Útkall - Árás á Goðafoss

Átakanleg örlög Íslendinga og Þjóðverja

Bók um árás þýska kafbátsins U-300 á stolt íslensku þjóðarinnar, Goðafoss, þar sem lýst er átakanlegum örlögum Íslendinga og Þjóðverja. Í bókinni er skyggnst í leyniskjöl og frásagnir kafbátsmanna en um leið varpað ljósi á lífshætti Íslendinga í síðari heimsstyrjöldinni.

10. nóvember 1944 er Goðafoss á leið heim til Íslands í skipalest bandamanna eftir tveggja mánaða ferð til New York. Goðafoss er stærsta vöru- og farþegaskip íslenska flotans, stolt þjóðarinnar. Um borð eru 43 Íslendingar og 20 Bretar sem hálftíma áður hafði verið bjargað af logandi olíuflutningaskipi.

Goðafoss - útsýniFréttin um að Goðafoss sé á leið heim er farin að spyrjast út í Reykjavík. Eftirvænting ríkir meðal aðstandenda skipverja og farþega. En enginn veit að skammt undan, í mynni Faxaflóa, leynist þýskur kafbátur. Þegar Goðafoss á eftir tveggja stunda siglingu og Reykjavík er í augsýn skellur tundurskeyti á bakborðssíðunni. Risastórt gat myndast ... skipið sekkur á um sjö mínútum. Börn og fullorðnir berjast fyrir lífi sínu í ísköldu Atlantshafinu. Þegar fréttin um afdrif skipsins berst til Reykjavíkur streymir fólk í angist niður að höfn. Óvissan er nagandi. Nítján Íslendingar bjargast en aðeins tveir Bretar. Stærsti missir Íslendinga í heimsstyrjöldinni síðari er staðreynd.

Höfundurinn, Óttar Sveinsson, hefur sérhæft sig í sögulegum frásögnum. Hann hefur gefið út sextán bækur sem allar fjalla um sanna atburði í lofti, á láði og á legi þar sem fólk kemst í lífshættu. Á hverju einasta ári frá 1994 hafa bækur Óttars setið á listum yfir söluhæstu íslensku bækurnar. Þær hafa meðal annars verið þýddar á ensku, hollensku og dönsku. Árið 1995 setti bandaríska kvikmyndafyrirtækið Rescue 911 í Hollywood á svið frásögn í bók Óttars af björgun vélsleðafólks á Snæfellsjökli sem fallið hafði í hyldjúpa jökulsprungu. Óttar hefur einnig átt samstarf við BBC, Readers Digest og fleiri kvikmyndafyrirtæki.

GoðafossÍ einni af bókunum segir frá giftusamlegri björgun á fólki og stórum hluta af eignum eyjarskeggja þegar gosið hófst í Heimaey 23. janúar 1973. Rúmlega 5000 manns voru ferjaðir burt frá eynni á einni nóttu. Önnur bóka Óttars greinir frá björgun áhafnar farþegaflugvélarinnar Geysis DC-4 sem hafði verið saknað í hátt í viku þegar skyndilega heyrist óvænt neyðarkall – ,,Allir á lífi, staðarákvörðun ókunn“. Vélin hafði þá nauðlent og týnst á toppi Vatnajökuls.

Óttar Sveinsson er fæddur í Reykjavík 14. október 1958. Hann starfaði og nam í Svíþjóð og Danmörku á áttunda áratugnum og árið 1988 hóf hann störf sem blaðamaður á DV. Árið 1994 kom fyrsta bók hans út. Þar voru frásagnir af ýmsum björgunarafrekum þyrlusveitar Landshelgisgæslunnar. Varð sú bók strax vinsæl. Óttar er búsettur í Hamborg og Reykjavík og vinnur við ritstörf og útgáfumál. Árið 2003, er hann hætti störfum sem blaðamaður, stofnaði hann með frænda sínum sitt eigið forlag, Útkall.

Um jólin verður frumsýnd kvikmynd sem byggð er á sömu atburðum og greint er frá í Útkall - árás á Goðafoss en bókin kom fyrst út árið 2003. Sagan í bókinni var að mestu óþekkt í sögu samskipta Íslendinga og Þjóðverja. Íslenskir fjölmiðlar líktu atburðinum á sínum tíma við það þegar Titanic sökk.

Útkall - ÁrásÍ bókinni Útkall - árás á Goðafoss er dregin upp mynd af lífsháttum Íslendinga í síðari heimsstyrjöldinni. Ljósi er varpað á fjölmargt fólk sem tengdist árásinni. Í bókinni lýsir Óttar síðustu ferð Goðafoss, m.a. með viðtölum við eftirlifandi skipverja, farþega og aðstandendur. Einnig koma fram margar áður óbirtar upplýsingar um árásarferð þýska kafbátsins U-300 til Íslands. Athyglisverðar upplýsingar um heimsókn Marlene Dietrich til Íslands koma fram – hún er stödd á Íslandi í tónleikaferð á sama tíma og Goðafoss lætur úr höfn í síðasta skipti. Þá hittir hún meðal annarra Svein Björnsson, forseta Íslands – hann hefur þá, sem nýbakaður fyrsti forseti lýðveldisins, nýlega hitt Roosevelt Bandaríkjaforseta í Washington. Í þeirri ferð fær forsetinn glæsilega Packardbifreið sem send er til New York ... um borð í Goðafoss. Skipið á svo eftir stuttan spöl í mynni Faxaflóa þegar árásin er gerð. Einnig birtast í bókinni upplýsingar úr dagbók U-300 kafbátsins, leyniskjöl, bréf og frásagnir kafbátsmannanna sjálfra. Þá er birt efni úr yfirheyrsluskýrslum Breta og Bandaríkjamanna – eftir að áhöfn U 300 hafði komist af á ævintýralegan hátt þegar bandamenn sökktu kafbátnum – og ljósmyndir sem margar hafa aldrei birst áður hérlendis.

Bókin Útkall - árás á Goðafoss, sem fjallar um örlög skipverjanna á Goðafossi og þýska kafbátsins, var á meðal söluhæstu bóka á Íslandi. Þessi dramatíski atburður í sögu Þjóðverja og Íslendinga tengist örlögum fólks frá báðum löndum og því er frásögnin áhugaverð söguleg heimild. Beggja vegna Atlantsála, meðal annars í Hamborg og Reykjavík, eru menn úr áhöfnum Goðafoss og U-300 enn á lífi.