Korter

„Ég held að fólk á þrítugsaldri, bæði strákar og stelpur, geti fundið líkindi með sér og sögupersónunum í bókinni,“ segir Sólveig Jónsdóttir í viðtali um fyrstu skáldsögu sína Korter, samtímasögu úr Reykjavík

„Ég held að fólk á þrítugsaldri, bæði strákar og stelpur, geti fundið líkindi með sér og sögupersónunum í bókinni,“ segir Sólveig Jónsdóttir í viðtali við Sögueyjuna um fyrstu skáldsögu sína Korter, samtímasögu úr Reykjavík sem segir frá fjórum konum á þrítugsaldri sem allar stunda sama kaffihúsið, griðastaðinn Café Korter í Bankastræti.

Sögupersónurnar eru allar að læra að fóta sig í lífinu og í sögum þeirra eru dregnar upp fremur nöturlegar myndir af lífinu. Konurnar upplifa áföll og átök, þeim verður á fótaskortur en í sögulok standa þær uppi sem sterkari einstaklingar en í upphafi. Þótt veruleikinn sé á köflum napur eru frásagnirnar uppfullar af kímni og hlýju og lesandinn hefur ríka samúð með sögupersónunum og þeim aðstæðum sem þær lenda í.

Bókin gerist að vetrarlagi og myrkrið og kuldinn virðist vera alltumlykjandi í lífi kvennanna. Samkvæmi og skemmtistaðir eru ljósir punktar í tilverunni, en þó veitir galeiðan skammgóðan vermi. Bókin lýsir samböndum af ólíkum toga, fjölskyldubönd persónanna eru sterk og hlý en sambönd við elskhuga og kærasta eru fjarlæg og stundum jafnvel fjandsamleg. Leitin að lífsförunaut eða félaga er einkennandi fyrir bókina.

„Við sjálf, og samfélagið líka, gerum kröfur um að við höfum náð ákveðnum áföngum í lífinu þegar við erum komin hátt á þrítugsaldurinn,“ segir Sólveig, aðspurð hvort bókin lýsi á einhvern hátt dæmigerðu lífi ungs fólks í Reykjavík. „Ef þeir áfangar nást ekki fyrir þrítugt finnst eflaust sumum allt vera farið út um þúfur. Maður verður óöruggur með sig og finnst allt hálfmisheppnað. Bætum svo út í þennan kokteil ögn af hjartasorg, lélegu sjálfsmati, nokkrum drykkjum á barnum og niðdimmum heimskautavetrinum og þá er útkoman ekki ólík söguþræðinum í bókinni. Dálítið spaugileg flækja sem nauðsynlegt er að greiða úr.“

Hafðirðu þá einhverjar fyrirmyndir að sögupersónum bókarinnar?

„Efniviðurinn kemur héðan og þaðan. Sumt fékk ég lánað frá fólkinu í kringum mig og annað frá fólki sem ég mætti á förnum vegi. En reynsla mín sem kaffibarþjónn kom sér líka vel þegar ég skrifaði bókina, því þá hafði ég til dæmis góða hugmynd um hvernig fastagestir á kaffihúsum eru.“

En hvað með aðrar bækur, eru þær áhrifavaldar?

„Mig langaði til að skrifa bók sem var algjörlega mín. Þess vegna ákvað ég að lesa ekki álíka bækur á meðan ég sat við skriftir til þess að verða ekki fyrir of miklum áhrifum af þeim. Ég er ánægð með þá ákvörðun mína.“

Reykjavík: hárbeitt, svöl og fyndin

Líf kvennanna fléttast saman á skemmtilegan hátt í sögunni og Reykjavík er eins og fimmta persónan í bókinni sem leiðir saman konurnar fjórar, vini þeirra og kunningja. Í Korter má segja að Sólveig skrifi sig inn í hefð Reykjavíkursagna, en upphaf þeirra má rekja til sjötta áratugs síðustu aldar þegar skáldsagan Vögguvísa eftir Elías Mar kom út, sem var nýverið endurútgefin af bókaforlaginu Lesstofunni og verður í brennidepli á Lestrarhátíð í Reykjavík í október. Reykjavíkursögur eru einskonar ferðabækur og með lestri þeirra má kynnast borginni og íbúum hennar á annan hátt en með lestri hefðbundinna ferðabóka. En hvaða  Reykjavíkursaga skyldi vera í uppáhaldi hjá Sólveigu, nú þegar hún er nýbúin að senda frá sér eina slíka? „101 Hallgríms Helgasonar er í sérstöku uppáhaldi hjá mér,“ svarar Sólveig, „hún er svolítið eins og borgin sjálf:  hárbeitt, svöl og fyndin. Hristir upp í hlutunum.“

Og nú stendur til að kvikmynda þessa fyrstu skáldsögu Sólveigar, rétt eins og 101 Reykjavík sem gerist á ofanverðum tíunda áratug síðustu aldar. En með Korteri hefur Sólveig fangað upphaf 21. aldarinnar í Reykjavík og spennandi verður að sjá hvernig bókin kemur út á hvíta tjaldinu.

Sögueyjan spurði Sólveigu að lokum um hvort hún hafi sjálf notað bókmenntir til að kynnast nýrri borg. „Já, algjörlega. Ég las til dæmis My Left Foot eftir Christy Brown áður en ég flutti til Dublin og sökkti mér ofan í sögurnar um Rebus lögregluforingja þegar leiðin lá til Edinborgar þar sem ég dvaldi síðan í fjögur ár. Maður kynnist borginni á allt annan hátt en með lestri hefðbundinna ferðabóka, og fólkinu líka. Ég get alveg mælt með því að ferðalangar lesi slíkar bækur áður en þeir leggja í hann.“