Merkasta mannanna verk?

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason veltir vöngum yfir eðlismassa og stöðuorku listaverka — og spyr: Hvað heitir merkasta mannanna verk á Íslandi?

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason veltir vöngum yfir eðlismassa og stöðuorku listaverka og spyr: Hvað heitir merkasta mannanna verk á Íslandi?

Andri Snær MagnasonÞegar rætt er um áhrif Íslands, bókmenntaleg og menningarleg má prófa að spyrja sig einfaldrar spurningar til að skýra myndina. Hvað heitir merkasta mannanna verk á Íslandi? Hvað hefur þessi litla þjóð varðveitt, skapað eða byggt sem skiptir heiminn einhverju máli? Við vitum að náttúran er bæði innblástur og aðdráttarafl en hvað heitir merkasta mannanna verk? Eigum við eitthvað hús, grip, djásn eða hugmynd sem getur gert tilkall til þess að vera hin íslenska Móna Lísa?

Það má alveg byrja að leita. Byggingarlist okkar hefur ekki haft bein menningarsöguleg áhrif – þótt torfbærinn gæti reyndar í framtíðinni orðið mönnum innblástur hvað varðar umhverfisvænan arkitektúr. Hallgrímskirkja, Perlan, Sundhöllin í Reykjavík – allt ágætar byggingar en komast ekki alveg með tærnar þar sem Gaudi og Alvar Alto hafa hælana. Sé reikað um Þjóðminjasafn Íslands er þar fátt að finna sem er beinlínis heimssögulegt – og nú verða menn að fyrirgefa gamaldags framsetningu vegna þess að í nútíma fornleifafræði snýst þetta ekki síst um skilning og víðara samhengi heldur en leitina að týndu örkinni. En miðað við hátimbraðar kirkjur erlendis, gull og gersemar og jafnvel víkingaskip Norðmanna þá getum við ekki beinlínis státað okkur af miðlægum áhrifum á heimssöguna. En þá verðum við líka að átta okkur á því að Vesturlönd eru heldur ekki heimurinn allur – í Kína er til dæmis sýning þar sem talað er um evrópsku borgarastyrjöldina 1939-45.

Í sagnfræðinni skoða menn hvort atburður hafði áhrif á söguna, það er ekki nóg að hann hafi gerst, hann verður að hafa einhverjar beinar afleiðingar til að vera einhvers virði. Þannig voru landafundir norrænna manna í Norður-Ameríku ekki beinlínis sögulegir atburðir vegna þess að þeir gleymdust – og hin raunverulega saga gerðist síðan aftur eftir öðrum leiðum.

Halldór Laxness er okkar Nóbelsskáld og all margir af bestu höfundum heims hafa lesið eina eða tvær bækur eftir hann, en sem íkon er hann ekki jafn stór og Dostojevskí, Búlgakoff, Kafka – þótt hann sé afar mikilvægur fyrir okkur og muni hafa listræn áhrif langt inn í framtíðina. Áhrif hans erlendis einskorðast líka við seinni hluta 20. aldar. Það má líklega segja að Björk sé einn fyrsti Íslendingurinn sem hefur bein áhrif á listir og menningu heimsins í lifanda lífi. Hún tekur ekki bara við áhrifum erlendis frá og færir þau til Íslands – eins og gjarnan hefur þótt nóg til að vera byltingarmaður í íslenskum listum – heldur fer hún í hina áttina og hefur bein áhrif á það sem aðrir skapa erlendis og þau áhrif ná um allan hnöttinn, sem hefur síðan bein áhrif aftur hingað heim. En áhrif Bjarkar einskorðast við tímann eftir 1990 og langtímaáhrif þekkjum við ekki ennþá. Því má spyrja sig: hefur eitthvað listaverk, eitthvað mannanna verk, haft svipuð og hugsanlega enn meiri áhrif heldur en Björk og Nóbelsskáldið, jafnvel þótt við tækjum Bítlana og hvaða Nóbelsskáld sem er inn í myndina?

