Myrknætti

Jafnvel björtustu dagar geta reynst dimmir og drungalegir ef skyggnst er undir yfirborðið,“ segir glæpasagnahöfundurinn Ragnar Jónasson um þriðju glæpasögu sína, Myrknætti.

MyrknættiJafnvel björtustu dagar geta reynst dimmir og drungalegir ef skyggnst er undir yfirborðið,“ segir glæpasagnahöfundurinn Ragnar Jónasson í viðtali við Sögueyjuna um þriðju glæpasögu sína, Myrknætti. Þýðingarrétturinn að bókinni var nýlega seldur til Þýskalands og var það útgáfurisinn Fischer Verlag sem festi kaupin, en forlagið gaf sömuleiðis út fyrri bók Ragnars, Snjóblindu, í aðdraganda Bókasýningarinnar í Frankfurt í fyrra og naut þýðingin töluverðar velgengni.

Myrknætti hefst á líkfundi á afskekktum stað í Skagafirði og mætir lögreglumaðurinn Ari Þór Arason, sem lesendur þekkja úr fyrri bókum Ragnars, aftur til leiks við rannsókn málsins. Reykvísk sjónvarpsfréttakona, Ísrún að nafni, fær einnig veður af morðinu og heldur norður til að leita sér upplýsinga um það. Eftir því sem rannsókn málsins vindur fram, kemur í ljós að fórnarlambið var ekki allt það sem það var séð. Á sama tíma og morðrannsóknin fer fram hangir líf ungrar nepalskrar konu, sem lokkuð hefur verið til Íslands á fölskum forsendum, á bláþræði.

Í bókinni tekst Ragnar á við misjafnt eðli mannskepnunnar og segist meðal annars fjalla um „málefni á borð við mansal, einelti og illa meðferð á börnum, auk þess sem rauði þráðurinn er rannsókn á hrottalegu morði á bjartri sumarnótt.“ Ragnar segir titillinn meðvitað valinn í andstöðu við hina björtu sumardaga sem frásögnin spannar. „Það má segja sem svo að glæpasögur snúist oft um hálfgerðar sjónhverfingar; að fá lesandann til þess að trúa því að dagur sé nótt áður en hið sanna kemur svo í ljós. Orðið myrknætti er gamalt og gott íslenskt orð, sem kemur meðal annars fyrir í kvæði eftir Jón lærða Guðmundsson, sem uppi var á 16. og 17. öld, og mér þótti mjög lýsandi fyrir söguna. Í bókinni reyndi ég líka að draga fram svipaðar andstæður með beinum hætti með því að láta þá kafla sem gerast í Reykjavík eiga sér stað á eftirminnilegum sumardegi í júní árið 2010 þegar þykkt öskuský lá yfir höfuðborginni og skyggði á sumarsólina.“

Ragnar JónassonHvað hafðirðu að leiðarljósi þegar þú skrifaðir Myrknætti, sem er óbeint framhald af Snjóblindu?

„Ég reyndi að hafa það í huga við skrifin að Myrknætti gæti staðið sjálfstætt, þótt sama söguhetjan, lögreglumaðurinn Ari, léki þar stórt hlutverk, en auk þess ákvað ég að kynna til leiks aðra aðalpersónu til hliðar við Ara, fréttakonuna Ísrúnu. Ég starfaði sjálfur sem sjónvarpsfréttamaður á háskólaárunum og það er mjög spennandi veröld sem mig langaði til þess að skrifa um. Þá fannst mér mikilvægt að ytra yfirbragð sögunnar væri frábrugðið Snjóblindu, þar sem þungur snjór hvíldi yfir bænum, og því valdi ég þann tíma ársins þegar bjart er allan sólarhringinn.“

Þú hefur ekki óttast að smæð bæjarins og afskekkt umhverfið setji frásögninni ákveðin takmörk?

„Jú, ég er vissulega meðvitaður um að lítill bær eins og Siglufjörður þolir ekki mjög marga glæpi, jafnvel þótt þeir séu ímyndaðir. Bærinn spilaði mjög stórt hlutverk í Snjóblindu en ég gætti þess að láta atburðarásina í Myrknætti eiga sér stað á stærra svæði. Afi minn og nafni, Þ. Ragnar Jónasson, skrifaði mikið um sögu Siglufjarðar og mig langaði til þess að fjalla líka um þennan einstaka stað með mínum hætti. Ég hef séð fyrir mér að Snjóblinda og Myrknætti verði fyrstu tvær sögurnar í þríleik þar sem Siglufjörður komi við sögu – og í kjölfarið muni ég svo gefa Siglfirðingum frí frá frekari glæpum.“

Ragnar situr ekki auðum höndum og er langt kominn með lokahnútinn í Siglufjarðar-þríleiknum. „Í næstu bók eru glæpirnir sem eru til rannsóknar hins vegar ekki framdir í síldarbænum, líkt og í Myrknætti, en stór hluti sögunnar gerist þó þar. Ari og Ísrún eru aftur aðalsöguhetjurnar og þótt þau fáist við ólík mál liggja leiðir þeirra saman. Ari þarf að vinna við mjög óvenjulegar aðstæður á Siglufirði, sem best er að segja sem minnst um í bili, og fær þar tækifæri til þess að rannsaka hálfrar aldrar gamalt mál, sviplegt dauðsfall ungrar konu á afskekktum stað á Norðurlandi. Ísrún lendir hins vegar í hringiðu tveggja stórra mála á höfuðborgarsvæðinu, annars vegar er þar um að ræða morðmál og hins vegar mál sem tengist ungri fjölskyldu sem virðist sæta óhugnanlegum ofsóknum frá ókunnugum manni.“

Ragnar heldur til Bretlandseyja í vikunni, á glæpasagnaráðstefnuna „Crimefest“ í Bristol, og mun þar taka þátt í pallborðsumræðum um norrænar glæpasögur ásamt þremur öðrum höfundum glæpasagna frá Norðurlöndum. „Ég verð þó ekki eini Íslendingurinn þarna,“ segir Ragnar, „því Yrsa Sigurðardóttir tekur líka þátt í umræðum á ráðstefnunni, líkt og hún hefur gert undanfarin ár. Mér telst til að ráðstefnugestir að þessu sinni séu alls hátt í fjögur hundruð talsins, þar á meðal heimskunnir stórmeistarar í greininni á borð við P.D. James, Lee Child og Frederick Forsyth.“

Að lokum er því ekki úr vegi að spyrja: hvað er það að þínu mati sem drifið hefur velgengni norrænna krimma á heimsvísu að undanförnu?

„Það sem heillar mig helst við lestur glæpasagna er einkum þrennt: eftirminnilegt sögusvið, sterkar persónur og vel útfærð flétta. Ég held að þetta sé í raun lykillinn að baki velgengni norrænna sakamálasagna. Þar er að jafnaði mikið lagt upp úr heillandi og oft framandi sögusviði og persónur eru dregnar fram með skýrum hætti, meðal annars með því að láta þær endurspegla brýn samfélagsleg álitamál. Sögufléttan gegnir svo auðvitað lykilhlutverki í öllum glæpasögum – hún þarf að vera forvitnileg og trúverðug, auk þess sem lesendum er oft komið á óvart í sögulok.“


Viðtal: Davíð K. Gestsson

Ljósmynd af höfundi: Ómar Óskarsson