Konur

„Fyrir hverja konu sem sest inn á þing, í forstjórastól, eða „smánar“ karla á annan hátt með völdum sínum eru framleiddar þúsund klámmyndir þar sem konur eru settar aftur á „sinn stað“, eru valdalausar, undirgefnar og yfirleitt niðurlægðar.“

konur(2)Steinar Bragi hefur sagt í viðtölum að hann hafi reynt að komast í tengsl  við sinn innri kvenhatara í fimmtu skáldsögu sinni Konur. Verkið vakti strax umtal meðan það var enn á handritsstigi,  en orðrómur um að hér væri á ferð tímamótaverk í íslenskum bókmenntum breiddist út eins og eldur í sinu áður en bókin sjálf kom út, skömmu fyrir jólin 2008.

Verkið fjallar um Evu Einarsdóttur, unga konu sem snýr aftur til Íslands eftir dvöl í New York. Henni hefur boðist að búa endurgjaldslaust í tæknivæddu háhýsi, þar sem fyllsta öryggis og eftirlits er gætt, við miðbæ Reykjavíkur.  Landið sem Eva snýr aftur til hefur orðið fyrir róttækum breytingum.  Sjómenn og fiskveiðar hafa vikið fyrir kaupahéðnum og verðbréfum, og glerturnar hafa risið þar sem áður voru lágreist bárujárnshús. Í Konum er dregin upp mynd af Íslandi augnabliki fyrir hrunið, þegar draumarnir um að Reykjavík yrði að gróðamiðstöð á hjara veraldar voru sem geðveikastir. Verkið er ádeila á öfgakenndan kapítalisma og gróðahyggju þar sem mannleg gildi víkja fyrir yfirborðsmennsku og siðblindu.

En verkið fjallar að sjálfsögðu líka um konur: hvernig kvenmaðurinn verður að sýningargrip í umhverfi nýfrjálshyggjunnar þar sem allt er falt. Eins og listamaður í verkinu segir: „Fyrir hverja konu sem sest inn á þing, í forstjórastól, eða „smánar“ karla á annan hátt með völdum sínum eru framleiddar þúsund klámmyndir þar sem konur eru settar aftur á „sinn stað“, eru valdalausar, undirgefnar og yfirleitt niðurlægðar.“ Eva hefur allt til alls í íbúð sinni, en í ljós kemur að íbúðin er fjarri því að vera sá aldingarður sem nafna hennar var gerð brottræk úr. Verkið skiptist í tvo hluta og í því má greina vissa díalektík þar sem skautað er meðfram glerjuðu yfirborði útrásarsamfélagsins í þeim fyrri, en í þeim seinni er skyggnst undir yfirborðið og við tekur súrrealísk martröð þar sem Eva er hlutgerð í grimmdarlegu nútímalistaverki.

Steinar Bragi tekur í þessu verki aftur upp vissan þráð úr fyrri verkum sínum þar sem umhverfi  höfuðborgarinnar einkennist af annarleika sem jaðrar við óhugnað. Hann hefur lýst því hvernig hann eigi í ógeðfelldu sambandi við tungumálið; hvernig ákveðinn viðbjóður er innbyggður í sköpunarferlið þar sem hann þarf að þvinga óhlutbundnum hugmyndum inn í hið ritaða mál. Það má líta svo á að þetta samband skili sér í þeim undirliggjandi óhugnaði sem einkennir Konur og fyrri verk hans. Þessi óhugnaður magnast upp eftir því sem líður á verkið og brýst fram í mögnuðum seinni hluta þess. Steinar Bragi hefur með þessari þjóðfélags- og menningarádeilu komið með bráðnauðsynlegt andsvar við því andrúmslofti sem einkenndi Ísland fram að hruninu í október 2008.