Maxímús Músíkús

Bækurnar um Maxímús Músíkús, sem er mögulega eitt ástsælasta nagdýr íslensku þjóðarinnar, hafa opnað heim sígildrar tónlistar fyrir börnum víða um heim. Sögueyjan átti nokkur orð við höfund bókanna, Hallfríði Ólafsdóttur, um tilurð og ferðalög mektarmúsarinnar tónelsku.

Viðtal: Steingrímur Teague.

Mýs þykja almennt engir sérstakir aufúsugestir í tónleikasölum landsins. Nú í maí bar þó svo til að 3000 börn og foreldrar mættu í flunkunýjan Eldborgarsal Hörpunnar gagngert til að fylgjast með einni slíkri koma fram, og það ásamt sjálfri Sinfóníuhljómsveit Íslands. Músin umrædda var Maxímús Músíkús, sem — mögulega ásamt Gangandi íkorna Gyrðis Elíassonar og Hagamús Þorfinns Guðnasonar — hlýtur að teljast eitt ástsælasta nagdýr í sögu íslensku þjóðarinnar.

Líklega myndu vinsældir þessarar hógværu og hlédrægu músar, sem best kann við sig í felum og er lítið fyrir að trana sér fram, koma henni sjálfri í opna skjöldu. Bækurnar tvær um hann Maxa hafa reynst þaulsetnar á metsölulistum undanfarin ár, og hafa auk þess hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar. Báðar bækurnar hafa komið út á þýsku, og sú fyrri auk þess á ensku, færeysku og kóresku. Ásamt því að koma fram með Sinfóníuhljómsveitinni hér heima á Maxímús ennfremur til að birtast með hljómsveitum úti í heimi, nú síðast í Melbourne í Ástralíu. Farsímaleikur helgaður honum var svo nýverið tilnefndur til Norrænu tölvuleikjaverðlaunanna.

Verkefnið um Maxímús Músíkús hefur frá upphafi haft það skýra markmið að miðla sígildri tónlist til barna. Íslensk börn kynntust titilpersónunni fyrst í Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina (2008). Þar þvælist Maxi fyrir tilviljun inn á æfingu með sinfóníuhljómsveit og kynnist þannig öllum þeim hljóðfærum sem þar er að finna, sem og áhrifamætti tónlistarinnar sem þau framkalla í sameiningu. Í Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann (2010) rambar hann síðan inn í tónlistarskóla og kemst að raun um að börn geta líka leikið á hljóðfæri.

Bæði texti og teikningar bókanna sýna lesendum ýmis skemmtileg smáatriði úr lífi tónlistarfólks, en þar nýtur Maxímús þess að vera hugarfóstur innanbúðarfólks í Sinfóníunni. Höfundur bókanna, Hallfríður Ólafsdóttir, er leiðandi flautuleikari í hljómsveitinni, en myndirnar teiknaði víóluleikarinn Þórarinn Már Baldursson. Við slógum á þráðinn til Hallfríðar, og áttum við hana orð um tilurð og sigurgöngu þessarrar tónelsku mektarmúsar.

Með augum hins smáa

Tilhugsunin um litla mús sem jafnframt er tónlistarunnandi virðist ná einkar vel til barna. Hvaðan kom kveikjan að verkefninu?

„Ég var búin að vera í Sinfóníuhljómsveitinni í átta ár, og var sjálf með unga krakka. Ég var því búin að hugsa mikið út í það hvernig maður gæti komið þessarri óviðjafnanlegu tónlist til barna. Einu sinni hlustuðu allir á sömu útvarpsstöðina, og þá heyrði fólk tónlist af öllu tagi. Í dag aftur á móti, með alls kyns sérhæfðum miðlum, eru til börn sem alast upp án þess að heyra nokkurn tímann annað en dægurtónlist.

Ég hafði oft hugsað með mér hvað það væri gaman ef allir fengju að upplifa það að vera uppi á sviði inni í miðri hljómsveit, því það er náttúrulega engu líkt og þar vil ég helst vera! Og einn góðan veðurdag laust þessu svo niður í höfuðið á mér: Væri ekki skemmtilegt að lýsa því sem gerist á sviðinu hjá okkur með augum hins smáa? Hvernig væri ef einhver væri nógu lítill til að laumast þarna um á meðal okkar í hljómsveitinni, og heyra og sjá þá óvenjulegu hluti sem gerast áður en við byrjum að spila og fá svo að heyra þann dýrðarhljóm sem heil sinfóníuhljómsveit getur búið til? Og þá kom eiginlega bara eitt dýr til greina: Músin er nógu lítil til að læðast um og fela sig, en ekki of lítil til að hægt sé að samsama sig henni.“

Maxímús var frá upphafi miklu meira en bara persóna í bók, til dæmis fylgdi strax með fyrstu bókinni geisladiskur sem Sinfóníuhljómsveitin hljóðritaði sérstaklega.

„Mér fannst strax að þetta yrði að vera bók með geisladiski. Það er auðvitað heljarinnar framkvæmd að fá heila sinfóníuhljómsveit til þess að hljóðrita geisladisk, þannig að ég fór til þáverandi aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníunnar, Rumon Gamba, og bæði hann og þáverandi framkvæmdastjóri, Þröstur Ólafsson, tóku mjög vel í þetta, sem þýddi það að hljómsveitin gerði þetta að sínu verkefni og eyddi nokkrum dögum í að taka upp tónlist.

Margir lögðu hönd á plóg. Ríkisútvarpið tók þátt í að hljóðrita tónlistina, Menntamálaráðuneytið, Félag íslenskra hljómlistarmanna og Starfsmannafélag SÍ, auk annarra stuðnings- og styrktaraðila, styrktu hljóðvinnsluna, og Forlagið tók að sér að gefa bókina út. Svo má ekki má gleyma að geta þess að Vladimir Ashkenazy samþykkti af örlæti sínu að gerast verndari verkefnisins. Það hefur oft verið eins og aðgangskort að heiminum. Hann er einn allra virtasti tónlistarmaður okkar tíma, og það er mikill vegsauki að hafa hans verndarhendi yfir þessu. Síðast en ekki síst fékk ég svo hann Þórarin Má Baldursson í samstarf við mig og hann gæddi músina lífi og litum með sínum frábæru myndum.“

Þetta eru stórskemmtilegar teikningar.

„Ótrúlegar teikningar! Þegar ég var að vinna textann og söguna bað ég Þórarin stundum um vissa hluti og lýsti því aðeins hvað ég vildi fá, og alltaf kom hann með einhverja ótrúlega fyndna eða sæta viðbót við það sem ég bað um. Það er svo skemmtilega hlýr húmor í teikningunum – laus skóreim hjá einhverjum hér, uppþornað laufblað á pottaplöntu þar.... myndirnar eru allar svo lifandi.“

Tónleikar Maxímúsar og Sinfóníunnar hafa líka notið vinsælda.

„Já, hljómsveitin vildi að ég gerði úr þessu tónleikadagskrá, og það þurfti aðeins að möndla til söguna svo að hún passaði upp á svið. Á geisladisknum og á tónleikum er þetta uppsett þannig að fyrst heyra börnin söguna, og tónlistinni er fléttað inn í hana. Þegar sagan er búin heyra börnin svo tónverkin flutt í heild sinni. Á tónleikum vörpum við myndunum upp á vegg á meðan að sagan er sögð, og stundum er allt í gangi í einu: Myndir upp á vegg, hljómsveitin að spila og sögumaður að segja frá.“

„Þetta er bara rétt að byrja“

Hvernig voru fyrstu viðtökurnar við tónleikunum?

„Á allra fyrstu tónleikunum voru að mér skilst um 600 börn á aldrinum 4-6 ára. Við höfðum auðvitað oft áður fengið inn haug af börnum, og þá hafði oftast verið svolítill óróleiki, eins og eðlilegt er með svona lítil börn, og bara örfáa leikskólakennara með þeim. En svo hófust tónleikarnir, og nú brá svo við að það varð þessi líka ótrúlega þögn og einbeiting. Maður finnur sterka strauma frá áheyrendum þegar þessi galdur gerist, og þarna fann ég allt í einu fyrir gríðarlegum krafti fá öllum þessum börnum, sem sátu þarna einbeitt og nutu þess sem þau voru að sjá og heyra. Ég fékk hreinlega gæsahúð. Þetta var ógleymanleg stund, og ég hugsaði með mér: Guð minn góður, við erum ekki komin á leiðarenda með þetta verkefni – þetta er bara rétt að byrja!“

Undanfarið hefur Maxímús gerst víðförull, og hefur jafnvel skotið upp hausnum í Ástralíu.

„Hljómsveitir út um allan heim eru að leita að svona verkefnum – tónleikadagskrám fyrir börn. Eftir að hafa fundið viðbrögðin hér heima fannst mér að ég yrði að koma efninu á framfæri við aðrar hljómsveitir og lagðist því í að láta útbúa nótnahefti með öllu sem þyrfti, öllum leiðbeiningum og texta, og um leið að byrja að kynna þetta í öðrum löndum. Ég fékk samstarfskonu mína, Margréti Sigurðardóttir, til að hjálpa mér með kynninguna erlendis, og við fengum mikinn stuðning frá ÚTÓN og fleirum. Við höfum kynnt þetta með öllum tiltækum ráðum, notað öll möguleg tengsl við tónlistarmenn erlendis. Til dæmis var það kollega mín og vinkona í Ástralíu sem fór með bókina og kynnti hana fyrir sinni hljómsveit. Þess vegna var sagan flutt tólf sinnum af Melbourne Symphony Orchestra, og svo kom bókin þar út í kjölfarið. Auk þess er búið að flytja prógrammið í Hollandi og Færeyjum, og bókin er komin út í Ástralíu, Suður-Kóreu, Þýskalandi og Færeyjum. Nú standa svo yfir samningar um útgáfu í Bretlandi og Bandaríkjunum.“

Að lokum – hvers má vænta frá Maxímúsi á næstunni?

Við Þórarinn stefnum á að klára bók númer þrjú fljótlega, Maxímús Músíkús bjargar ballettinum. Hún kemur út á næsta ári og mun fjalla um listdans og balletttónlist.Það verður stór sýning með Listdansskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Hörpu í maí 2012.

Það er líka mjög gaman að þýski útgefandinn, sem hefur gefið út báðar bækurnar, er núna að rukka okkur um bók númer þrjú án þess að hafa séð söguna. Það er mikið ánægjuefni – kannski mesta hrós sem þessu verkefni hefur hlotnast.“