Erró – Mannlýsingar

„Í næstum öllum málverkum mínum er saga einhvers, saga persónu, hlutar eða vélar.“

Tuttugu ár eru liðin frá rausnarlegri listaverkagjöf Errós, eins fremsta myndlistarmanns Íslands, til Listasafns Reykjavíkur. Í tilefni af því er nýútkomin glæsileg bók tileinkuð portrettmyndum hans.

ErroMannlysingar(c)Erró (Guðmundur Guðmundsson, f. 1932) er þekktasti samtímalistamaður Íslendinga. Hann hefur verið í broddi fylkingar svokallaðrar frásagnarlegrar fígúrasjónar í myndlist frá því hann settist að í Frakklandi, eftir að hafa lært myndlist í Reykjavík, Osló og Flórens.  Hann hefur verið virkur þátttakandi í framúrstefnulegri listsköpun í Parísarborg síðan 1958 og hafa verk hans verið tekin til sýninga víðs vegar um heiminn. Hann býr og starfar í París, Tælandi og á Spáni.

Bókin Erró – Mannlýsingar er gefin út í tilefni af tuttugu ára afmæli listaverkagjafar Errós sem hann færði Reykjavíkurborg árið 1989. Árið 2009  verður tileinkað þessari glæsilegu gjöf eins fremsta listamanns Íslands og verða haldnar nýjar sýningar og  fjölbreyttir viðburðir á verkum hans í Listasafni Reykjavíkur. Útgáfa bókarinnar fylgir samnefndri sýningu sem opnuð var þann 28. maí.

Bókinni er ritstýrt af Danielle Kvaran sem er fyrst til að gegna sérstakri rannsóknarstöðu sem stofnuð var við safnið í tilefni af afmælinu. Bókin og sýningin eru afrakstur mikillar rannsóknarvinnu hennar en Errósafn Listasafns Reykjavíkur er gríðarstórt og yfirgripsmikið. Í dag telur það um 3000 verk og fer vaxandi þar sem Erró hefur bætt við safnið listaverkum og ýmsum gögnum á þeim tuttugu árum sem liðið hafa frá því að hann færði safninu gjöfina.

Bókin (og sýningin) er tileinkuð portrettmyndum, eða mannlýsingum, Errós og í henni eru dregin saman verk sem unnin voru á árunum 1963-2007.  Bókinni er skipt upp eftir fimm meginþemum sem tengjast sýningunni í aðalrými safnsins: Stjórnmál, myndlist, bókmenntir, tónlist og vísindi. Til viðbótar er fjallað um fimm málverkasyrpur sem dregnar eru saman í síðari helmingi bókarinnar: Les Monstres (Skrímslin), Les lettres d‘amour japonaises (Japönsk ástarbréf), Les Cosmonautes (Geimfararnir), Les Nord-Africaines (Norður-afrísku stúlkurnar) og Les poupées (Brúðurnar). Undir lokin eru teknar fyrir þrjár kvikmyndir Errós, til að fullkomna yfirlitið yfir portrettverk hans; myndirnar Mary Monster (Mary skrímsli), Stars (Stjörnur) og Faces (Andlit).

Halldor(portrett)Myndverk Errós fela ávallt í sér ríkulega frásögn, portrettmyndirnar sem birtar eru á síðum bókarinnar eru engin undantekning frá því. Erró hefur oft verið lýst sem fréttaritara, sagnfræðingi, skjalaverði eða heimildafræðingi.  Hann er ötull safnari myndbrota og heimilda og í portrettmyndum hans má sjá hvar hann teflir saman óvæntum myndtilvísunum. Úr árekstrum ólíkra mynda verða til margþættar frásagnir sem taka oftar en ekki á sig pólitískan blæ þar sem listamaðurinn dvelur ekki við hina hefðbundnu amerísku „popp“-nálgun; að spegla yfirborð nútímaneyslusamfélaga, heldur dregur hann fram það sem liggur undir því í frásögn á striga.

Danielle Kvaran ritar ítarlegan og upplýsandi inngang en auk hans eru teknar saman greinar og glefsur frá innlendum jafnt sem erlendum höfundum í tengslum við hvert þema. Bókin er 160 bls. og kemur í stóru broti, þar sem aragrúi mynda nýtur sín vel.  Við hlið valinna verka eru birtar klippimyndirnar sem Erró útbjó áður en verkin voru máluð á stærri fleti, veitir bókin því forvitnilega innsýn inn í verkferli hans.

Samhliða útgáfu bókarinnar hér á Íslandi er hún gefin út í Frakklandi, en samningar tókust á milli Bókaútgáfunnar Opnu og franska forlagsins Hazan um útgáfu verksins þar í landi.