Flugan sem stöðvaði stríðið

„Ég skrifaði þessa bók vegna þess að mig langaði til að fjalla um stríð frá sjónarhorni sem börn gætu nálgast og skilið,“ segir Bryndís Björgvinsdóttir höfundur bókarinnar Flugan sem stöðvaði stríðið, sem vann til Íslensku barnabókaverðlaunanna þetta árið.

Flugan sem stöðvaði stríðið

„Ég skrifaði þessa bók vegna þess að mig langaði til að fjalla um stríð frá sjónarhorni sem börn gætu nálgast og skilið,“ segir Bryndís Björgvinsdóttir höfundur bókarinnar Flugan sem stöðvaði stríðið, sem vann til Íslensku barnabókaverðlaunanna þetta árið. Fyrir bókina hlaut Bryndís einnig nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs, en þökk sé honum var unnt að myndskreyta hana og var Þórarinn Már Baldursson, sem meðal annars hefur myndskreytt bækurnar um Maxímús Músíkús, fenginn til verksins. Þetta er önnur barnabók Bryndísar, en þegar hún var einungis fimmtán ára gömul sendi hún frá sér, ásamt vinkonu sinni, bókina Orðabelgur Ormars ofurmennis.

Flugan sem stöðvaði stríðið er saga nokkurra ósköp venjulegra húsflugna sem flýja heimili sitt þegar uggvænlega skilvirkur rafmagnsflugnaspaði fellur inn um póstlúgu heimilis þeirra. Þær leggja í reisu til Nepals, þaðan sem frést hefur af kærleiksríkum munkum sem ekki gera flugum mein, í von um að þar verði þeim rórra. Á ferðalaginu læra flugurnar sitthvað um heiminn og komast í tæri við myrkustu hliðar hans í stríðshrjáðu landi. Þær ákveða síðan að taka „fótum“ saman til að binda enda á vitleysuna.

Frá sjónarhóli hins smáa

Í bókinni er tekist á við vandmeðfarið umfjöllunarefni á frumlegan hátt. Það var  ekki hlaupið að því að skrifa um stríðshörmungar í barnabók segir Bryndís. „Mér fannst annars vegar ekki í boði að lýsa martraðarkenndum stríðsátökum í barnabók og hins vegar ekki heldur rétt að gera lítið úr hryllingnum – fegra stríð og afleiðingar þess.“

Og því greipstu til flugnanna?

Bryndís Björgvinsdóttir„Sjónarhorn húsflugnanna, aðalsöguhetjanna, býður upp á einfaldað sjónarhorn á stríð og á kannski ýmislegt sameiginlegt með sjónarhorni barnsins. Í fyrsta lagi þekkja flugurnar, að ég leyfi mér að gera ráð fyrir, ekki mismunandi trúarbrögð eða stjórnmálasögu, sem eru þættir sem hinir fullorðnu vísa gjarnan til þegar þeir leitast við að útskýra, og réttlæta jafnvel, stríðsátök. Í annan stað sjá flugurnar okkur mannfólkið svipað og við sjáum þær: Þær sjá ekki kyn okkar, trú, stétt, stöðu eða aldur. Sýn þeirra takmarkast því að mestu leyti við hvað mannfólkið gerir eða fæst við hverju sinni – það gengur um gólf, horfir á sjónvarpið, borðar eða sefur. Í stríðinu sjá flugurnar síðan manneskjurnar ráðast gegn sjálfum sér og leitast við að skaða sig sem mest; þær hafa til að mynda byggt upp heila borg en leggja hana síðan í rúst án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Ég vonaðist til að þetta einfalda sjónarhorn húsflugnanna gæti minnt okkur enn og aftur á fáránleika stríðs og hversu lítið við botnum í raun og veru í stríðsátökum, þrátt fyrir allt.“

Þetta sjónarhorn hryggleysingjans er þá ekki of fjarlægt mannskepnunni?

