Ragna Sigurðardóttir

Textinn þvingaði sér inn í myndlist hennar þar til hún beindi honum í farveg skáldskapar. Ragna hefur, með sérstæðri myndvísi og tilraunagleði, óneitanlega fært nýjan tón í íslenska skáldsagnagerð.

Ragna SigurðardóttirFyrstu skáldsögu Rögnu Sigurðardóttur, Borg, hefur verið lýst sem bókmenntalegum viðburði og afreki í ritdómum og fræðilegri umfjöllun frá því hún kom út snemma á tíunda áratugnum. Bókin vakti töluverða athygli á sínum tíma og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1993. Þessi tilraunakennda skáldsaga, þar sem snertiflötum bókar og borgar er snúið upp, beindi jafnframt sviðsljósinu að ungum rithöfundi sem síðarmeir átti eftir að festa sig í sessi meðal fremstu höfunda þjóðarinnar með skáldverkum sem hafa óneitanlega fært nýjan tón í íslenska skáldsagnagerð.

Ragna, fædd í Reykjavík árið 1962, er menntuð í myndlist. Hún lærði við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1985-1989 og stundaði framhaldsnám við Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi 1989-1991. Frá árinu 2002 hefur hún gagnrýnt íslenska myndlist fyrir Morgunblaðið auk þess að skrifa um myndlist og listamenn fyrir tímarit, söfn og sýningarstaði. Áður en hún einbeitti sér að ritstörfum hafði hún unnið með texta á margvíslegan hátt í ólíkum miðlum í myndlist sinni. Í nýlegu viðtali við Morgunblaðið lýsti hún því hvernig skrifin læddu sér stöðugt inn í myndverkin; allur þessi texti hafi í raun orðið að vandamáli, sem varð til þess að hún sneri sér að ritstörfum að fullu. Bersýnileg næmni Rögnu fyrir myndrænni framsetningu frásagna, sterkt formskyn og tilraunagleði bera glöggt vitni um þennan bakgrunn hennar.

„Borgin er allar borgir“

Borg_1993-175x264Áðurnefnd bók Rögnu, Borg, er fyrir margar sakir merkilegt skáldverk í íslenskum bókmenntum. Frásögnin hverfist um þrjár persónur: Úllu, hreinræktað borgarbarn, frumu í borgarlíkamanum, sem fædd er þar og uppalin; Loga, auglýsingahönnuð, ofurveruleikaskáld neyslumenningarinnar; og Vöku, málvísindanema og þýðenda, sem er aðflutt og á skjön við áreynslulausu borgarverurnar Loga og Úllu. Saman mynda þessi leitandi ungmenni ástarþríhyrning á tímum alltumlykjandi fjölmiðlavalds.

Tíminn sem sagan gerist á er óljós og staðsetningin, borgin sjálf, er að sama leyti óræð; hún er íslensk en á sama tíma samansett úr öðrum vestrænum stórborgum með tilheyrandi sigurbogum, fátækrahverfum og mengun. Þessi borg, kunnugleg og framandi í senn, er burðarvirki frásagnarinnar og í raun fjórða aðalpersóna hennar. Bókina mætti kalla fantasíu að því leyti að í henni á sér stað blöndun á veruleika og ímyndun. Hin íslenska stórborg, sem hefur enn ekki orðið að raunveruleika, lifnar við á blaðsíðum hennar og lesandinn les sig inn í textann á sama hátt og hann þræðir götur borgar.

Snúið á samtímann

Í annari skáldsögu Rögnu, Skot (1997), er snúið hugvitsamlega á hið þrautreynda glæpasagnaform. Sagan fjallar um íslenska konu sem starfar í Rotterdam í Hollandi. Hún kemst í kynni við mann, austrænan og heillandi, og fellur fyrir honum samstundis. En samband þeirra hlýtur snöggan endi þegar maðurinn er myrtur, skotinn á færi úti á götu, skömmu eftir fyrsta ástarfund þeirra. Þessi afdrifaríku kynni umturna lífi Margrétar, eftir stendur hún með barn undir belti og allt umhverfi hennar er kortlagt upp á nýtt. Upphefst leit Margrétar að manninum sem hann hafði að geyma og lausn morðgátunnar.

