Snorri Sturluson 1179-1241

Ævi eins merkasta manns sem uppi hefur verið á Íslandi hefur í fyrsta skipti verið fest niður í heilsteypta sögu. Ævisaga Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson er merkur áfangi í miðaldafræðum.

Fyrsta heildstæða ævisagan

Snorri-175x260Fyrir síðustu jól kom út bók Óskars Guðmundssonar um ævi Snorra Sturlusonar. Þessi fyrsta heildstæða ævisaga eins þekktasta og áhrifamesta manns sem uppi hefur verið á Íslandi fyrr og síðar var á meðal mest seldu bóka jólavertíðarinnar síðustu og með henni hefur einn merkasti Íslendingur allra tíma verið færður nær nútímalesendum í aðgengilegu og vönduðu verki sem markar tímamót í umræðunni um þennan margbrotna mann.

Snorri Sturluson var einn fyrsti nafngreindi rithöfundur þjóðarinnar og líklega hefur enginn annar Íslendingur markað jafn djúp spor í menningarsögu norrænna þjóða og hann. Framlag hans til heimsbókmenntanna hefur haft gríðarleg áhrif á sjálfsmynd norrænna þjóða og óma verk hans enn í samtíma okkar í ýmsum myndum. Hann hélt til haga germönskum menningararfi og ef ekki væri fyrir það starf hans væri skilningur okkar á menningu miðalda til muna fátæklegri. Þekktasta rit hans er án efa Snorra-Edda, þar sem norræn goðafræði er skrásett, og er verkið ein helsta heimild sem til er um heimsmynd heiðinna manna á miðöldum. Snorri var ekki einungis skáld og sagnaritari heldur var hann einnig einn valdamesti maður þjóðarinnar á 13. öld. Hann var í senn stjórnmálamaður, sagnaritari og skáldjöfur, með valdatengsl sem náðu um allt Ísland og til meginlands Evrópu.

Óskar Guðmundsson var vel í stakk búinn til að takast á við þetta mikla verk; að koma ævi manns sem uppi var fyrir tæplega átta öldum síðan í heilsteypt form. Hann starfaði um árabil sem blaðamaður og ritstjóri á ýmsum miðlum og í hálfan annan áratug hefur hann unnið sem sjálfstætt starfandi fræðimaður og komið að útgáfu fjölda verka sem ritstjóri og höfundur. Á áttunda áratugnum stundaði hann nám í sagnfræði, bókmenntum og þjóðfélagsfræði í háskólum hér á landi, Þýskalandi og Danmörku en hann hefur unnið við miðaldarannsóknir um þónokkurt skeið. Vinna hans við ævisögu Snorra hófst fyrir tæplega tíu árum síðan en á meðan vinnu hans við verkið stóð komu frá honum sjö bindi um miðaldirnar á Íslandi í bókaflokkinum sígilda Aldirnar árin 2000-2004 þar sem fjallað er um tímabilið frá landnámi Íslands til 15. aldar. Ævisöguna ritaði hann í eins mikillri nálægð við Snorra sjálfan og seinnitímamönnum er unnt, en síðustu sex ár hefur hann verið búsettur í Reykholti í Borgarfirði, á dvalarslóðum Snorra til forna, þar sem nú er rekið menningar- og fræðasetur honum tileinkað.

Fjölþjóðlegt og menningarlegt uppeldi

snorrstu-216x324Óskar rekur ævi Snorra frá bernsku, þegar hann var tekinn í fóstur á menntasetrinu í Odda árið 1181, og þar til hann var veginn árið 1241, um miðja Sturlungaöld. Í bókinni er varpað ljósi á þann fjölþjóðlega bakgrunn sem menntun Snorra í Odda færði honum. Þar komst hann í snertingu við kaþólska heimsmenningu en á mótunarárum hans náðu einnig valdabrölt konunga í Noregi og deilur milli ríkis og kirkjuvalds í Evrópu inn á gafl hjá honum.

