Góði elskhuginn

Stórkostlegt ævintýri að kasta bók út í heiminn

„Þegar lesandi kemur til mín og segist hafa lesið allar sex bækurnar sem hafa komið út á þýsku má ég passa mig á því að fá ekki tár í augun,“ segir Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur, í samtali við Sögueyjuna, en skáldsaga hennar Góði Elskhuginn kom út á þýsku í byrjun september.

„Þegar lesandi kemur til mín og segist hafa lesið allar sex bækurnar sem hafa komið út á þýsku má ég passa mig á því að fá ekki tár í augun,“ segir Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur, í samtali við Sögueyjuna, en skáldsaga hennar Góði Elskhuginn kom út á þýsku í byrjun september.

Góði ElskhuginnBókin segir sögu Karls Ástusonar, piparsveins og peningamanns, sem ólst upp við ofurást móður sinnar í æsku. Tvítugur missti hann takið á unnustu sinni til sjö mánaða, að nafni Una, þegar hún slítur sambandinu upp úr þurru og án frekari útskýringa. Sautján árum síðar er Karl orðinn að farsælum fjármálamanni með búsetu í Bandaríkjunum og Frakklandi; kvenhyllin mikil og peningarnir nægir – en skarðið sem æskuástin skildi eftir sig stendur enn ófyllt.

Karl tekur þá skyndiákvörðun að snúa aftur til Íslands, í von um að rekast aftur á Unu, og fyrir röð tilviljana endar hann á tröppum æskuástarinnar, á kaldri vetrarnóttu, tvístígandi um hvað hann eigi til bragðs að taka. Í ráðaleysi sínu slær Karl á þráðinn til fyrrum ástkonu sinnar, Doreen Ash, bandarískan geðlækni og sálgreinanda, í von um að hún geti veitt honum einhverja hjálp. Karl tekur afdrifaríka ákvörðun að símtalinu loknu – og þar hefst ástarævintýrið að nýju.

Góði elskhuginn sver sig í ætt við fyrri bækur Steinunnar. Í bókinni er tekist á við viðfangsefni sem lesendur hennar ættu að vera vel kunnir – ástina, tímann og dauðann – en eins og gagnrýnandi Bókmenntavefsins benti á þá tekst Steinunni að glæða aldagömul viðfangsefni nýju lífi: „Það er makalaust að geta skrifað um ástir án þess að klisjurnar hrannist upp eða tilfinningarnar sem lýst er verði fjarlægar og upphafnar ... það er ekki síst að þakka sérstakri blöndu höfundarins af hlýju og húmor. Því þótt nóg sé af íróníu verður bókin aldrei kaldhæðin, hlutskipti ástarinnar hvorki léttvægt né væmið, heldur vermir sál á köldum degi.“

Ótæmanleg viðfangsefni

Steinunn Sigurðardóttir„Kveikjan að verkinu var nafn á legsteini. Nafnið Doreen Ash,“ segir Steinunn um tilurð Góða elskhugans. „Ég veit ekki lengur hvar legsteinninn var. Annað hvort í Skotlandi eða fyrir utan París.  Mig dreymdi um þessa konu, eða um nafnið öllu heldur, og ég vissi að þetta nafn yrði förunautur minn, lengi.  Það rættist, í þrjú ár vorum við saman, Doreen Ash og ég, meðan ég var að skrifa bókina.  Og hún tók hana reyndar yfir, óvænt.  Það er hún sem skrifar skáldsöguna, raunveruleikaskáldsöguna svokölluðu, Góða elskhugann.“

Góði elskhuginn er öðrum þræði karakterstúdía á persónu sem elst upp við ofurást móður sinnar. Hvað fékk þig til að skapa slíka persónu? 