Í sögunni notast Ragna við íslenska þjóðtrú þar sem Margrét hefur sér til fulltingis fylgju, einhvers konar fugl; blending hrafns og uglu. Hér er íslensk þjóðtrú nýtt til að sýna nútímann í nýju ljósi með tengingu fornrar hjátrúar við rökhyggju nútímans.

Hið yfirnáttúrulega kemur einnig fyrir í þriðju bók hennar Strengir (2000), brotakenndri ástarsögu úr íslenskum samtíma. Frásögnin snýr að ást aðalpersónunnar, Maríu Myrkár, á guðfræðinemanum Boga sem hún kynnist ung að aldri. Bláeygð sjá þau framtíð sína saman fyrir sér baðaða í ljóma nýuppgötvaðrar ástar, en fyrr en varir koma brestir í sambandið eftir tilraunir á sviði holdlegra nautna, og leiðir þeirra skilja. Áratug síðar mætast þau aftur, María þá einstæð móðir og Bogi giftur tveggja barna faðir, og strengir þeirra flækjast á ný. María er af þriðju kynslóð einstæðra mæðra og fjallar sagan m.a. um frelsi og stöðu kvenna í nútímasamfélagi. Í bókinni stingur Ragna gat á raunsæja ástarsöguna með ljóðrænum innskotum frá dularfullri veru, náttúruvætti sem fylgt hefur Maríu og ætt hennar langt aftur í aldir. Líkt og í Skot veitir þessi frásagnartækni, í ætt við töfraraunsæi, samtímalýsingum hennar aukið vægi.

Falskt landslag

kroppad-Hid_fullkomna_landslagÍ árslok 2009 kom út Hið fullkomna landslag, fjórða skáldsaga hennar. Íslenskur listfræðingur, Hanna, snýr heim frá Amsterdam til að taka við rekstri tilraunasals listasafns í Reykjavík.  Það er efnahagsbóla á Íslandi, ósprungin, og auðmenn, þrátt fyrir almennt skilnings- og áhugaleysi á menningu og listum, finna sér fróun í því að styrkja söfn landsins með dýrum listaverkum. Safninu hefur nýlega fallið í skaut ein slík gjöf, landslagsmálverk frá fyrri hluta 20. aldar eftir þekkta íslenska listakonu, en grunur vaknar um að verkið sé falsað. Hanna tekst á við þetta flókna og erfiða mál í samvinnu við starfsmann listasafnsins en rannsókn þeirra er erfiðleikum bundin því fáir sjá hag sinn í því að koma róti á þægilega samvist auðvalds og menningarstofnana með opinberun falsaðs verks.

Í þessu verki nýtur innsýn Rögnu í íslenskan listageira sín vel. Sviðsetningin er nýtt til að draga fram áríðandi spurningar um ólíkt gildismat og viðhorf til menningar um leið og hún varpar ljósi á andvaraleysið sem ríkti í skjóli „góðærisins“ á Íslandi og sýnir áhrif þess á ímynd þjóðar þegar raungildi menningararfs hennar tærist.

Í verkum Rögnu má greina sameiginlegan þráð í þeim áleitnu spurningum sem þau vekja um breytt viðhorf til sammannlegra þátta: náttúrunnar, menningar, kvenímynda og hlutverks kvenna, en í hverju verki er unnið með efnið á nýjan og skapandi hátt. Síðasta skáldsaga hennar þótti festa hana í sessi sem einn af  fremstu núlifandi rithöfundum þjóðarinnar. Fríða Björk Ingvarsdóttir, blaðamaður og bókmenntafræðingur, sagði verkið vera einstakt og í því hafi Rögnu tekist að „afhjúpa þær tálmyndir er fram á síðustu tíma réðu lögum og lofum. Hið fullkomna landslag sýnir og sannar að Ragna Sigurðardóttir er einn besti höfundur sinnar kynslóðar.“