Álfrún Gunnlaugsdóttir

Álfrún Gunnlaugsdóttir hefur skipað sér sess meðal fremstu skálda okkar og hlotið lof og viðurkenningu gagnrýnenda. Nýjasta verk hennar, Rán, kom út fyrir jólin 2008.

AlfrunÁlfrún Gunnlaugsdóttir er rithöfundur sem ekki hefur látið mikið á sér bera í almennri bókmenntaumfjöllun á Íslandi. Hún hefur þrátt fyrir það skipað sér sess meðal fremstu skálda okkar og hlotið lof og viðurkenningu gagnrýnenda jafnt sem verðlaunanefnda. Álfrún hóf rithöfundarferil sinn seint en hún var komin á miðjan aldur þegar hún gaf út sitt fyrsta verk, smásagnasafnið Af manna völdum árið 1982. Fram að því hafði hún fyrst og fremst verið þekkt sem fræðikona, en hún byggði upp námsbraut í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands eftir að hafa dvalið lengi erlendis, m.a. við nám í Sviss og á Spáni.

Verk Álfrúnar þykja tilraunakennd og erfitt er að festa niður frásagnarstíl hennar en í þeim vinnur hún gjarnan með tengsl minnis og frásagnar; hvernig minnið, líkt og mannkynsagan, fellur illa að stjórn og skipulagi. Í skáldsögum sínum, jafnt sem smásögum, nýtir Álfrún sér oft form minningarskáldsögunnar þar sem sögumenn líta yfir farinn veg, fylla í eyður og reyna að þræða saman minningarbrot svo út komi heilsteypt mynd eða frásögn.  Álfrún ólst upp á stríðsárunum en þá var Reykjavík krökk af aðfluttum hermönnum en stjórnmálaátök, stríð og ábyrgð mannsins gagnvart sjálfum sér og öðrum er endurtekið stef  í öllum verkum hennar. Í þeim bregður fyrir sjálfsævisögulegum tóni þar sem dregin er upp mynd af þeim ótta sem fyllti eyjaskeggja á hjara veraldar þegar vopnaðir fulltrúar ofbeldis og átaka í fjarlægum löndum birtust skyndilega. Álfrún dvaldist á Spáni þegar fasisminn gegnsýrði þjóðfélagið, hún veit því af eigin reynslu hvernig áhrif andrúmsloft ofbeldis og kúgunar hefur á mannskepnuna. Sagnaheimur Álfrúnar er umfangsmikill og víður, sögur hennar eru ekki bundnar Íslandi heldur flakka þær á milli heimshorna og stórviðburða mannkyns-sögunnar. Álfrún hefur gott vald og þekkingu á hinum ýmsu bókmenntaformum og eru verk hennar krefjandi og knýja lesandann til að greiða úr flækjum frásagna, þar sem stokkið er á milli sjónarhorna, nútíðar og fortíðar.

Álfrún hlaut bókmenntaverðlaun DV árið 1985 fyrir bókina Þel (1984). Hún hefur þrívegis hlotið tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Hringsól (1987), Hvatt að rúnum (1993) og Yfir Ebrofljótið (2001). Nýjasta verk hennar, Rán (2008), var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2008 og fyrir þá bók hlaut hún bæði Menningarverðlaun DV og Fjöruverðlaunin.