 „Samband sonar og móður er svo heillandi að ég ætti að fá verðlaun fyrir að hafa sýnt þá sjálfsstjórn að hafa ekki fjallað um það fyrr. Sumar af skoðunum Doreen Ash um það efni gæti ég hugsanlega gert að mínum, við nánari athugun.  Svo mikið er víst að á meðan ég var að skrifa trúði ég hverju orði af því sem hún hafði að segja og skrifa um móðursoninn, um eyðileggjandi áhrif móðurástarinnar á soninn.“

Framvinda sögunnar  er tilviljanakennd. Ákveðinn ævintýrabragur á henni jafnvel. Stóra spurningin er þá hvort söguhetjurnar lifi hamingjusamar til æviloka?

„Það er stórkostlegt ævintýri að kasta bók út í heiminn.  Stundum er gert eitthvað allt annað úr henni en ég ætlaðist til.  Mínir skörpustu lesendur draga þennan „happy end“ á Góða elskhuganum í efa.  Og þá er ég ánægð.“ 

Þetta er brögðótt skáldsaga?

„Ég er hrifin af því að skáldsagan sé sögð brögðótt.  Um leið og lesandinn veit hvar hann hefur söguna, þá er hún glötuð.  Ein af stórkostlegustu lestrar „upplifunum“ mínum var Fóstbræðra saga.  Það var alls ekki hægt að átta sig á því hvort höfundinum fannst hetjurnar hetjur eða fífl.  Kannski voru þær bæði og.  Og það er að einhverju leyti málið.  Ekki  annað hvort eða, heldur bæði og.“

Hver er galdurinn við að kljást við ástir í skáldskap án þess að „klisjurnar hrannist upp“? 

Hverjum dettur í hug að það sé hægt að tæma stóru efnin:  Ástina, tímann, dauðann?  Það er alls ekki hægt að tæma viðfangsefni.  Það er ekki einu sinni hægt að tæma efnið landslag.  Það er sama þótt landslag breytist ekki, það er sama þótt því hafi verið meistaralega vel lýst.  Við þurfum samt nýjar aðferðir við að koma því til skila.  Af því að við erum breytt, þótt landslagið hafi ekki breyst.

Ævintýri líkast

Steinunn hefur undanfarið verið á upplestarferð um Þýskaland, til kynningar á bókinni. „Þetta hefur verið ævintýri líkast, á hverjum einasta stað, sama hvort það er stórborg eða smábær,“ segir Steinunn, aðspurð um móttökurnar.

„Það kemur fullt af fólki sem þegir á réttum stöðum og hlær á réttum stöðum og kaupir bækurnar og vill fá þær áritaðar.  Það er stórkostlegt að hafa þetta beina samband við lesendur og ég er mjög þakklát fyrir það að þýskan mín nýtist vel, þótt ég vildi reyndar að hún væri betri. Þegar lesandi kemur til mín og segist hafa lesið allar sex bækurnar sem hafa komið út á þýsku má ég passa mig á því að fá ekki tár í augun.“

„Það er líka ævintýri að sjá hvað fólkið á hverjum stað er einbeitt í því að gera sitt besta fyrir bókmenntirnar, og hvað það er fórnfúst.  Og í þessum heimsóknum verða þvílíkar sögur út um allar stéttir að ég veit ekki hvar ég ætti að byrja.  Hvort það ætti að vera í klukkuturninum í Christianskirche í Hamborg með konunni sem spilaði á klukkurnar, líka nýjasta verkið eftir Þorsteinn minn Hauksson tónskáld, pöntun frá henni, sem hann hafnaði ekki heldur skrifaði á staðnum, og var svo frumflutt samstundis, verkið Miniature. Svo var það freyðivínskjallarinn í Geisseinheim þar sem komu 250 manns í stuði.  Þar er framleiddur rauðvínsfreyðari, þurr, einstakt vín eftir því sem best er vitað.  Svo var Bad Berleburg lengst inni í landi, klukkutíma frá hraðbrautum í allar áttir, þar sem systir Margrétar Danadrottingar býr með sínum þýska prinsi, og Ingrid Danadrottning fastagestur langt frameftir.  Ég hélt fyrst að þetta væri lygi.  Semsagt, stanslaus undrunarefni, og stefnumót við gæðafólk sem aldrei gleymist.“

Viðtal: Davíð K. Gestsson

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson