Algleymi

Þriðja skáldsaga Hermanns Stefánssonar er á margan hátt einstakt verk í íslenskum bókmenntum. Liður í höfundarverki þar sem innleiddar hafa verið hugmyndir og nálganir sem áður voru óþekktar í skáldskap hér á landi.

Hermann StefánssonÓhætt er að segja að Hermann Stefánsson sé einn af athyglisverðari rithöfundum sem komið hefur fram á sjónarsviðið í íslenskum bókmenntum undanfarin ár. Frá honum hafa komið þrjár skáldsögur, ein ljóðabók, Borg í þoku (2006), og menningarfræðiritið Sjónhverfingar (2003) þar sem sótt er í meginlandsheimspeki Evrópu í frumlegri könnun á íslenskum veruleika. Í verkum hans má greina ákveðna tegund af nýbreytni sem ekki hefur borið mikið á í íslenskum skáldskap, en Hermann hefur oft verið talinn til íslenskra póstmódernista í bókmenntaumfjöllun.

Algleymi (2008) er þriðja skáldverk Hermanns og jafnframt þriðja bók hans sem fjallar um parið Guðjón Ólafsson og Helenu. Í upphafi verksins rankar rithöfundurinn Guðjón Ólafsson við sér þar sem hann liggur á sjúkrabeði. Hann hefur misst minnið og með því tökin á málinu. Hann veit ekki hvað varð til þess að hann endaði á sjúkrahúsi, slys eða jafnvel árás. Smám saman nær hann aftur tökum á tungumálinu og hefst handa við að raða saman brotunum á ný. Í endurhæfingaferlinu þarf Guðjón að læra líf sitt upp á nýtt, faðir hans reynir af veikum mætti að aðstoða hann, á meðan Helena gefst upp og fer út á land að þýða glæpasögu. Eftirköst minnisleysisins eru þau að Guðjón missir tök á sjálfi sínu, vitund í tíma og rúmi, og fer á stjórnlaust flakk um mannkynssöguna. Við sögu kemur svo tilraunin umdeilda í CERN-rannsóknarstöðinni, þar sem til stendur að endurskapa miklahvell sjálfan, þegar svissneskur vísindamaður hyggst virkja tímaflakk Guðjóns í þágu vísindanna.

Fyrsta saga Hermanns, Níu þjófalyklar (2004), var tilraunakennt smásagnasafn/skáldsaga þar sem mörkin milli skáldskapar og veruleika voru könnuð. Verkið vakti töluverða athygli þegar það var gefið út, einkum vegna þess að í bókinni er unnið með skáldverk annarra þekktra einstaklinga úr íslenskum bókmenntaheimi þar sem setningar úr sögu eftir Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra og seðlabankastjóra, rata inn í verkið og rithöfundurinn Ólafur Jóhann Ólafsson birtist í öllum sögunum sem persóna, en titill bókarinnar vísar til smásagnasafns hans Níu lyklar sem kom út árið 1986. Hermann tók aftur upp þráðinn í skáldsögunni Stefnuljós (2005), þar sem aðalpersónur Níu þjófalykla, Guðjón Ólafsson rithöfundur og kærasta hans Helena, mættu aftur til leiks. Stefnuljós, líkt og Níu þjófalyklar, var nýstárlegt skáldverk í íslenskum bókmenntum þar sem höfundurinn beitti á ný sjálfsvísandi frásagnartækni á meðvitaðan hátt; þessi verk eru svokallaðar sjálfssögur, bókmenntaverk þar sem lesandinn er sífellt minntur á að hann er að hann er að lesa skáldaðan texta og leikið er með tilvísunareiginleika skáldskapar.

AlgleymiÍ Algleymi rær Hermann á sömu mið; árekstrarnir milli skáldskapar og raunveruleika spila hér lykilhlutverk, en í verkinu eiga átökin sér fyrst og fremst stað innan vitundar aðalpersónanna, Guðjóns og Helenu. Hermann tekur jafnframt til skoðunar sjálfa mannkynssöguna og skilning okkar á henni; hvað er rétt og rangt, sannindi eða uppspuni valdsmanna hvers tímabils. Bókinni er lýst sem ‚hugmyndatrylli‘ á baksíðu kápunnar, sem gefur nokkuð góða mynd af því við hverju lesendur megi búast við af henni þar sem ótal spennandi hugmyndum ægir saman í frásögninni, hvort sem þær snúa að skammtafræði eða skilningi mannsins á framvindu mannkynssögunnar. Þrátt fyrir átakanlegt ástand Guðjóns og eðlisfræðikenningar sem hljóma eins og tær vísindaskáldskapur í eyrum ólærðra leikur léttleiki og glettni um frásögnina, kímnigáfa Hermanns nýtur sín vel í sögunni líkt og í fyrri bókum hans. Algleymi er á margan hátt einstakt verk í íslenskum bókmenntum, liður í höfundarverki Hermanns sem innleitt hefur á meðvitaðan hátt hugmyndir og nálganir sem áður voru óþekktar í skáldskap hér á landi.

Gagnrýnendur voru sammála um gæði verksins, og töldu sumir að Algleymi væri brautryðjendaverk í íslenskum bókmenntum og að Hermann Stefánsson sé frumkvöðull á sviði sjálfsvísandi bókmennta á Íslandi. Bókmenntafræðingurinn Gunnþórunn Guðmundsdóttir hafði þetta um hana að segja, í umfjöllun sinni á bókmenntavefnum: „Og eins og í tryllum af öðru tagi er lesandinn áfjáður í að komast að því hvað gerðist [...] Í sögunni er svo þessi gleymska og vitundarbrenglun sett í samhengi við skammtafræði svo úr verður skemmtileg pæling um tímaferðalög, skáldskap, ímyndun, heilaskaða og sérkennilega afkima skammtafræðinnar.“ Hjalti Snær Ægisson bar kennsl á framsækni verksins í dómi sínum í menningarþættinum Viðsjá (RÚV): „Ögrandi skáldsaga [...] Algleymi [er], ásamt tveimur fyrri sögum höfundarins, sannkallað brautryðjendastarf. Hermann Stefánsson er í óðaönn við að innleiða bókmenntagrein sem er áður óþekkt í íslenska bókmenntakerfinu.“ Og bókmenntafræðingurinn, ritstjórinn og rithöfundurinn Þröstur Helgason sagði einfaldlega að: „Hermann Stefánsson hefur skrifað skáldsögu sem þið verðið að lesa.“