Suðurglugginn

„Ég hef sífellt meiri áhuga á hver skilin eru milli einstaklingsins annars vegar og lífsins sem í honum blaktir, og svo heiminum hinsvegar,“ segir Gyrðir Elíasson. Frá honum er komin ný skáldsaga, Suðurglugginn, sem hefur verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

„Ég hef sífellt meiri áhuga á hver skilin eru milli einstaklingsins annars vegar og lífsins sem í honum blaktir, og svo heiminum hinsvegar; hver áhrif veröldin hefur á sálarlíf okkar þegar upp er staðið, eða hvort við séum bara að stærstum hluta búnt af erfðum og upplagi sem fari sínu fram jafnvel óháð því sem gerist utan við þetta „ytra hylki“ einsog Þórbergur kallaði það,“ segir rithöfundurinn Gyrðir Elíasson.

Frá honum er komin ný skáldsaga, Suðurglugginn, sem hefur verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Bókin segir frá  rithöfundi sem dvelur í sumarhúsi í grennd við lítið þorp og vinnur að skáldsögu. Einveran hentar honum vel, því hann vinnur að skáldsögu, en þrátt fyrir friðinn ganga skrifin illa og ritvélin, sem hann þrjóskast við að nota á tölvuöld, safnar ryki. Sögumaðurinn á í litlum sem engum samskiptum við annað fólk á meðan á dvöl hans stendur í sumarhúsinu. Hann skrifar bréf – sem hann sendir ekki – og honum berast bréf – sem hann brennir án þess að opna. Undir niðri grillir í ástarsamband sem hefur beðið skipbrot og ljóst er að sögumaðurinn hefur orðið fyrir vonbrigðum með lífið.

Gyrðir segist raunar vera staddur á kjörlendi sálfræðinnar í þessari bók sinni. „Ég hef trú á því að skáldskapurinn geti haft sitthvað um þessa dularfullu „innri veru“ að segja, sem fræðigreinar ná jafnvel ekki yfir. Og ég held að skáldskapur af þessu tagi hafi líka fullt gildi við hlið svokallaðs samfélagslegs skáldskapar, sem er kannski meira upp á borðinu nú um stundir. Allt er gott hvað með öðru, einsog maðurinn sagði.“

„Líf höfundarins er alltaf ömurlegt“

„Mig hafði nokkuð lengi langað til að skrifa frásögn sem lýsti að einhverju leyti því lífi sem er hlutskipti höfundarins,“ svarar Gyrðir, aðspurður um tilurð verksins. „Líf höfundarins er alltaf ömurlegt,“ sagði Tolstoj víst. Nú er þessi höfundur Suðurgluggans kannski ekki neinn dæmigerður höfundur, ég veit það ekki, en svona allavega birtist hann mér, og ég reyndi bara að gera honum skil eftir bestu getu. Hins vegar mega lesendur ekki gleyma því að þetta er ekki skáldsaga í hefðbundum skilningi þess orðs.“

Að hvaða leyti?

„Halldór Laxness talaði um esseyju-róman, kannski væri hægt að kalla þessa bók esseyju-nóvellu, ég veit það ekki. Annars skipta skilgreiningar ef til vill ekki öllu máli með það, og reyndar er það auðvitað svo eftir tilkomu módernismans að merkingin í orðinu skáldsaga hefur víkkað mjög. En með sín c.a. 25.000 orð telst þessi bók líklega helst vera nóvella.“

Á þessu ári hafa komið frá þér tvær bækur, ljóðabókin Hér vex enginn sítrónuviður, og nú Suðurglugginn. Það hefur sem sagt gefist tími og næði til skrifa þrátt fyrir verðlaun Norðurlandaráðs?

