Vetrarsól

Viðsnúningur á hinum óbærilega léttleika tilverunnar

Óreglan er það sem skiptir máli, ekki reglan,“ segir Auður Jónsdóttir um skáldsögu sína Vetrarsól, í samtali við Sögueyjuna. Bókin kom út síðastliðið vor hjá stórforlaginu btb í Þýskalandi og er fyrsta verk Auðar til að koma út þar í landi.

Óreglan er það sem skiptir máli, ekki reglan,“ segir Auður Jónsdóttir um skáldsögu sína Vetrarsól, í samtali við Sögueyjuna. Bókin kom út síðastliðið vor hjá stórforlaginu btb í Þýskalandi og er fyrsta verk Auðar til að koma út þar í landi.

VetrarsólSöguhetja Vetrarsólar er ráðvillt ung kona að nafni Sunna. Auður lýsir henni sem „laufi í vindi“, konu sem hefur látið sjálfa sig berast með straumnum mótþróalaust, en vaknar upp við það, í miðju skammdegi desembermánaðar, að hún verður að takast á við fortíð sína. Um sama leyti og hún fær tækifæri til að stýra námskeiði um glæpasagnagerð, hjá forlaginu sem hún starfar hjá, neyðist hún til að hafa umsjón með syni sambýlismanns síns, sem situr veðurtepptur á Ísafirði. Til að bæta gráu ofan á svart birtist í fjölmiðlum auglýsing um hvarf gamallrar vinkonu Sunnu frá námsárum hennar í Barselóna – og ekki líður á löngu þar til hún verður vör við að þrír framandi menn hafa tekið að elta hana á röndum.

Þrátt fyrir þematísk tengsl við tvær fyrri bækur Auðar, Fólkið í kjallaranum og Tryggðarpant, er Vetrarsól að mörgu leyti ólíkt verk og órólegra. Frásögn bókarinnar virðist við fyrstu sýn ætla að fylgja hefðbundnum leiðum sakamálasögunnar, en leiðir lesandann í óvæntar áttir, þar sem endarnir eru margir og þægileg úrlausn mála er ekki borin fram á fati á síðustu síðum.

Í samtali við útsendara Sögueyjunnar segist Auður hafa fyrst og fremst viljað skemmta sér við að skrifa bókina. „Þegar ég skrifaði hana þá hafði komið frá mér stór fjölskyldusaga, Fólkið í kjallaranum, og svo Tryggðarpantur sem var hápólitísk bók. Ég vildi skemmta mér við að skrifa Vetrarsól og ég leyfði mér að leika með ákveðin bókmenntaform, eins og sakamálasöguna og „chick-lit“, í henni. Hún er í raun satíra á þessar bókmenntategundir. Lestur á þeim er ekki ólíkur því að fara í tívolí – þú færð spenningin, lausn í endann og ferð svo saddur heim að sofa. Vetrarsól fer í þveröfuga átt – þar eru ennþá fleiri endar í lokin og engin leið til þess að fara saddur að sofa. Hún var hugsuð sem viðsnúningur á þessum óbærilega léttleika tilverunnar,“ segir hún, og stillir sig ekki um að hlæja eilítið.

„Þegar ég skrifaði bókina bjó ég í Barselóna, í hverfi þar sem hátt hlutfall íbúanna var annað hvort hórur eða múslimakonur og um leið átti ég í mjög skrýtnum samræðum við fólk heima á Íslandi um mansal og múslima. Við það varð til eitthvers konar gap á milli þessara veruleika og inn um það vætluðu alls kyns vangaveltur sem enduðu í bókinni; um bókmenntaformið og veruleikann sem við lifum í.“

Handan hafsins liggur heimurinn

Auður JónsdóttirÞessar vangaveltur virðast hafa fallið í góðan jarðveg í Þýskalandi, en móttökurnar þar hafa ekki verið af verri endanum. „Hugvitssamlega skrifuð og spennandi bók sem hreyfir við manni [...] hvetur mann til að ferðast til Íslands,“ sagði gagnrýnandi Der Spiegel. Gagnrýnandi Hamburger Abendblatt sneri þó dæminu við í dómi sínum um bókina. „Við höfum flotta þýska kvenrithöfunda hér í Þýskalandi, sem skrifa hressar og djarfar bækur um konur, en þær virðast vera skrifaðar af lattelepjandi vinkonuhópum. Okkur skortir djúpvitrar bækur með fáguðu tungutaki. Við ættum að flytja þær inn frá Íslandi!“ Og gagnrýnandi Frankfurter Allgemeine sagði hina ólíku þræði sögunnar vera þrædda saman af „kunnáttusamlegu fyrirhafnarleysi. Uppbygging sögunnar er snjöll, en þó laus við það að vera ofhugsuð, og hún er jafn fyndin og hún er spennandi.“

„Það getur verið þjóðarlegur munur á bókum, hvort þær falla í réttan farveg eða ekki, og maður veit aldrei hvernig það fer,“ segir Auður, spurð um móttökurnar. „Þýsku gagnrýnendurnir virðast kveikja vel á stílnum, sem þýðir að þýðingin er góð. Kristof Magnússon þýðir bókina og hann er sjálfur virtur höfundur og mjög góður þýðandi. Þannig að margir af þessum dómum fjalla um stíl bókarinnar. Það skiptir auðvitað miklu máli, til að bók skili sér, að maður sé með góðan þýðanda. Ég hef verið heppin með það.“

En hvað finnst þér um þýska titilinn? Hann er þónokkuð frábrugðinn þeim íslenska.