„Húsflugur hafa alltaf búið okkur hvað næst. Að minnsta kosti svo nærri að tegund þeirra dregur nafn sitt af sameiginlegum heimilum okkar og þeirra. Því má kannski segja að hvorutveggja, húsflugur og stríð, hafi fylgt okkur mannfólkinu allt frá upphafi. En þrátt fyrir það, eða kannski þess vegna, lítum við gjarnan á þær sem ómerkilegar. Til að mynda veit fólk yfirhöfuð mjög lítið um húsflugur og finnst gjarnan sjálfsagt að drepa þær án umhugsunar – tvær í einu höggi ef spara á sem mesta orku og tíma. Mér fannst því ekki aðeins sjónarhorn flugnanna á mannfólkið ákjósanlegt heldur einnig sniðugt að tefla þeim, svona ómerkilegum og hversdagslegum verum á stærð við krumpaða rúsínu, fram gegn þá þessum fyrirferðamikla galla í fari okkar mannfólksins, stríði.“

Samkennd, virðing og skilningur

Flugan sem stöðvaði stríðið 2Predikunartónn hefur ekki átt upp á pallborðið í íslenskum barnabókum undanfarin ár. Boðskapurinn í Flugunni sem stöðvaði stríðið er vissulega augljós, en hún er lífleg og fyndin þrátt fyrir alvarlegt umfjöllunarefnið. Krefst bók af þessu tagi ekki ákveðins jafnvægisdans svo rithöfundurinn falli ekki í predikunarstólinn?

„Þegar ég hugsa út í þetta með predikunarstólinn þá fæ ég á tilfinninguna að fólk grípi til hans þegar það veit ekki hvernig það getur komið hugleiðingum sínum öðruvísi á framfæri. Ég hef trú á að með því að gera fólki kleyft að setja sig í spor annarra, nota ímyndunaraflið og virkja samkenndina með öðrum verum, geti það sjálft fundið í brjósti sér tilfinningu fyrir ranglæti og réttlæti.“

Bókin er holl lesning fyrir fullorðna líka?

„Við gleymum því kannski stundum að þekking á sögu eða stjórnmálum varpar vissulega einhverju ljósi á af hverju stríð hefjast á ákveðnum svæðum en hún réttlætir þau ekki. Flugurnar minna okkur kannski á að við skiljum þrátt fyrir allt ekki stríð – enda er það ekki beinlínis í boði: Það er til að mynda ekki hægt að segja að neitt sé skiljanlegt við það að börn tapi lífi eða limum í pólitískum átökum. Kannski sagan geti endurvakið gamalkunnar tilfinningar og vangaveltur um stríð hjá fullorðnum. Einnig má finna í bókinni eitthvað af heimspekilegum vangaveltum og tilvísunum sem fullorðnir ættu að geta haft gaman af.“ 

Er þörf á því að fullorðnir ræði meira um erfið efni af þessu tagi við börn?

„Líklegast, já. Við tölum um ýmiss konar málefni við börn en ef til vill forðumst við þau erfiðustu þar sem við sjálf eigum kannski bágt með að ræða þau. Við virðumst til dæmis eiga auðvelt með að tala við börn um nauðsyn hollrar fæðu og reglulegrar hreyfingar, að þau skuli forðast vímuefni og ofbeldi en þegar það kemur að því sem má kalla náungakærleika eða jafnrétti, virðingu fyrir manneskjum og dýrum – og þá aðallega þeim sem eru ekki bara öðruvísi en við sjálf, heldur eru einnig sett skör lægra í samfélagi manna en við sjálf – þá vandast oft málið. Það er kannski einmitt þar sem við þurfum að reyna betur að rækta samkennd, virðingu og skilning. Að þessu leyti finnst mér húsflugurnar í bókinni geta staðið fyrir alla þá hópa sem eru hafðir undir í hvaða samfélagi sem er – þá sem þykir sjálfsagðara að virða að vettugi, fyrirlíta, beita jafnvel ofbeldi eða deyða. Undir lok bókarinnar brjótast flugunar líka út í einskonar ávarp til mannfólksins þar sem þær óska þess að slíkt misrétti hætti, og samskipti manna á milli, og manna og dýra á milli, batni – og verði þá meira í ætt við það sem gerist best í klaustrunum í Nepal.“

Viðtal: Davíð K. Gestsson