„Mér skilst að ýmsir þeir sem hafa hlotið þessi verðlaun, eða kannski næstum að segja „lent undir“ þeim, hafi varla getað skrifað neitt í tvö ár eða meira vegna allskyns áreitis og truflana á þeirri andlegu bylgjulengd sem þarf að vera til staðar fyrir flesta svo þeir geti skrifað. Ég ákvað fljótlega að ég ætlaði ekki að láta þetta trufla mig of mikið, og fór þess vegna þegar frá leið að hafna boðum á hátíðir og slíkt til að finna tíma fyrir sjálfan mig. Ég hef hvort sem er aldrei haft mikla unun af bókmenntahátíðum, svo þetta var ekki svo erfitt fyrir mig. Eftir allt saman skiptir skrifborð meira máli fyrir höfund en pallborð á hátíð með tilheyrandi lárviðarsveigum.“

Greina má samsvarandi þræði í Suðurglugganum og í síðustu skáldsögu þinni, Sandárbókinni. Er Suðurglugginn að einhverju leyti systurbók hennar?

„Þeir sem eru búnir að lesa báðar bækurnar virðast margir líta á þær með þeim hætti. Einsog oft er hjá mér sá ég helst slíkt mynstur eftir á, en eðlilega eru þó nokkrir snertifletir þar sem í báðum tilvikum er verið að fjalla um sköpun. En að mínu mati er þó líka ýmislegt býsna ólíkt, og ég held að það sé ekki bara formið, heldur hafi þessi bók beinlínis tekið á sig töluvert annað form vegna mismunarins á inntakinu. En það tæki líklega nokkuð langan tíma að skýra það með viðunandi hætti. Ég hef hinsvegar ekkert á móti því að þessar bækur séu tengdar saman, og þræðirnir eru vissulega fyrir hendi.“

Gyrðir segir að í bókinni megi jafnframt finna hliðstæður með smásögu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, „Hvolpur“, sem hann las sem unglingur. „Þar er fjallað um mann sem glímir við að skrifa með takmörkuðum árangri líkt og minn sögumaður, þó að öðru leyti séu sögurnar reyndar alveg ólíkar. En fyrir listamann er þessi spurning um einveru og samfélag alltaf áleitin og verður í raun aldrei svarað í eitt skipti fyrir öll.“

En er ekki hætta á að innra lífið svelti ef maður neitar sér um samskipti við aðra?

„Að sumu leyti sveltur innra lífið einmitt ef maður neitar sér um einveru, ef hægt er að orða það svo, því hugurinn þarf líka ró óháður öðrum ef til dæmis á að koma einhverju á blað. Svo er hinn sjónarhóllinn, að samneyti við annað fólk er flestum nauðsyn. Þeir sem alveg hætta að umgangast aðra hafa yfirleitt  orðið fyrir miklum og djúpum vonbrigðum í lífinu. Mér fannst þetta áhugaverð nálgun, og vona að það hafi tekist að einhverju leyti að koma þessari „spennu“ til skila.“

Veruleikinn þolir alveg ferðalög inn á önnur svið

Draumar eru áberandi í verkinu og segir Gyrðir að þeir endurspegli að einhverju leyti andlega einangrun sögumannsins. „Að hann sé horfinn í sjálfan sig að því marki að hann lifi jafnt í draumum næturinnar og hversdeginum; nokkuð sem ég held að flest fólk forðist að viðurkenna að minnsta kosti, því draumar hafa verið teknir svo rækilega niður í tæknisamfélaginu að menn viðurkenna varla lengur að þá dreymi, hvað þá að þeir leggi einhverja merkingu, sálræna eða annars konar, í drauma sína. Ég held hinsvegar fast við það sem ég hef áður sagt, að draumar eru staðreynd; þeir eru hluti svefnsins, sem aftur tekur yfir allt að þriðjungi ævinnar hjá okkur, og þess vegna gæti verið ráð að gefa þeim aftur eitthvað af því innihaldi sem þeir höfðu áður fyrir fólk.“

Voru draumar mikið ræddir í uppvexti þínum?

