Skaparinn

Skáldsagan Skaparinn eftir Guðrúnu Evu er frásögn um einmanaleika og firringu og segir frá þjófnaði vandaðrar kynlífsdúkku. Hér les Guðrún Eva upp úr bókinni, ásamt umfjöllun um verkið.


Guðrún Eva Mínervudóttir vakti fyrst athygli á sér árið 1998, fyrir smásagnasafnið Á meðan hann horfir á þig ertu María Mey – þá aðeins tuttugu og tveggja ára. Í dag er hún á meðal fremstu rithöfunda sinnar kynslóðar á Íslandi og hafa bækur hennar að auki hlotið athygli utan Íslands. Á meðan hann horfir á þig ertu María Mey kom út í franskri þýðingu árið 2008 og metnaðarfull skáldsaga hennar Yosoy - Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafossi var gefin út í ítalskri þýðingu árið 2007, við mikið lof þarlendra gagnrýnenda.

skaparinnNýjasta skáldverk hennar, Skaparinn, hlaut afar góðar viðtökur þegar það kom út. Gagnrýnandi Morgunblaðsins, Soffía Auður Birgisdóttir, sagði bókina vera vafalítið þess megnug að vekja athygli á Guðrúnu Evu á alþjóðlegum vettvangi. „Frásögnin grípur lesandann allt frá fyrstu síðu enda er atburðarásin bæði margbreytileg og spennandi.“ Páll Baldvin Baldvinsson, gagnrýnandi Fréttablaðsins, var sömuleiðis hrifinn og gaf henni fjórar stjörnur. „Frásagnarháttur Guðrúnar í hlutverki alviturs sögumanns er býsna ágengur persónunum,“ sagði hann um tök hennar á frásögninni. „Hún smeygir sér í þel þeirra, þreifar á ástandi sálar og líkama sinn eftir sinn, reynist ótrúlega fundvís og skörp í skynjun og tjáningu á stöðum, stellingum, raka húðar, geðsveiflum, skannar af skáldlegri íhygli líkama og sál persónanna.“

Þýðingarréttur Skaparans var seldur til þýska bókaforlagsins btb síðla árs 2008. Bókin er einnig væntanleg í ítalskri þýðingu hjá forlaginu Scritturapura og hefur breska forlagið Portobello að auki fest kaup á útgáfurétti hennar, sem telst til mikilla tíðinda þar sem aðeins 3% bóka sem koma út á Bretlandseyjum eru þýddar, þá einkum spennusögur eða bækur almenns efnis.

Í Skaparanum standa tvær aðalpersónur í forgrunni frásagnarinnar: Sveinn og Lóa. Sveinn er kynlífsdúkkusmiður – sérvitur einfari sem helgar sjálfan sig óvenjulegri starfsgrein sinni að fullu. Lóa er einstæð tveggja barna móðir á barmi taugaáfalls. Unglingsdóttir hennar, sem þjáist af lystarstoli, hefur snúið baki við umheiminum og lokað sig af í herbergi sínu þar sem hún sveltir sig í hel. Leiðir Lóu og Sveins mætast þegar springur á dekki á bíl Lóu fyrir utan heimili hans og vinnustofu. Sveinn ákveður að rjúfa einangrun sína eftir langa vinnutörn og býður Lóu hjálparhönd, sem endar með því að hún rænir nýjasta sköpunarverki hans; svarthærðri kynlífsdúkku, en hún telur að fullorðinsleikfangið geti læknað dóttur sína af líkamsfóbíunni.

Sveinn hefur lifibrauð sitt af einmanaleika annarra karlmanna; hann smíðar ískyggilega raunverulegar eftirmyndir kvenna, sem byggðar eru á bjöguðum fegurðargildum nútímaneyslusamfélags. Dúkkurnar eru sniðnar eftir stöðluðum órum og til þess gerðar að karlmenn, sem það kjósa, fái kynferðislegum hvötum sínum fullnægt með lágmarks fyrirhöfn og mótþróalaust. Það er þessi einmanaleiki, firring og örvænting sem liggur sögunni til grundvallar. Sveinn veltir fyrir sér ævistarfinu og gerir tilraunir til að réttlæta dúkkur sínar fyrir sjálfum sér, og Lóa, sem starfar á auglýsingastofu, lýsir því hvernig hún hafi lengi haft það á tilfinningunni að líf hennar skorti mikilvægi og í örvæntingarfullri tilraun til að lækna dóttur sína af sjúklegri fólksfælni og lystarstoli grípur hún til þess ráðs að þröngva upp á hana afurð klámvæðingar.

Líkt og í fyrri skáldsögu Guðrúnar Evu, Yosoy, þá er mannslíkaminn sjálfur mikilvægt viðfangsefni sögunnar, þar sem leikið er með óhugnaðinn og ókennileikann sem er samofinn nákvæmum eftirlíkingum manneskja. Í Skaparanum hverfur Guðrún Eva aftur á móti frá stórbrotnum frásagnarstíl Yosoyþar sem athygli lesandans dreifðist yfir stærra persónugallerí. Skaparinn er hnitmiðað verk, haganlega sett saman, og umfram allt skrifað af einstakri næmni eins eftirtekarverðasta rithöfundar Íslendinga síðari ára.