Óskar bendir á að á tímum Snorra brúaði tungumál Íslendinga bilið milli eyjunnar og meginlandsins þar sem norrænar þjóðir áttu á þessum tíma sameiginlega tungu. Menntun Snorra, bakgrunnur hans og víðþekkt færni á sviði skáldskapar urðu til þess að hann komst í náið samband við norska konungsveldið, varð að hirðskáldi þess og síðar að lendum manni (æðsta tign handgenginna manna konungs). Líkt og svo margir aðrir Íslendingar á undan honum reis Snorri upp metorðastigann erlendis með kveðskapinn að vopni.

Verkið dregur upp skýrari og um leið persónulegri mynd af Snorra heldur en áður hefur þekkst þar sem meðal annars er skyggnst inn í dramatískt fjölskyldulíf hans, samband hans við eiginkonur, frillur og afkvæmi.

Ofbeldisfyllsta skeið Íslandssögunnar

Bókin er ekki einungis saga Snorra, hún er einnig athyglisverð lýsing á samtíma hans þar sem dregin er upp lifandi mynd af tíðaranda á Íslandi um miðaldir. Á þeim tíma sem Snorri rís upp sem auðugasti valdamaður Íslands ríkir á landinu mikil vígatíð – Sturlungaöld – henni hefur verið lýst sem ofbeldisfyllsta skeiði Íslandssögunnar, tíma borgarastyrjaldar þar sem skyldmenni vógu hvert annað á víxl. Óskar Guðmundsson dregur upp skýra mynd af þeim atburðum sem urðu til þess að Íslendingar voru seinna dregnir undir norska krúnu og þátt Snorra í þeim.

Snorri var merkilega diplómatískur af manni sem uppi var á riddaraöld þar sem hefndar- og heiðursmorð voru daglegt brauð, enda var hann dæmdur sem heigull af sumum samtímamönnum sínum. Á undraverðan hátt þandi hann út veldi sitt og varð að auðugasta manni Íslands án þess að grípa til vopna nokkurn tíma sjálfur. Meginheimildin um ævi Snorra, Sturlunga saga, ber keim af ríkjandi viðhorfi miðaldamanna til valdsmennsku þar sem Snorri er leynt og ljóst hafður að háði vegna meints heigulskapar. Óskar tekst á við þetta viðhorf í bókinni og þá gagnrýni sem Snorri varð fyrir frá samtíðarmönnum hans í viðleitni til að birta eins raunsanna mynd af þessum sögufræga manni og unnt er öllum þessum öldum síðar.

Mikilvægur áfangi í miðaldafræðum

Verkið fer vandlega yfir ævi þessa merka manns frá vöggu til grafar og róstusömu umhverfi hans á aðgengilegan og skýran hátt. Mikið hefur verið ritað um manninn í fræðigreinum og bókum, en nú, í fyrsta skipti, hefur ævi hans verið fest niður í heilsteypta sögu. Gagnrýnendur hafa lýst bókinni sem afreki. Einar Falur Ingólfsson hjá Morgunblaðinu gaf bókinni fjórar og hálfa stjörnu af fimm mögulegum: „[Óskar hefur] einsett sér að skrifa sögu sem er læsileg, forvitnileg, og ennfremur spennandi, og það tekst honum vel. Í raun er ekki annað hægt er dást að þeirri samfellu sem er í frásögninni [...]. Óskar gæðir frásögnina lífi og lit með sviðsetningum og hugleiðingum um aðstæður, menn og málefni.“ Og Páll Baldvin Baldvinsson, gagnrýnandi Fréttablaðsins, sagði að verkið væri mikilvægur áfangi í miðlun miðaldafræða: „Óskar getur fagnað frábærlega könnuðu verki, [...] hann er skýr í frumlegum eða aðsóttum túlkunum á stjórnmálalegum og hagfræðilegum breytingum, ljósi bregður hann á hin flóknu tengsl og er ekki ólíklegt að nú brenni í akademíunni nokkur öfund er Óskar stendur keikur í sínu virki: Þetta tókst mér vel.“