„Já, ég ólst upp við að fólk ræddi drauma sína í alvöru sín á milli og reyndi að grafast fyrir um innihald þeirra, og sagði ekki: „Iss, þetta var bara draumur.“ Ég held að menn þurfi ekki að óttast neitt að missa sjónar á veruleikanum þótt þeir gefi meiri gaum að draumum. Veruleikinn fer ekki neitt, og þolir alveg smáferðalög inn á annarskonar svið.“

Svarti hundurinn geltir nokkuð í bókinni. Það er vissulega drungi í Suðurglugganum, en því verður ekki neitað að bókin er á köflum fyndin. 

„Það er rétt að þyngri tónar vegast á í bókinni við þau viðbrögð við tilverunni sem við köllum oft kímni, en er í grunninn oft einskonar varnarháttur til þess að bæði dylja og takast á við það sem undir liggur. Það eru semsagt skiljanlega til margar tegundir af húmor, hann sprettur af ýmsum orsökum og sálarástandi, og á hverju afbrigði hans er svo aftur ýmiskonar stigsmunur. Þar að auki er gamansemi mjög einstaklingsbundið hugtak, svo það sem einum þykir fyndið sér annar ekkert í. Ég veit ekki hvort mín tegund af húmor hefur breyst eitthvað að ráði gegnum árin, það verða aðrir að dæma um.“

Í samtali okkar síðast sagðistu gera þér grein fyrir því að margir sjái alls ekkert fyndið við bækur þínar, „bara einhvern drungalegan og niðurdrepandi texta.“

„Ég er að verða alveg búinn að sætta mig við að sumir sjái bara alls ekkert til að brosa yfir í textum mínum, en áður þótti mér það stundum dálítið leiðinlegt. Hitt er svo annað mál að húmor í texta er á vissan hátt afmarkað atriði, mikilvægt á margan hátt, en getur verið vandmeðfarið og margt annað í skrifum skiptir máli. Mér finnst oft núorðið að búið sé að þrengja hugtakið húmor verulega og óþægilega niður í einhvern „haha“ standard sem er í raun og veru bara ódulinn vúlgarismi, og það er í sjálfu sér ákveðið húmorsleysi að sjá engar aðrar tegundir af gamansemi.“

Sögumaður Suðurgluggans fer hörðum orðum um samtímann. Helstu tengsl hans við umheiminn liggja í gegnum útvarpið, sem flytur fréttir af styrjöldum, umhverfisslysum, spillingu og, að því er virðist, takmarkalausri græðgi. Bókinni hefur verið lýst sem hljóðlegri samfélagsádeilu, er eitthvað til í því?

„Það má kannski til sanns vegar færa á einhvern hátt, þótt ég reyni að forðast allan predikunartón. En það hefur víst verið þannig frá upphafi vega að skáld hafa talað um að þeirra samtími sé á fallanda fæti, til dæmis voru skáld Forn-Rómverja alveg viss um það mörg hver að allt væri að fara til fjandans á þeirra dögum. En svo er það spurningin sem kemur kannski að nokkru leyti inn á viðfangsefni bókarinnar; er nútíminn bara þessi andrá innra með okkur, þessi tími sem okkur er úthlutaður, eða er hann eitthvað áþreifanlegt sem við sem byggjum þessa plánetu í sameiningu á hverjum tíma búum til, meðvitað og ómeðvitað? Flestir vilja meina það í orði kveðnu, en samt held ég að ýmsir, ef þeir líta í eigin barm, mundu hneigjast til að líta svo á að veröldin hreinlega endi með dauða þeirra sjálfra. Eða einsog kóngurinn sagði af öðru tilefni:  „Ríkið, það er ég.“ Hve miklu máli skipta okkur í raun og veru þær þjáningar sem fréttamiðlar flytja okkur úr þessum sameiginlega heimi?“

Er nútíminn trunta? 

„Ef fréttir eru hinn raunverulegi spegill heimsins, þá er erfitt annað en svara spurningu þinni játandi!“


Viðtal: Davíð K. Gestsson

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson