Himnaríki og helvíti

Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson hefur nú þegar verið þýdd á fjölmörg tungumál og er höfuðbók Reclam forlagsins í Þýskalandi vorið 2009.

himnaríki og helvíti - kápaHimnaríki og helvíti er sjötta skáldsaga Jóns Kalmans Stefánssonar. Hún hlaut einróma lof gagnrýnenda þegar hún kom út fyrir jólin 2007 og hefur nú þegar verið þýdd á sænsku, dönsku, þýsku, frönsku og nýverið keypti bókaforlaðið Maclehose Press þýðingarréttinn á útgáfu verksins á ensku. Bókin er höfuðbók (leading title) Reclam forlagsins í Þýskalandi vorið 2009.

Í verkinu er lesandinn dreginn inn í lítið sjávarþorp á Vestfjörðum fyrir um hundrað árum síðan þar sem ósyndir sjómenn róa út á hafið og gefa sig óblíðri veðráttu Íslands á vald. Í miðju frásagnarinnar er ungur, nafnlaus maður sem er ekki kallaður annað en ‚strákurinn‘ og vinur hans Bárður, en þeir stunda saman sjóróður á sexæringi. Tvíeykið er á skjön við samferðarmenn þeirra í sjávarplássinu þar sem þeir eru með eindæmum bókhneigðir og leyfa sér að gleyma harðri lífsbaráttunni meðan þeir sökkva sér í skáldskap. Drenginn þyrstir í eitthvað annað og meira heldur en það sem harðneskjulegt sjómannalífið býður upp á, hugurinn reikar um heima og geima og þráin til að lesa bækur, læra tungumál og víkka sjóndeildarhringinn er öllu öðru sterkari.

Líkt og í fyrri verkum Jóns Kalmans fjallar Himnaríki og helvíti um liðna veröld; íslenskan veruleika sem hefur orðið smám saman framandi, en ólíkt sveitasagnaþríleiknum sem samanstóð af verkunum Skurðir í rigningu (1996), Sumarið bakvið Brekkuna (1997) og Birtan á fjöllunum (1999) er ekki sama gamansama tóninn að finna í Himnaríki og helvíti. Í þessu verki, þar sem frásögnin hverfist um hið grundvallar andstæðupar lífið og dauðann, ræður alvaran ríkjum.

Himnaríki og helvíti fjallar ekki einungis um lífsmáta sem hefur orðið fjarlægur í lífi nútíma Íslendinga, verkið tekst á við hið háleita og óáþreifanlega, efnislegan veruleika og togstreituna þar á milli. Tungumálið er í stóru hlutverk í verkinu, en þar skín í gegn hinn ljóðræni  stíll sem Jón Kalman er orðinn þekktur fyrir í skáldverkum sínum, þar sem textinn, laus við alla tilgerð, hrífur lesandann með sér inn í heiminn sem sniðinn er á síðum bókarinnar.