Ef við lítum á Íslendingasögurnar þá eru þær að vissu leyti sama marki brenndar og fundur Norður-Ameríku. Þetta eru og voru mjög óvenjulegar og þroskaðar bókmenntir á þessum tíma í heiminum en þær smituðu ekki út frá sér á ritunartímanum. Þær hafa lifað góðu lífi á jaðri heimsbókmenntanna og þótt við hefðum fegin viljað, þá hafa þær ekki orðið alþjóðlegir íkonar eins og Shakespeare. Þótt Njáls saga sé mikilvæg fyrir okkur Íslendinga þá þarf ekki annað en að taka orð eins og „fögur er hlíðin“ (sem fær Íslending til að fá gæsahúð) og bera saman við „að vera eða ekki vera“ eða setningar eins og „ég vaknaði í morgun í líki risavaxinnar bjöllu“. Noregskonungasögur voru skrifaðar af Íslendingum og hafa haft áhrif á sögu Norðurlandanna, sjálfsmynd þeirra og jafnvel þróun – já og kannski gerðum við öfugt við það sem við hefðum viljað í allri okkar sjálfstæðishugsun – við sömdum verk sem styrkti konungsvald á Norðurlöndum, sem við getum sagt að sé enn eitt jaðarsvæðið vegna þess að heimssögulega eru verk eins og Heimskringla Snorra Sturlusonar forvitnileg heimild um staðbundna sögu og áhrif. Og ef út í það er farið, þá má jafnvel efast um hvort heimsbókmenntir eigi eða þurfi að vera til. Á það að vera markmið höfunda að hafa áhrif á allan heiminn? Er ekki nóg að hafa glætt heimabæ sinn lífi og merkingu í óþýðanlegum verkum? Það gerðu einmitt ljóðskáldin okkar, en listrænt framlag Íslendinga í 1000 ár beindist nánast allt að ljóðinu – bundið í stuðla og höfuðstafi og rím og er flest allt óþýðanlegt yfir á erlendar tungur og óaðgengilegt öllum þeim sem ekki kunna Íslensku.

En ef það er ekki Björk, Hallgrímskirkja, Halldór Laxness, Njála eða litli Þórshamarinn á Þjóðminjasafninu – hvaða gripur er það þá? Ef við lítum framhjá staðbundnum hetjum, þjóðskáldum og fyrirbærum sem tengjast Íslandi beint þá rekumst við á eitt lítið skinnhandrit sem lætur afar lítið yfir sér. Í hillunni er það kallað Codex Regius GKS 2365 4to, Konungsbók Eddukvæða. Það má færa fyrir því rök að þetta sé ekki aðeins eitt mikilvægasta handrit af öllum Íslensku handritunum heldur jafnframt merkasta mannanna verk sem er geymt á Íslandi og jafnvel í allri Norður-Evrópu. Þessi skoðun er ekki byggð á þjóðrembu eða monti heldur mjög einfaldri mælingu á eðlismassa og stöðuorku listaverka og mælingum á beinum áhrif þess á listsköpun annarra. Konungsbók Eddukvæða skírskotar ekkert frekar til Íslands heldur en annarra landa en fyrir einskæra tilviljun auðnaðist okkur að varðveita hana á íslensku hér á Íslandi og stór hluti textans er aðeins varðveittur í þessari einu bók.


Mannkynið hefur á vegferð sinni skilið eftir sig allnokkrar heimsmyndir, hugmyndir um sköpun heimsins, öflin sem stýra honum, guðina sem ráða örlögum mannanna, galdurinn sem býr í orðum og álögum og oftar en ekki fylgir með spádómur um endalok heimsins eða nýtt upphaf. Þessar heimsmyndir eru misjafnlega fullkomnar eða heillegar, við sjáum þær í gyðinglegu heimsmyndinni, egypsku, hindúisma, búddisma, hjá Grikkjum, Rómverjum hjá Aztekum og víðar. Margir þjóðflokkar hafa varðveitt slitrur og brot, jafnvel bara eina setningu, styttu eða lágmynd. Norræn goðafræði er ein þessara heimsmynda. Allar þessar heimsmyndir eiga sér síðan einhverja táknræða miðju – hvort sem það er í Búddalíkneskjum, í píramídum, á Akrapólis, Jerúsalem eða í Róm – en norræn goðafræði á enga slíka miðju sem menn geta beinlínis „séð“, ekkert miðlægt safn á heimsmælikvarða sem beinlínis miðlar heimsmyndinni á nútímalegan og áhugaverðan hátt.