Ég er ánægð með hann, þó hann gengi ekki upp hér á Íslandi. Hann útleggst einhvern veginn sem „Handan hafsins liggur heimurinn“ á íslensku og segir líklegast meira en frumtitillinn,nema að ástæðan fyrir breytingunni hafi kannski verið vegna markaðssetningarinnar; að Vetrarsól hafi ekki hentað í vorútgáfuna,“ segir hún og hlær.

Það er meiri óregla í þessari bók heldur en í fyrri verkum þínum.

„Hún er skrifuð með það fyrir augum; það á ekki að vera regla í henni. Þetta er vissu leyti farsi. Ég veit að það var fólk sem botnaði hvorki upp né niður í hvað þau höfðu í höndunum þegar það las bókina, en til þess var leikurinn gerður – óreglan er það sem skiptir máli, ekki reglan. Sumir vildu að þetta væri hrein sakamálasaga, en hún fer vísvitandi í þá átt að vera það ekki.

Söguhetja Vetrarsólar er persónugerð sem ég hef unnið með áður í bókum mínum; þessi passíva kona sem gerir illt með því að vera passív. Kona sem lifir dag frá degi og finnst hún lifa ósköp venjulegi lífi, en þegar hún fer svo að grafast fyrir í fortíð sinni þá sér hún að það hefur átt sér stað atburðarás sem hún verður að taka loksins afstöðu til – hvort hún sé glæpsamleg eða ekki – hún neyðist til að verða þátttakandi í lífinu.

Í bókinni velti ég því fyrir mér hvar sektin liggur. Sakamálasögur ganga út á það að finna hinn seka, en sögupersónan í Vetrarsólsitur aftur á móti uppi með sína sekt og spurningin er þá: í hverju er sú sekt fólgin?“

Bækur og lýðræði

Auður leikur sér með ólík bókmenntaform í Vetrarsól, en að auki kemur sjálfur bókamarkaðurinn – sala bóka og markaðssetning þeirra – töluvert við sögu. Sjálf Bókasýningin í Frankfurt hafði áhrif á efni bókarinnar. „Á ákveðnum tímapunkti meðan ég var að skrifa Vetrarsól fór ég til Frankfurt sem blaðamaður til að fjalla um bókasýninguna. Þegar ég kom þangað minnti hún mig dálítið á kvikmyndina Everything You Always Wanted to Know About Sex But Were Afraid to Ask; bókasýningin var eins og heilinn fyrir Vesturlönd sem ákveður svo hvað verður lesið fyrir næsta árið. Það fékk mig til að hugsa um þennan vestræna veruleika og neyslu almennt. Þannig að meira að segja Frankfurt vætlaði inn í bókina.“

Frankfurt er í raun miðja sem ákveður hvaða bækur við lesum næsta árið, sem um leið stýrir lýðræðinu, því bækur og lýðræði eru svo nátengd fyrirbæri. Það er stöðugt verið að fæða okkur á ákveðnum hugmyndum og maður afsalar sér svo miklu þegar maður lætur mata sig. Þess vegna átti það svo vel við að Sunna, aðalpersóna Vetrarsólar, væri eins og lauf í vindi, starfandi í þessum bókabransa, því þetta er lýsandi fyrir allt í hennar líf – það er ákveðið af öðrum. Það er tilviljunum háð hvað ræður því hvað er keypt og hvað er markaðssett, oft af fólki sem hefur jafnvel ekki áhuga á bókmenntum, og mögulega er sektin okkar allra að véfengja ekki það sem rétt er að okkur.

Það hefur verið sagt um bækur þínar að í þeim liggi ávallt sterk siðræn krafa. Ertu heimsósómaskáld?

„Ég held að þessi bók hafi verið tilraun til þess að losna undan því. Ég ætlaði fyrst og fremst að hafa gaman af henni. Ég held að það sé meiri heimsósómakrafa í manni þegar maður er yngri, sem er gott og blessað, en maður verður forhertari með aldrinum og fær meiri húmor fyrir sínum eigin göllum og annarra.

Vetrarsól fjallar því um farsatilhneiginguna í lífinu, en um leið tekst hún á við þennan djúpa alvarleika sem við búum við en veigrum okkur við horfast í augu við dag frá degi. Það er þessi veruleiki sem við lifum í. Söguhetjunnier mjatlað í gegnum lífið og hún tekur alltaf því sem að henni er rétt. En allt í einu verða kveikjurnar of margar og hún þarf að líta aftur í fortíðina – kannski er stærsti glæpurinn sinnuleysi manns sjálfs.


Viðtal: Davíð K. Gestsson

Ljósmynd af höfundi: Kristinn Ingvarsson