er hnitmiðuð og vönduð í uppbyggingu. Þegar við bætist áfengur stíll getur útkoman ekki verið annað en góð. Þórdís Björnsdóttir er flottur og spennandi höfundur.“

Hversdagslegur óhugnaður

Þórdís BjörnsdóttirÞórdís gaf út sína fyrstu skáldsögu Saga af bláu sumri árið 2007 en áður hafði hún getið sér gott orð sem ljóðskáld. Hún segir að fyrsta skrefið inn í skáldsagnaskrifin hafi ekki verið erfitt, í raun hafi það að mestu leyti gerst sjálfkrafa.

Ég sest aldrei niður með autt blað fyrir framan mig og ákveð að skrifa skáldsögu eða ljóðabók, heldur koma hugmyndirnar til mín og krefja mig um að ég komi þeim í ákveðið form. Þegar ég fæ hugmynd að skáldsögu veit ég strax að þetta er saga en ekki ljóð, ég sé heildarmyndina fyrir mér og finnst sagan skipta máli. Upp frá því er mitt hlutverk að koma henni út í heiminn svo fleiri fái notið hennar en ég. Ljóðin koma hins vegar til mín á annan hátt, yfirleitt sem setningar og andrúmsloft sem ég vinn síðan með. Þau koma jafnan til mín eitt í einu, stundum yfir margra mánaða og jafnvel ára tímabil, og fyrir vikið er ég oft lengi að safna saman í handrit þótt það eigi ekki alltaf við. En þegar ég skrifa skáldsögu veit ég vel hvert ég stefni og skrifa uppkastið jafnvel í einum rykk frá upphafi til enda. Skriftarferlið er því nokkuð ólíkt hvað varðar skáldsögur og ljóð.

Verk Þórdísar hafa áður verið sett í samhengi við gotneska frásagnarhefð þar sem tvinnað er saman dulúð og hryllingi. Í Sónötu fyrir svefninn blundar lágstemmdur óhugnaður líkt og í fyrri bókum hennar, sem hún „matreiðir á sinn huggulega hrollvekjandi hátt“ líkt og Úlfhildur Dagsdóttir komst að orði í umfjöllun sinni um verk Þórdísar á Bókmenntavefnum fyrir nokkrum árum. Spurð að því hvaðan þessi áhugi á myrku hliðum tilverunnar komi svarar Þórdís að hún hafi ávallt, sökum myrkfælni, átt auðvelt með að ímynda sér alls kyns óhugnað, en óþægindin sem hann veldur henni heillar jafnframt óskaplega.

Ég held að þessi tilhneiging komi sterkt fram þegar ég skrifa, stundum meðvitað og stundum ekki. Mér finnst spennandi að finna fyrir yfirvofandi ógn, jafnvel þótt hún sé óraunveruleg, og mér finnst hún eiginlega þeim mun meira spennandi því hversdagslegri sem aðstæður eru, enda felur það í sér ákveðinn húmor sem ég kann að meta. Í daglegu lífi kalla ég fram í hugann alls kyns fjarstæðukenndar myndir því mér finnst mikilvægt að gera hversdaginn ævintýralegan. Og þá snýst líka málið ekki lengur um að setjast niður og sinna skriftunum, standa síðan á fætur og fara að gera eitthvað annað, heldur eru sköpunin og daglegt líf samtvinnuð, en það er nokkuð sem skiptir mig mjög miklu máli.

Þórdís situr ekki auðum höndum. Hún er með tvær skáldsögur í vinnslu og um það bil hálfnuð með þrjár ljóðabækur. „Þessa dagana er ég að einbeita mér að annarri skáldsögunni. Ég fer í skriftareinangrun upp í Stykkishólm um næstu mánaðarmót og verð þar samfellt í tvo mánuði, svo ég vonast til að klára hana að mestu meðan á þeirri dvöl stendur.“