Konungsbók Eddukvæða varðveitir norræna goðafræði. Ef hún hefði ekki varðveist er ekki víst að við myndum vita að áttfætti hesturinn heitir Sleipnir, að eineygði maðurinn heitir óðinn, að maðurinn með hamarinn er Þór, að drekinn er Miðgarðsormur eða vísdóm um að það sé gáfumerki að þegja eða að margur verði af aurum api. Konungsbók varðveitir spádóm Völvunnar, einnig hetjukvæði sem hafa orðið innblástur fyrir listamenn eins og Tolkien, myndlistarmenn, myndhöggvara, barnabókahöfunda og ljóðskáld. Söguþráðurinn í Konungsbók er kjarninn í Niflungahring Wagners. Heimspekin hefur verið listamönnum eins og Borges efni í ótal sögur, ljóð og heimspekilegar pælingar. Í Eddukvæðunum er að finna erkitýpur eins og Loka hinn lævísa, Þór, Óðinn, ástargyðjuna Freyju með kettina sína, þarna má finna grimm örlög, sterkar konur og dularfulla vætti. Þarna er Miðgarðsormur, Fenrisúlfur og sjálfur Fáfnir sem liggur á gullinu. Spennandi og ævafornir hlutir sem fá ímyndunarafl barna jafnt sem fullorðinna til að snúast.

Það skal tekið fram að mæling á eðlismassa og stöðuorku listaverks er ekki byggð á huglægu mati heldur raunverulegum mælingum. Listaverk eins og Móna Lísa er heimsfrægt en að mörgu leyti endastöð sem listaverk – jafnvel dautt ef þannig má að orði komast – mikið er um paródíur, eftirlíkingar af því verki og einhverjum verður hún innblástur en það má deila um bein áhrif á aðra listsköpun, sem listspretta, uppspretta annarar listar. Goðafræði og ævintýri eins og þau sem eru varðveitt í Eddu eru dæmi um sísprettur nýrrar listar – hyldjúpur brunnur þar sem listamenn geta endalaust sótt í frumefnið og nýta sér til listsköpunar. Þannig ratar efnið í Eddu á hvíta tjaldið sem risavaxin Hollywood mynd gegnum Thor hjá Marvel Comics, Gandalfur verður nafn á hvíthærðum töframanni hjá Tolkien og örlög Baldurs verða dansverk, myndverk, ljóð, myndhverfing í tungumáli og jafnvel tölvuleikur. Nöfnin verða nýtt sem heiti á fjarlægum reikistjörnum, súkkulaði eða sem olíuborpallur í Norðursjó. Edda hefur haft áhrif á trúarbragðasögu, stjórnmálasögu, heimspeki, dans, ljóðlist, myndasögur og fantasíu svo fátt eitt sé nefnt. Hún hefur lent bæði í góðum og vondum félagsskap. Þannig að ef Íslendingar vilja búa til miðju norrænnar goðafræði þá þarf bara að skapa umgjörð utan um Eddu, sem miðlar innihaldinu og áhrifunum. Þannig væri hægt að búa til einn fjölsóttasta ferðamannastað á Íslandi. Markhópurinn væri annar en það fólk sem yfirleitt kemur að skoða náttúruundur.

Þegar maður er barn, þá ákveður maður hvert maður ætlar að fara um ævina –einhverntíma ætla ég að sjá Kínamúrinn, einhverntíma ætla ég að sjá píramídana og Pantheon – og ef Íslendingar hugsa þetta ekki sem gróðaveg eða túristastað heldur einfaldlega sjálfsagt hlutverk þjóðar í hnattvæddum heimi. Að fræða og miðla, að segja sögur sem stuðla að skilingi og innblæstri er hlutverk sem er bæði göfugt og skemmtilegt. Það eru mikil forréttindi að eiga sísprettu listaverks og stóra sneið af þeim heimsmyndum sem mannkynið hefur skilið eftir sig. Áreynslulaust þarf bara að opna þennan heim – og þá verður til ný list, eins og af sjálfu sér.


Ljósmynd af Andra Snæ Magnasyni: Kristinn Ingvarsson.

Ljósmynd af Konungsbók: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.