Höfðingjar flugust á

Ofsi, eftir Einar Kárason, er væntanleg á þýsku. Rætt við höfundinn um verkið; frásagnarstílinn, tengslin við Óvinafagnað og feimni íslenskra rithöfunda við að krukka í arfinum.

OfsiÍ Íslandssögunni er þrettánda öldin ein sú litríkasta – gróskumikil en í senn blóði drifin. Á Sturlungaöld ríkti mikið blómaskeið íslenskrar menningar á sama tíma og landið logaði í illdeilum höfðingja. Sögulega skáldsagan Ofsi, eftir Einar Kárason, sækir efnivið sinn í þetta ofbeldisfyllsta tímabil í sögu þjóðarinnar. Bókin, sem er framhald sögunnar Óvinafagnaður (2001), kom út árið 2008 hér á landi og er væntanleg í þýskri þýðingu í febrúar.

Í Ofsa er sagt frá aðdraganda eins af hápunktum Sturlungu; Flugumýrarbrennu, atburði sem kallaður hefur verið eitt mesta illvirki Íslandssögunnar. Stríðandi fylkingar leitast við að ná sáttum, en á þrettándu öld vega heiðurinn og hefndin þungt og veikburða friðarumleitanir fuðra upp í áframhaldandi átökum og blóðsúthellingum. Í þessu verki skáldar Einar Kárason í eyðurnar sem hugarheimur löngu liðins fólks er og gefur nútímalesendum möguleika á að skyggnast inn í og geta sér til um sálarlíf þeirra karla og kvenna sem uppi voru á þessum fjarlægu og róstusömu tímum.

Ofsi hlaut á sínum tíma Íslensku bókmenntaverðlaunin og naut mikilla vinsælda. Í kjölfar útkomu hennar greip um sig gífurlegur áhugi á Sturlungu meðal landans sem varð til þess að hið forna rit seldist snögglega upp og var lengi ófáanlegt í bókaverslunum.

Við náðum tali af Einari, í tilefni af útgáfu bókarinnar á þýsku, og ræddum við hann um verkið; frásagnarstílinn, tengslin við Óvinafagnað og feimni íslenskra rithöfunda við að krukka í arfinum.

Harmar og svik, heimska og lítilmennska

Einar KárasonHvernig tengjast Ofsi og Óvinafagnaður og hvernig eru þær ólíkar?

„Þær tengjast þannig að þær gerast á sama tímabili í Íslandssögunni en hvor fyrir sig hverfist um dramatíska atburði í sama borgarstríði sem stóð áratugum saman. Á milli þeirra í tíma eru tíu-fimmtán ár og aukapersónur í báðum bókum eru sumpart þær sömu. Óvinafagnaður er í aðra röndina spennu- og hetjusaga á meðan Ofsi fjallar meira um harma og svik, heimsku og lítilmennsku.“

Frásagnaraðferðin er nokkuð sérstök og fengin að láni úr As I Lay Dying eftir Faulkner. Hvernig stendur á því að þú velur þessa aðferð?

„Ég velti því mikið fyrir mér um hríð hversu mikill munur væri á tveimur megintegundum skáldsagna, þeim sem skrifaðar eru í fyrstu persónu og hinna sem skrifaðar eru í þriðju persónu af alvitrum sögumanni sem sér yfir allt sögusviðið og getur greint frá mörgum atburðum sem gerast í senn. Báðar aðferðir hafa sína kosti, en líka sína ókosti, svo að ég reyndi að leita annarra leiða. Höfundar fornsagnanna, þeirra á meðal sá sem skrifaði Sturlungu, en í hana sæki ég efnið í þessar bækur, notuðu þriðjupersónu frásögn og skyggndust aldrei inn í hug fólksins sem þeir segja frá, þannig að sá akur var að mestu óplægður. Og með því að nota þessa brilljant aðferð Faulkners, marg-radda söguna, losnaði ég við að einskorðast við eitt sjónarhorn.

Íslenskir rithöfundar hafa verið haldnir ákveðinni feimni við söguefni íslenskra fornsagna - þurftir þú að setja þig í ákveðnar stellingar þegar þú hófst ritun bókarinnar?

„Ja, ekki nema þannig að virðing mín og aðdáun á þessum gömlu listaverkum er óendanleg; á þann hátt verður maður óhjákvæmilega feiminn – það er ljóst að ekkert má klikka, ekkert má vera banalt. Og ég var lengi vel, eftir að verkið hófst, í stórum vafa um að þetta yrði nógu gott hjá mér til að standast þann samanburð við gömlu bækurnar sem menn myndu óhjákvæmilega gera. Þannig að sú virðing eða feimni sem var fyrir hendi á að hafa leitt til þess að maður vandaði sig sem best, legði sig allan fram.“

Hver er munurinn á heimi Sturlungu og heimi Íslendingasagna?

„Íslendingasögur, sem fjalla nær eingöngu um áratugina og aldirnar í kringum landnám Íslands, frá því snemma á níundu öld og eitthvað fram á elleftu, eru taldar skrifaðar á þrettándu öld – nálægt 300 árum eftir að þær gerast. Um svipað leyti var Sturlunga skrifuð, en hún fjallar um samtímaatburði; hún segir frá atvikum stórum og smáum sem höfundar hennar voru í mörgum tilfellum viðstaddir eða viðriðnir. Í þesssu liggur munurinn: á þeim öldum sem líða frá því þeir atburðir sem segir frá í Íslendingasögum gerast og þar til um þá er skrifað þá gleymast öll aukaatriði og minniháttar persónur; allt ryk fellur, þoka og reykur hættir að byrgja sýn og eftir standa hetjur og höfuðviðburðir í köldu og tæru ljósi.

Í Sturlungu er hinsvegar allt með, þar ægir saman aðalpersónum, örlagavöldum, og þúsundum annarra sem koma lítið eða ekki við sögu; stórir viðburðir og smáir hrærast líka saman og oft er erfitt að halda þræði. En þannig er það auðvitað líka í lífinu; maður getur verið staddur inni í mannfjölda sem maður þekkir ekki og flókinni atburðarás sem erfitt er að henda reiður á og verður að átta sig á því upp á eigin spýtur og smám saman hvað af öllu þessu fólki á eftir að koma við sögu manns sjálfs og verða örlagavaldar og hverjar af öllum þeim litlu sögum sem fram fer í senn eiga eftir að skipta einhverju máli til lengdar.“